Hjörleifur Guttormsson 26. júní 2008

Bankastjóri gerir í nyt sína
Birtist í Morgunblaðinu 26. júní 2008

Einn af bankastjórum Landsbankans, Sigurjón Árnason, hefur síðustu daga ítrekað stigið fram í fjölmiðlum og krafist þess að þjóðin falbjóði nú þegar til stóriðju það sem ósnert er af orkulindum landsins til að kynda áfram það bál sem stjórnvöld með dyggri aðstoð Landsbankans og fleiri fjármálastofnana hafa staðið fyrir í röskan áratug. Orðrétt sagði fjárhirðirinn nú á Jónsmessu í hádegisfréttum RÚV: „Við eigum að nýta þær auðlindir sem við eigum. Það er mikið tækifæri að koma þeim í verð við þessar aðstæður og hagnast á því.“

Eigendum Landbankans var færður þjóðbankinn á silfurfati af meirihluta Alþingis fyrir nokkrum árum. Pundið hafa þeir m.a. ávaxtað í þeirri útrásarbólu sem nú er að ríða þjóðarskútunni á slig og með því að hampa framan í fólk í húsnæðisleit 100% lánstilboðum. Almenningur sýpur nú seyðið af hollráðum þessara snillinga sem haldnir eru þeirri skæðu fíkn sem sem er afleiðing of stórra skammta af gjafafé. Nú hrópa þeir á meira, fljótt, fljótt, í stað þess að leita sér meðferðar. Drjúgur meirihluti Íslendinga virðist hins vegar hafa áttað sig á að spekúlantar fjármálafyrirtækjanna hafi þegar fengið meira en nóg af ættarsilfrinu til að sólunda. Sama dag og nefndur bankastjóri steig fram öðru sinni greindi Fréttablaðið frá því að um 57% landsmanna sé mótfallinn því að meira verði virkjað fyrir orkufrekan iðnað.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim