Hjörleifur Guttormsson 1. maí 2009

Blekkingarnar um Evrópusambandið
og lýðskrum Samfylkingarinnar

Á sama tíma og Samfylkingin og skyldulið hennar reyna að þrýsta Íslendingum inn í ESB blasir við sambandinu djúp kreppa sem ógnar undirstöðum þess og framtíð. Við ríkjandi aðstæður afhjúpast gífurlegar mótsagnir innan ESB sem varða ekki síst Evru-myntbandalagið og stöðu ríkjanna innan þess. Í fyrsta sinn eftir að stefnan var tekin á sameiginlega mynt heyrast nú efasemdir um að sjálft ESB-kerfið fái staðist átökin. Nýlegt dæmi um slíkar áhyggjur eru orð eins af postulum samrunans, Joschka Fischer, fyrrum utanríkisráðherra Þýskalands sem í viðtali við BBC sagðist nú í fyrsta sinn óttast um framtíð ESB. Í svipaðan streng taka fleiri eins og Helmut Schmidt fyrrum kanslari Þýskalands og Jaques Delors lengi forseti framkvæmdastjórnar ESB.

Kreppan alvarlegust í ESB

Um það leyti sem íslensku bankarnir hrundu sl. haust  kepptust leiðtogar helstu ESB-ríkja við að telja fólki trú um að sambandið stæði styrkum fótum með heilbrigðara fjármálakerfi og minni skuldsetningu en Bandaríkin og Bretland. Nú er annað komið á daginn. Evrópusambandið stendur frammi fyrir fjármála- og efnahagskreppu sem reynist dýpri og enn erfiðari viðfangs en í Bandaríkjunum til þessa. Verg þjóðarframleiðsla í Bandaríkjunum er nú talin munu dragast saman um 2% á þessu ári en um 3–4% í ESB á heildina litið. Viðbrögðin við samdrættinum hafa verið afar ólík hjá þessum risum, Bandaríkin hafa dælt opinberu fjármagni út í efnahagskerfið í stórum stíl en ESB farið hægar í sakirnar. Þar ráða mestu hagsmunir þýsku auðhringanna sem halda utan um sitt með stuðningi þýskra stjórnvalda en á kostnað annarra aðildarríkja. Framleiðni er afar misjöfn í einstökum ESB-ríkjum, hæst í þýskum iðnaði en langtum lakari í Miðjarðarhafslöndum ESB sem af þeim sökum búa m.a. við langtum óhagstæðari lánskjör. Þannig engjast einstök ESB-ríki nú í spennitreyju sameiginlegs gjaldmiðils og æ fleiri rekast nú á Maastricht-skilyrðin og eiga yfir höfði sér refsiaðgerðir. Írland og Lettland eru verst stödd en önnur lönd fylgja fast á eftir. Þessi staða ætti að vera þeim Íslendingum umhugsunarefni sem láta sig dreyma um ESB-aðild og evru sem gjaldmiðil.

Lýðskrum og veruleiki

Daginn fyrir kjördag auglýsti Jóhanna Sigurðardóttir í öllum fjölmiðlum: „ESB snýst um vinnu og velferð.“ Hver er raunveruleikinn hvað þetta varðar? Atvinnuleysistig innan ESB hefur um langt skeið verið á allt öðru og lakara róli en hérlendis. Um skeið tókst að ná atvinnuleysi niður í 6-7% að meðaltali en síðustu tvö árin hefur það vaxið til muna og er nú að meðaltali 8% í aðildarríkjunum. Verst er ástandið  á Spáni með 17.5% án vinnu og yfir 4 milljónir atvinnuleysingja, í Lettlandi og Litáen um og yfir 14% og á Írlandi 10%. Í Þýskalandi er atvinnuleysi nú 8,6%, tvöfalt meira í landinu austanverðu en í vesturhlutanum. Alvarlegast er atvinnuleysið í ESB hjá ungu fólki á aldrinum 15–24 ára og nemur nú að meðaltali 17,5%. Á Spáni er atvinnuleysið hjá þessum aldurshópi um 32%, í Svíþjóð 24%, í Ungverjalandi 22% og í Finnlandi 17%. Þetta eru meðaltöl en víða á landsbyggð í ESB er atvinnuleysið langtum meira.
            Ekki er að undra þótt forystumenn í ESB-ríkjunum hafi vaxandi  áhyggjur af félagslegum óróa vegna atvinnuleysisins, niðurfærslu launa og annarri skerðingu á réttindum almennings. Þannig hafa Michael Sommer forseti þýska verkalýðssambandsins DGB og Gesine Schwan forsetaframbjóðandi þýskra sósíaldemókrata nýlega varað við að til óeirða kunni að draga síðar á árinu og í Frakkandi gerast svipaðar raddir háværar.
            Eins og sjá má af þessu getur málflutningur oddvita Samfylkingarinnar um ESB sem kjölfestu „vinnu og velferðar“ ekki flokkast undir annað en ómerkilegasta lýðskrum.

Ólýðræðislegar valdastofnanir

Ólýðræðislegt stjórnkerfi hangir sem myllusteinn um háls Evrópusambandsins. Framkvæmdastjórnin í Brussel, skipuð embættismönnum, er eina stofnun sambandsins sem lagt getur fram lagafrumvörp með tillögum um væntanlegar tilskipanir. Evrópuþingið svonefnda hefur aðeins umsagnarrétt um slík frumvörp, þarf hins vegar að samþykkja fjárlög sambandsins og getur beitt stöðvunarvaldi í vissum tilvikum.  Fjarlægar valdastofnanir ESB í Brussel (framkvæmdastjórnin), Strassburg (þingið) og Lúxemburg (dómstóllinn) hafa ýtt undir pólitískt sinnuleysi og gefa lítið sem ekkert færi á lýðræðislegu aðhaldi. Að stofnunum þessum safnast hins vegar herskarar launaðra lobbyista, flestir á vegum stórfyrirtækja og hagsmunasamtaka.
            Nýkomin er út skýrsla á vegum ESB sem leiðir í ljós að ríkin 10 í austanverðri álfunni sem gengu í sambandið árið 2004 telja sig fá litla sem enga áheyrn í Brussel og hafa gefist upp við að reyna að hafa áhrif á ákvarðanir sem meirihluti þeirra aðildarríkja sem fyrir voru mótar hverju sinni.
............
            Ekki er seinna vænna að almenningur fái hlutlægar upplýsingar um eðli og innviði Evrópusambandsins þannig að fólk sjái í gegnum þann áróður sem óskammfeilnir stjórnmálamenn og sjálfskipuð „elíta“ hafa látið frá sér fara að undanförnu. 



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim