Orkumál og umhverfis- og auðlindavernd
Ályktun flokksráðsfundar VG á Hvolsvelli 29. ágúst 2009
Þörf róttækra umskipta í orkumálum
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn 28.–29. ágúst 2009, minnir á þann grundvallarvanda sem blasir við jarðarbúum í umhverfis- og auðlindamálum. Hlýnun lofthjúpsins af mannavöldum og óheillavænlegar breytingar á vistkerfum jarðar kalla á róttæk umskipti í orkunotkun og nýtingu takmarkaðra auðlinda. Olíulindir fara þverrandi á næstu áratugum sem óhjákvæmilega mun valda stighækkandi heimsmarkaðsverði á orku. Vinna þarf því á markvissan hátt gegn orkusóun og leggja áherslu á vistvæna og endurnýjanlega orkugjafa.
Umgangast verður af framsýni og með ríku tilliti til verndunar umhverfis og náttúru þær auðlindir sem Íslendingar eiga í vatnsafli og jarðvarma. Með Ríó-yfirlýsingunni undirgengumst við ásamt öðrum þjóðum að gæta varúðar við hagnýtingu þessara auðlinda.
Sjálfbær rekstur jarðhitasvæða
Í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna frá í maí 2009 er kveðið á um, að „við orkuframleiðslu með vatnsafli og jarðvarma verði gætt varúðar- og verndarsjónarmiða“ svo og að í heildstæðri orkustefnu sem nýskipuðum stýrihópi er ætlað að vinna að „verði sjálfbær nýting höfð að leiðarljósi sem forðast m.a. ágenga nýtingu á jarðhitasvæðum.“ Í því sambandi ber að hafa í huga að raforkuframleiðsla með jarðvarma nýtir einungis um 12% varmans og að árangur af niðurdælingu er enn sem komið er mikilli óvissu háður. Við slíkar aðstæður samrýmist stórtæk raforkuframleiðsla á háhitasvæðum ekki markmiðinu um sjálfbæra þróun. Flokksráðsfundurinn leggur áherslu á að orkufyrirtækjum verði gert skylt að tryggja sjálfbæran rekstur þeirra svæða sem þegar hefur verið raskað áður en sótt verði inn á ný og ósnortin jarðhitasvæði.
Vandað verði til Rammaáætlunar
Samstarfsyfirlýsing stjórnarflokkanna gerir ráð fyrir að Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma verði lögð fyrir Alþingi á komandi vetri og fái síðan lögformlega stöðu í stjórnkerfinu. Flokksráðsfundurinn áréttar að vanda verði til þessa verks og nægur tími þurfi að gefast til að ljúka því sómasamlega. Því beinir fundurinn því til ríkisstjórnarinnar að fyrirhuguð skil af hálfu verkefnisstjórnar Rammaáætlunar verði framlengd um a.m.k. eitt ár og aukið svigrúm nýtt til að afla gagna um þá þætti þar sem upplýsingar einkum vantar. Rammaáætlunina ber m.a. að fella að boðaðri stefnu um landslagsskipulag og hún þarf að verða hluti af víðtækri náttúruverndaráætlun og taka mið af væntanlegum vatnalögum.
Nýtt umhverfis- og auðlindaráðuneyti
Enn fremur ítrekar fundurinn mikilvægi þess að ný náttúruverndaráætlun verði samþykkt sem fyrst og að ríkisstjórn Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs og Samfylkingarinnar leggi fram hugmyndir um framtíðarsýn í náttúruvernd og auðlindanýtingu. Þar verði áhersla lögð á almannaeign auðlinda, lykilhlutverk nýs umhverfis- og auðlindaráðuneytis, umhverfisvæna nýtingu og forgangsröðun í þágu náttúrunnar.
Virkjunaráformum í Neðri-Þjórsá hafnað
Flokksráð VG minnir á að stjórnarsáttmálinn gerir ekki ráð fyrir að teknar verði neinar frekari ákvarðanir tengdar virkjun neðrihluta Þjórsár áður en rammaáætlun hefur fengið lögformlega afgreiðslu. Í samræmi við stefnu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs lýsir flokksráðsfundurinn sig andvígan fyrirliggjandi virkjunaráformum á þessu svæði og felur þingflokki og ráðherrum VG að sjá til þess að ekki verði í þær ráðist.
Hofsjökulsfriðland ásamt Þjórsárverum
Flokksráðið fagnar því að á vegum umhverfisráðuneytis er vinna hafin að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Telur flokksráðið rétt að Þjórsárver verði í framtíðinni hluti af enn stærra friðlýstu svæði er taki til alls Hofsjökuls með umhverfi hans, að meðtöldu m.a. friðlandinu í Guðlaugstungum, upptakasvæðum jökulsánna í Skagafirði svo og Kerlingarfjöllum sem lengi hafa verið á náttúruminjaskrá.
Sameign á orkuauðlindum
Flokksráðið tekur eindregið undir tillögur náttúruverndarsamtaka um friðlýsingu Gjástykkis í Þingeyjasýslu og stofnun eldfjallafræðagarðs.
Fundurinn beinir því til ríkis og sveitarfélaga að standa vörð um friðlýst svæði í náttúru Íslands og tryggja að þeim verði ekki raskað í þágu orkuvinnslu og að sameign þjóðarinnar á orkuauðlindum innan íslenskrar efnahagslögsögu verði tryggð. Yfirumsjón með vernd og viðgangi náttúruauðlindanna og umsýslu með Rammaáætlun þarf sem fyrst að fela nýju umhverfis- og auðlindaráðuneyti eins og kveðið er á um í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
(Millifyrirsagnir HG)
Hjörleifur Guttormsson |