Hjörleifur Guttormsson 2. október 2009

Icesafe-málið og afsögn Ögmundar

Deilurnar út af Icesafe-reikningum Landsbankans frá árunum 2007–2008 erlendis hafa upptekið pólitíska umræðu hérlendis meira en nokkuð annað frá því að kosið var til Alþingis í lok apríl og ný meirihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var mynduð í kjölfarið. Það sérkennilega við stöðu þess máls er að í langri samstarfsyfirlýsingu nýrrar meirihlutastjórnar frá í vor er ekki að finna starfkrók um Icesafe frekar en það væri ekki til. Eftir að fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar undirritaði samning um meðferð Icesafe-málsins við Breta og Hollendinga í byrjun júní sl. hafa staðið harðar deilur hér innanlands um málsmeðferðina og fátt annað komst að á Alþingi á sumarmánuðum. Nú hafa pólitísk átök um málið leitt til afsagnar Ögmundar Jónassonar heilbrigðisráðherra. Áfram er þrefað við Hollendinga og Breta um málið án þess að af stjórnvalda hálfu hafi verið gerð skilmerkileg grein fyrir þeim efnisatriðum sem út af standa. Margt er á huldu um stöðu málsins í stuðningsliði ríkisstjórnarinnar og þær ástæður sem leiddu til afsagnar Ögmundar úr ríkisstjórn. Hér verður reynt að rýna í það sem gerst hefur í þessu erfiða „ekki-máli” stjórnarinnar.

EES-reglur og arfur frá Geirs-stjórninni

Glæfraspil bankastjóra Landsbankans í skjóli reglna Evrópusambandsins og EES um bankastarfsemi leiddi til þeirrar hrikalegu niðurstöðu sem birtist alþjóð í kjölfar bankahrunsins fyrir ári. Þann 5. desember 2008 var samþykkt á Alþingi að „leiða til lykta” samninga við bresk og hollensk stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu. Þingmenn VG, sjö talsins, greiddu atkvæði gegn ályktuninni, sem samþykkt var með 29 atkvæðum en 8 þingmenn sátu hjá. Skipuð var í framhaldinu samninganefnd af hálfu þáverandi ríkisstjórnar Geirs H. Haarde. Minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur erfði málið og það kom í hlut Steingríms J. Sigfússonar sem fjármálaráðherra að fylgja því eftir. Hann bætti Svavar Gestssyni sendiherra sem formanni í samninganefndina sem skilaði af sér niðurstöðu til ráðherra í byrjun júní 2009 í formi samnings milli deiluaðila. Eftir kynningu á samningsdrögunum í  utanríkismálanefnd og þingflokkum stjórnarflokkanna undirritaði fjármálaráðherra samninginn formlega þann 5. júní. Þar eð í honum fólst m.a. ríkisábyrgð fyrir risaháum fjárskuldbindingum af Íslands hálfu hlaut málið að fara fyrir Alþingi og leiddi það þann 2. september til setningar laga nr. 96/2009.

Fljótræði hefur einkennt málsmeðferðina

Icesafe-málið hefur því miður frá upphafi einkennst af fljótræði og flumbrugangi og vekur upp margar spurningar. Settar voru á fót samninganefndir af Íslands hálfu án þess að tryggja þeim þá faglegu aðstoð og þekkingu sem þarf til að glíma við stórþjóðir í svo vandasömu máli. Á meðan á samningaviðræðum stóð var látið að því liggja að það stefndi í fyllilega ásættanlega niðurstöðu fyrir Ísland, gott ef ekki einhvers konar sigur. Þegar stjórnvöld síðan undirritaðu samninginn 5. júní sl. höfðu þau ekki tryggt þingmeirihluta á bak við þann gjörning og tilskilda ríkisábyrgð. Fyrir undirritun samningsins höfðu að minnsta kosti fjórir í þingflokki VG lýst andstöðu eða fyrirvörum þannig að ljóst mátti vera að þingmeirihluti við ríkisábyrgð hafði ekki verið tryggður.  Óskiljanlegt er að þess skuli ekki hafa verið gætt af hálfu fjármálaráðherra, áður en kom að endanlegum frágangi samningsins, að öruggur stuðningur væri tryggður í þingliði ríkisstjórnarinnar við þá niðurstöðu sem í boði væri en ella yrði málið látið óafgreitt.   

Fyrirvarar Alþingis við ríkisábyrgð

Alþingi fjallaði um stjórnarfrumvarp um ríkisábyrgð vegna Icesafe-samningsins frá 30. júní til 28. ágúst í sumar eða í tvo mánuði samfleytt. Upphaflegu frumvarpi var þar breytt frá því að vera einföld uppáskrift á fullnustu samningsins yfir í í margvísleg skilyrði af hálfu Alþingis fyrir ríkisábyrgðinni. Meðal efnisatriða í lögunum var að ríkisábyrgðin falli úr gildi 15 árum eftir undirritun samningsins, þ.e. 5. júní 2024, að samningsaðilar verði við rökstuddri og málefnalegri beiðni Íslands um endurskoðun samninganna samkvæmt ákvæðum þeirra, ekki verði gerð aðför í þeim eignum íslenska ríkisins sem það þarf á að halda til að starfrækja hlutverk sitt með viðunandi hætti og að hvergi sé haggað óskoruðum yfirráðum yfir náttúruauðlindum landsins. Þá er það sett sem skilyrði að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir fyrirvarar við ábyrgðina og að þau fallist á hana.  Fyrirvarar laganna eru til bóta svo langt sem þeir ná, þótt efast megi um hald þeirra ef á reyndi. Fjárlaganefnd þingsins breytti skilyrðum nokkuð milli 2. og 3. umræðu um lagafrumvarpið, og ekki að öllu leyti til betri vegar. Til dæmis var felld niður milli umræðna lokasetning 3. greinar um að „fari viðræður ekki fram eða leiði þær ekki til niðurstöðu” takmarkist hámark ríkisábyrgðar í samræmi við hámark 3. mgr. 3. gr. nema Alþingi ákveði annað. Ekki eru ástæður þessarar breytingar skýrðar í framhaldsnefndaráliti. Það styrkti vissulega afgreiðslu málsins af hálfu þingsins að auk stjórnarþingmanna greiddi þorri þingmanna Sjálfstæðisflokksins atkvæði með fyrirvörunum þótt þingmenn flokksins sætu hjá við málið í heild.

Úrslitakostir Jóhönnu Sig.

Lítið sem ekkert hefur verið upplýst af hálfu stjórnvalda um hvernig þau hafa haldið á málum eftir samþykkt laganna um ríkisábyrgð fyrir mánuði. Þó er ljóst að farið hefur verið á flot með samningaáþreifingar við bresk og hollensk stjórnvöld samhliða kynningu á innihaldi laganna. Þetta er gert þótt í 1. grein þeirra sé sett það skilyrði fyrir ríkisábyrgðinni að á fyrirvarana verði fallist.. Í byrjun var gefið til kynna að allt væri að smella saman en um miðjan september kom annað hljóð í strokkinn, þegar upplýst var að viðmælendurnir gerðu alvarlegar athugasemdir við a.m.k. suma fyrirvarana og þeim myndi þurfa að breyta eigi samkomulag að takast. Gagnvart almenningi var þetta þó allt í hálfkveðnum vísum og svo er að sjá að þingflokkur VG hafi ekki verið upplýstur sem skyldi um þróun mála. Það næsta sem menn heyrðu opinberlega var krafa Jóhönnu Sigurðardóttur um að öll ríkisstjórnin verði að syngja í einum kór í Icesafe-málinu og þingmenn stjórnarflokkanna að klappa fyrir niðurstöðunni þegar til Alþingis kemur. Á bak við vakir hjá Samfylkingunni óttinn við þá mynd sem þjóðin hefur fengið af Evrópusambandinu sem kórstjóra í Icesafe-málinu og hefur magnað enn frekar þá andúð sem meirihluti landsmanna hefur á umsókn um þátttöku í því samkvæmi.

Afsögn Ögmundar og eftirleikurinn

Það voru þessir kostir forsætisráðherra sem augljóslega knúðu Ögmund Jónasson til afsagnar og hefðu Jóhanna og Steingrímur átt að geta séð þau viðbrögð hans fyrir. Ögmundur leiddi þann hóp í þingflokki VG sem andæft hafði frá í vor samningnum við Breta og Hollendinga og átti stóran þátt í að koma málinu í þann farveg innan Alþingis sem leiddi til lagasetningar um fyrirvarana. Þetta er óvenju harkaleg framganga af hálfu oddvita ríkisstjórnar en í svipað var reyndar látið skína þegar Jón Bjarnason viðraði andstöðu sína við umsóknina um aðild að ESB. Í raun er verið að fara fram á fyrirfram uppáskrift á hugsanlega niðurstöðu úr þeim samningaviðræðum sem settar hafa verið í gang við gagnaðilana. Þeir atburðir sem leiddu til afsagnar Ögmundar eru líklegir til að gera þá lausn sem oddvitar ríkisstjórnarinnar virðast stefna að erfiðari en ella. Í framhaldi af því að Jóhanna lyfti veldissprota sínum var leitað eftir því að þingflokkar Samfylkingar og Vinstri grænna veittu formönnum flokkanna umboð til að leiða Icesafe-málið til lykta. Ljóst er af fréttum og viðtali í gær við Guðfríði Lilju Grétarsdóttur þingflokksformann VG að umboð af hálfu þingflokks hennar tekur aðeins til þess að leitt verði í ljós á hvaða nótum unnt væri að ná málamiðlun við Hollendinga og Breta. Einstakir þingmenn VG hafa þannig ekki skuldbundið sig fyrirfram til að samþykkja lagabreytingu við lögin um ríkisábyrgð, verði hennar talin þörf.

Erfiður vetur framundan

Niðurstaða Icesafe-málsins er áfram í óvissu og á meðan svo er getur enginn fullyrt um stjórnmálaþróunina á næstu vikum og mánuðum. Framundan er glíma við vandasöm verkefni, ekki síst í ríkisfjármálum, þar sem þörf er á sem víðtækastri samstöðu. Segi ríkisstjórnin af sér er viðbúið að hugmyndin um þjóðstjórn, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kvað í kútinn í kjölfar hrunsins fyrir ári, komi upp á yfirborðið á ný, eða þá minnihlutastjórn sem sæti um skeið í skjóli hlutleysis einhverra flokka. Núverandi staða ætti að vera áminning til beggja oddvita stjórnarflokkanna að rækta betur en undanfarið eigið bakland. Ráðlegast væri jafnframt að stjórnvöld dragi fyrr en seinna til baka umsóknina um aðild Íslands að Evrópusambandinu en þar liggja þegar að er gáð rætur þess ástands sem hér ríkir.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim