Hjörleifur Guttormsson 28. ágúst 2008

Góð þátttaka í degi Jóns lærða

Dagur Jóns Guðmndssonar lærða í Hjaltastaðaþinghá sunnudaginn 10. ágúst 2008 fór fram samkvæmt dagskrá og tókst með miklum ágætum. Um 60 manns hlýddu á erindi í félagsheimilinu Hjaltalundi þar sem farið var yfir litríka ævi og störf Jóns lærða, fræðastörf hans á ýmsum sviðum, myndverk og teikningar í handritum svo og skáldskap hans.

Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur setti samkomuna fyrir hönd undirbúningsnefndar og Óðinn Gunnar Óðinsson formaður Menningarráðs Austurlands stýrði fundinum og kynnti ræðumenn. Rússneski rithöfundurinn Leonid Korablev flutti ávarp og útgefnar bækur hans sex talsins lágu frammi til sýnis. Allar eru þær með einum og öðrum hætti tengdar Íslandi, íslenskum þjóðfræðum og kemur Jón lærði þar víða við sögu. Ævisaga hans sem Leonid hefur tekið saman liggur fyrir í handriti.

Hjónin Sigursveinn Magnússon tónskólastjóri og Sigrún Valgerður Gestsdóttir söngkona léku á forn hljóðfæri eins og langspil og sungu vísur og stemmur við mjög góðar undirtektir.

Eftir samkomuna í Hjaltalundi fór fram minningarathöfn um Jón lærða og konu hans Sigríði Þorleifsdóttur í Hjaltastaðakirkju. Hildigunnur Sigþórsdóttir formaður sóknarnefndar greindi frá sögu kirkjunnar og viðgerðum á henni sem senn er að ljúka. Hjaltastaðakirkja var byggð af timbri upp úr 1880 í stað torfkirkju. Guðmundur Rafn Sigurðsson framkvæmdastjóri Kirkjugarðaráðs lýsti lagfæringum á kirkjugarðinum og Hjörleifur Stefánsson arkitekt sagði frá gerð legsteins yfir þau hjón framan við inngang kirkjunnarog minningartöflu í forkirkju en hann er hönnuður að hvorutveggja. Prófasturinn Jóhanna Sigmarsdóttir stýrði helgistund í þéttsetinni kirkjunni og blessaði minningu Jóns og Sigríðar.
Í dagslok gekk um tylft manna að Dalaseli þar sem Jón og Sigríður síðast bjuggu skammt innan við Dali í Útmannasveit. Þar eru skýrar rústir og garðlög sem bíða frekari rannsókna.

Hvernig valdi Jón lærði sér legstað?

Í Ferðabók sinni frá 1775 (2. bindi, s. 232) lýsir Olavius því hvernig Jón lærði valdi sér legstað í kirkjugarðinum á Hjaltastað. Frásögnin fer hér á eftir:

„Annars var mér sagt það um hann, ásamt fleiru, að hann skömmu fyrir andlát sitt gengi fram og aftur um kirkjugarðinn á Hjaltastað, hlustaði þar við hvert leiði, en segði stöðugt að því búnu: „Hér eru of margir, hér er alltof ókyrrt,“ þar til er hann að lokum valdi sér legstað fyrir framan kirkjudyr, því að þar sagði hann, að enginn væri grafinn, og reyndist það svo.“

Líkurnar fyrir því að þessi saga sé rétt styrktust við það sem Hildigunnur Sigþórsdóttir, formaður sóknarnefndar, greindi frá við athöfnina 10. ágúst, að tvívegis í hennar tíð hafi verið hreyft við jarðvegi vegna framkvæmda framan við kirkjudyrnar og í bæði skiptin komið upp jarðneskar leifar.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim