Hjörleifur Guttormsson | 29. ágúst 2008 |
Hlutverk jarðfræðiseturs á Breiðdalsvík Sendiherra, Lord Oxburgh, Mrs. Walker, Ómar Bjarki, sveitarstjóri og aðrir viðstaddir. Það er stór viðburður sem við erum þátttakendur í á þessum degi, mjög stór fyrir lítið kauptún á Austfjörðum en þýðingarmikill atburður fyrir Ísland allt og sögu jarðvísindanna. George Walker var óvenju hæfur vísindamaður, glöggskyggn og skýr eins og verk hans öll bera með sér. En hann var eflaust líka heppinn og lifði auk þess á byltingartímum í jarðvísindum. Á sinn hátt líktist hann landnámsmanni þegar hann kom til Íslands að forvitnast um holufyllingar en endaði með því að leggja undir sig heilan landsfjórðung í fræðunum og skila á einum áratug verki á heimsmælikvarða sem margir hefðu talið verðugt sem ævistarf. Styrkur Walkers fólst í nálgun hans gagnvart viðfangsefninu hverju sinni, aðferðafræði sem var skýr og einföld í glímunni við annars fjölbreytt og flókin viðfangsefni. Og þessari færni skilaði hann til lærisveina sinna, eins og verk þeirra hérlendis bera ljósan vott. Í þeim hópi voru þeir Carmichael, Gibson, Blake, Haggerty, Kinsman, Annels, Roobol og fleiri. Fyrir Ísland og jarðvísindin er það ómetanlegt að gögn dr. Walkers frá Íslands-árunum verði varðveitt og gerð aðgengileg lærðum og leikum. Eiginkona hans Mrs Hazel Walker, dóttirin Alison og aðrir aðstandendur eiga mikinn heiður skilið fyrir víðsýni og skilning sem felst í ákvörðun þeirra. En gjöf þeirra leggur þeim sem við taka, jarðfræðisetrinu á Breiðdalsvík og aðstandendum þess, miklar skyldur á herðar. Þeim arfi sem hér er ánafnað til okkar Íslendinga þarf að sinna af trúmennsku og alúð þannig að hann verði aðgengilegur sem flestum, jafnt lærðum sem leikum. Walker var ekki vísindamaður í fílabeinsturni heldur kunni þá list að miðla. Um það vitna rit hans og það staðfesta nemendur hans og þeir sem hlýddu á fyrirlestra hans á alþjóðlegum ráðstefnum. Breiðdalssetur þarf að valda því hlutverki að miðla, auka og bæta við þann grunn sem hér er lagður við stofnun þess. Á tímum Netsins skiptir staðsetning fræðsluefnis og rannsóknaraðstöðu ekki meginmáli, heldur að skrásetning, flokkun upplýsinga og aðgengi sé í góðu lagi. Styrkleiki þessarar stofnunar nú í byrjun er meðal annars að hún er staðsett í miðju landnámi Walkers í jaðri Breiðdalseldstöðvar sem vegna lýsingar hans í ritgerðinni 1963 telst vera dæmigerð fyrir aðrar megineldstöðvar á gosbeltum heimsins. Frumkvæði Ómars Bjarka Smárasonar og tengsl hans við dr. Walker og fjölskyldu hafa auðvitað skipt sköpum um það sem hér er að verða að veruleika á þessum degi. Til að jarðfræðisetrið hér nái rótfestu þarf hins vegar ekki aðeins að hlúa vel að því heima fyrir heldur að skapa því vaxtarskilyrði með opinberum stuðingi og að tengja það öðrum stofnunum á jarðfræða- og fræðslusviði nær og fjær. Skólar á öllum stigum eru sjálfsagðir viðskiptaaðilar slíkrar stofnunar, fræðimenn geta fundið hér skjól til rannsókna og gestir og gangandi sótt hingað fræðslu um jarðfræði Íslands og hliðstæðra svæða á hnettinum. Íslendingar hafa því miður nú um stundir ekki af miklu að státa þegar kemur að náttúrufræðisöfnum fyrir almenning og skóla. Í öllum nálægum ríkjum þykja slík söfn ómissandi og stolt höfuðborga og byggða sem einhvers mega sín. Hérlendis er staðan önnur og þyngri en tárum taki hjá þjóð sem telst vel stæð á efnahagslegan mælikvarða. Frumkvæðið á Breiðdalsvík og fleiri fámennum stöðum úti um land sem komið hafa á fót söfnum til að auka skilning manna á náttúru og nánasta umhverfi ætti að verða hvatning til að bæta úr á stærri stöðunum þar sem sýnisgripir hvíla nú í kössum, jafnt í Reykjavík sem á Akureyri. Söfn og aðrar fræðastofnanir þurfa í senn á samvinnu og sérhæfingu að halda. Austfirðingar áttuðu sig á þessu fyrir aldarþriðjungi þegar samband sveitarfélaga, SSA, kom á fót Safnastofnun Austurlands sem eins konar regnhlíf til að stilla saman strengi án þess hver apaði eftir öðrum á safnasviði. Að þessu búa menn hér eystra enn í dag. Náttúrustofa Austurlands, setur og söfn á sviði náttúrufræða hér í fjórðungnum sem og annars staðar þurfa að stilla saman stengi sína og vinna þannig gegn einangrun og fásinni. Náttúrufræðasviðið allt á Íslandi þarf á endurreisn að halda, renaissance, sem samboðin er þeim mikla efnivið vel menntaðs fólks sem nú er til staðar í landinu. Þessu nátengd er náttúruverndin og sú sjálfbæra þróun sem margir tala um en sem vill gleymast þegar til kastanna kemur. Heimamenn hér í Breiðdal hafa stutt dyggilega við það sem hér er að gerast, fremstir í flokki Páll Baldursson sveitarstjóri og völundurinn Björn Björgvinsson, einnig með uppbyggingu á merkilegu steinasafni sem kallast á við setrið í kaupfélaginu gamla. Steinasafn Petru hér í næsta firði er heldur ekki langt undan. Breiðdælingurinn Heimir Þór Gíslason kynntist Walker og fjölskyldu þegar Walker vann hér um slóðir að rannsóknum sínum. Í minningargrein um Walker í tímaritinu Glettingi fyrir tveimur árum lýsir Heimir samskiptum þeirra á eftirminnilegan hátt, hógværð vísindamannsins og nægjusemi um mat og megin. Undir lok greinar segir bóndasonurinn frá Selnesi: „Ég spái því að sá tími komi að Austfirðingar minnist þessa merka manns með viðeigandi „minnisvarða“ á viðeigandi stað.” Við höfum ekki þurft að bíða lengi eftir að sá spádómur rættist, því að á þessum degi hefur Heimi orðið að ósk sinni. Þakkir séu öllum þeim er hér hafa komið að verki. Til hamingju með Breiðdalssetur dr. Walkers. Hjörleifur Guttormsson |