Hjörleifur Guttormsson 27. janúar 2008

Sjúkt og ósjálfbært efnahagskerfi

Umræðan frá því í haust um alþjóðleg efnahagsmál og blikurnar hérlendis hefur verið lærdómsrík og sýnt fram á hrikalega veikleika í fjármálakerfi heimsins og ráðaleysi manna við að afstýra meiriháttar ófarnaði, kreppu eða þaðan af verra. Þekking í hagvísindum er ekki upp á marga fiska og stór hluti hagfræðinga ber fyrir sig kennisetningar um óskeikulleika markaðarins og segja að forðast beri flest það sem sært geti þá heilögu kú.

Í greinum og viðtölum um liðin áramót og undanfarna daga hafa ýmsir hagfræðingar og álitsgjafar hérlendis stigið fram á sviðið og undirstrikað óvissuna sem ríkir á fjármálamörkuðum jafnt hér heima og erlendis. Á gamlársdag lýsti Friðrik Már Baldursson því hvernig húsbyggjendur í Bandaríkjunum hefðu í stórum stíl verið blekktir með sérinnpökkuðum gylliboðum lánastofnana til að fjárfesta í íbúðarhúsnæði  langt umfram greiðslugetu. (Mbl. 31. des 2007) Virt matsfyrirtæki gáfu þessum tilboðum toppeinkunnir en afleiðingarnar hafa verið að birtast í svonefndri íbúðarlánakreppu þar vestra, stórfelldum afskriftum banka og falli hlutabréfa um veröld víða. „Það verður ekki fyrr en búið er að hreinsa óþverrann úr kerfinu sem það kemst í samt lag á ný“ sagði Friðrik Már. Hann undirstrikaði jafnframt óvissuna um hvenær það gerist og benti á að sennilega muni þetta hafa áhrif á íslenska banka.

Margar aðrar raddir endurómuðu það sama um áramótin. „Óvissa að veislunni lokinni“ var fyrirsögn Björns Jóhanns Björnssonar á viðskiptasíðu Morgunblaðsins þennan síðasta dag liðins árs. Í áramótablaði Markaðarins vék Tryggvi Þór Herbersson að því hvernig Seðlabankar víða um heim eru milli steins og sleggju. „Þetta sýnir hve gríðarlega alvarleg staðan er“ segir hann í grein sinni.

Morgunblaðið hefur fengið tiltal frá talsmönnum banka og fjármálafyrirtækja hérlendis fyrir að fjalla um þessa þróun síðustu vikur og benda á afleiðingar sem eru að koma fram hérlendis og sem rekja má til aðsteðjandi kreppu. Ritstjórar blaðsins hafa svarað fyrir sig fullum hálsi í tveimur Reykjavíkurbréfum í röð, því síðara nú sunnudaginn 27. janúar. Blaðið á þakkir skildar fyrir einarðan málflutning og fréttir um þessi háalvarlegu efni sem gera má ráð fyrir að skelli á íslensku efnahagslífi á þessu ári. Þar mun ekki standa á að almenningur fái sendan reikninginn. Það er víðar en vestanhafs sem bankar hafa verið greiðviknir í lánveitingum til húsnæðiskaupa, að ekki sé talað um eyðslulán í daglega neyslu og sólund.

Ekki eru allir bankamenn og ráðgjafar undir þá sök seldir að reyna að fegra ástand og horfur. Dæmi um það eru tvær greinar Ragnars Önundarsonar í Morgunblaðinu í þessum mánuði, sú fyrri undir fyrirsögninni „Lánakreppan kallar á nýja hagstjórn“ (7. janúar 2008). Sú síðari eftir hann „Oftrú á afskiptaleysi“ birtist 26. janúar. Þar gagnrýnir Ragnar harðlega ábyrgðarlaus allt að 100% íbúðarkaupalán bankanna til almennings sem sum hver hafi runnið til eyðslu en ekki íbúðarkaupa. „Bankar eru með hundruð milljarða í íbúðalánum sem enginn annar en þeir sjálfir hafa metið. Vandinn er líkur þeim sem amerískir bankar glíma við, að vísu enn dulinn vegna þenslu. Það kemur að skuldadögum og útlánatöpum. Fjölmörg heimili verða fórnarlömb þessa“ segir Ragnar og bendir á nauðsyn aðhalds með bönkunum.

„Fjármálastormurinn orðinn að fellibyl“ segir höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins nú um helgina og vitnar í Georg Soros um "Öfgar markaðarins og bókstafstrú“. Allt eru það réttar aðvaranir. En kreppa samtengds fjármála- og efnahagskerfis heimsins er langtum djúpstæðari en atburðir síðustu mánaða vitna um. Driffjöður þessa kerfis er neysla og ofurneysla á Vesturlöndum þvert ofan í þá vitneskju sem fyrir liggur um áhrifin á umhverfið og heilsu manna í þokkabót. Hnattvædda efnahagskerfið sem innleitt var í núverandi mynd með hömlulausum („frjálsum“) rafrænum fjármagnsflutningum fyrir 15-20 árum er orðið að meinvætti sem seint verður ráðið við, ef bábyljan um óskeikulleika markaðarins verður höfð að leiðarljósi.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim