Hjörleifur Guttormsson 3. janúar 2009

Vandamál hafsins

Ritstjórnargrein úr The Economist 3. janúar 2009, lauslega þýdd.

Maðurinn ræðst gegn hafinu. Það mun refsa honum ef hann ekki gætir að sér.

Ekki er mikið vitað um hafið, að sagt er; yfirborð reikistjörnunnar Mars er betur kortlagt. En nú hafa 2000 holur verið boraðar í hafsbotninn, 100 þúsund myndir verið teknar, gervihnettir fylgjast með úthöfunum fimm og alls staðar skjóta upp kollinum flotholt  með tækjum og sveiflast upp og niður eins og jó-jó. Heilmikið er vitað, og mjög lítið af því er hughreystandi.
            Áhyggjurnar byrja við yfirborð þar sem manngert koldíoxíð kemst í snertingu við sjávarflötinn. Hafið hefur af þessum sökum súrnað, gert lífi erfitt fyrir ef ekki ómögulegt fyrir sjávarlífverur með kalkskeljar eða stoðkerfi úr kalki.Ekki eru þær allar jafnvel þekktar og rækjur og krabbadýr, og átutegundir svifkrabba, örsmáar og líkjast rækju, gegna lykilhlutverki í fæðukeðjunni: drepir þú þær deyja líka tegundir sem lifa á þeim og líka tegundir ofar í fæðustiganum sem þú borðar bakaðar, steiktar eða með tartarasósu. Og það sem verra er, þú kannt að kippa fótunum undan heilu vistkerfi.
Það er einnig hvað gerist með kóralrifin af völdum sýringar, einkum ef þau eru að veiklast vegna ofveiði, hækkandi hitastigs eða mengunar. Það á við um mörg þeirra og flest eru því alvarlega sködduð. Sumir vísindamenn telja að kóralrifin, sem hýsa um fjórðung allra tegunda sjávarlífvera, kunni að hverfa innan nokkurra áratuga. Það þýddi endalok vistkerfis sem svarar til regnskóga hafsins.
Koldíoxíð hefur líka áhrif á hafið á annan hátt, einkum tengt hnattrænni hlýnun. Sjórinn eykst að rúmmáli við það að hitna. Rúmmál hans vex líka við bráðnun jökla, jökulskjalda og jökulfanna: Grænlandsjökull lætur nú þegar undan síga og gæti horfið að fullu, sem gæti haft 7 m hækkun sjávarborðs í för með sér. Jafnvel við lok þessarar aldar gæti sjávarstaða verið orðin 80 cm hærri en nú er og hugsanlega langtum meira. Þetta er alvörumál fyrir þær 630 milljónir manna sem eiga heima innan við 10 km frá ströndum. Lönd eins og Bangladesh með sína 150 milljón íbúa mun fara í kaf. Jafnvel fólk sem á heima langt inni í landi getur orðið fyrir áhrifum af hlýnuninni: þurrkar í vestanverðum Bandaríkjum virðast stafa af breytingum á hitastigi yfirborðslaga sjávar í hitabelti Kyrrahafs.
            Og síðan er eru það rauð fjörubelti með þörungablóma, marglyttuplágur og dauð svæði þar sem aðeins þrífast frumstæðustu lífverur. Allt færist þetta í aukana, verður algengara og víðtækara. Allt virðist þetta líka tengjast því álagi sem maðurinn veldur vistkerfum sjávar: ofveiði, hnattrænni hlýnun, rennsli áburðar í ár og óshólma, oft heila klabbið samtengt.
            Sumar af breytingunum sem valda áhyggjum  eru kannski ekki eingöngu af mannavöldum. En ein sem örugglega er ekki tilkomin af öðru er vöntunin á fiski í hafinu: mest af þeim stærri hefur þegar verið halað upp, og afgangurinn mun hverfa innan áratuga ef ofveiði heldur áfram í sama mæli og nú. Meira en þrír fjórðu allra fiskitegunda í sjó eru nú í reynd undir sjálfbærnimörkum eða við það að lenda undir þau. Önnur breyting er samsafn af plastúrgangi sem er á reki í tveimur flekum á Kyrrahafi, hvor þeirra á stærð við Bandaríkin. Og hafið er fullt af annarri ódöngun eins og skýrt er frá í sérútgútgáfu okkar  í þessari viku.

Neptúnus myndi gráta

Hver og ein þessara breytinga er hörmungarsaga (katastrófa). Saman mynda þær eitthvað langtum verra. Og það sem meira er, þær gerast óhugnanlega hratt – á áratugum fremur en öldum sem það tekur fiska og plöntur að aðlagast. Margar breytinganna eru óendurkræfar. Það mun taka efnabúskap sjávar tugþúsundir ára að komast í svipað ástand og ríkti áður en iðnbyltingin gekk í garð fyrir um 200 árum, segir Royal Society, virtasti félagsskapur vísindamanna á Bretlandseyjum. Margir óttast líka að að sumar breytingarnar séu að nálgast mörk þar sem komið sé að hröðun sem ekki verði við ráðið. Enginn skilur til hlítar hvers vegna þorskur hefur ekki skilað sér á ný á Grand Banks úti fyrir Kanada, eftir jafnvel 16 ára veiðistöðvun. Enginn veit nákvæmlega hvers vegna jöklar og ísbreiður bráðna jafn hratt og nú gerist, eða hvernig 6 km2 bráðnunarstöðuvatn á Grænlandsjökli gat þornað upp á einum sólarhring eins og gerðist árið 2006. Svo óvæntir atburðir gera vísindamenn taugaóstyrka.
            Hvað er unnt að gera til að rétta hlutina af? Hafið, síðasti hluti jarðarinnar þar sem maðurinn er í gervi veiðimanns og safnara – og jafnhliða baðgestur, námumaður, fargari og mengunarvaldur – þarfnast stjórnunar, rétt eins og þurrlendið. Hagfræðin krefst þess ekki síður en umhverfisverndin, því að heimurinn sólundar fjármunum með bágri umgegni sinni við hafið. Slæm meðhöndlun (stjórnun) og ofveiði færir í súginn 50 milljarða bandaríkjadala ár hvert segir Alþjóðabankinn.
            Hagfræðin veitir líka nokkur svör. Fyrst af öllu þarf að leggja af niðurgreiðslur í fiskveiðum í útgerð sem einkennist af ofafjárfestingu og óhagkvæmni.Ríkisstjórnir þurfa að leita leiða til að veita þeim sem nýta auðlindir hafsins hlutdeild í verndun þeirra. Ein þeirra er kerfi einstaklingsbundinna framseljanlegra veiðikvóta sem hafa sýnt sig að skila árangri á Íslandi, í Noregi, Nýja Sjálandi og á vesturströnd Bandaríkjanna. Svipuð réttindi mætti mætti veita þeim sem menga með köfnunarefni, svipað og gert hefur verið með kolefnismengun í Evrópu, og með námur á landgrunnssvæðum meginlanda. Valkvæð kerfi og framvirk sala á fiski (futures trading for fish) gæti einnig komið að notum.
            Kvótar virka á hafsvæðum innan þjóðríkja. En á úthafinu, utan við efnahagslögsögu þjóðríkja, eru stærri vandamál, og margir óttast að túnfiski, hákarli og öðrum stórfiskum sem synda um úthöfin verði útrýmt. Þó sýna alþjóðlegir fiskveiðisamningar sem taka til hluta Norður-Atlantshafs að stjórnun getur skilað árangri, jafnvel á slíkum sameiginlegum svæðum – þó svo Túnfisknefndin fyrir Atlantshaf sýni jafnframt að slíkt stýring getur misst marks. Og þar sem ekki er unnt að stjórna veiðum verður einfaldlega að stöðva þær. Ekkert reyndist fikistofnun í norðanverðri Evrópu jafn mikið gott síðustu 150 ár eins og önnur heimsstyrjöldin: Með því að halda togurum bundnum í höfnum náðu fiskistofnar sér á strik. Vænleg lausn nú fælist í sjóverndarsvæðum, og því fleiri og stærri þeim mun betra.
            Í heimi þar sem eftirspurn eftir eggjahvítu (próteínum) fer dagvaxandi er þörfin fyrir verndun fiskistofna augljós. Það er ekki erfitt að skilja hvað hrífur. En stjórnmálamenn eru tregir. Fáir þeirra , einkum í Evrópu, eru reiðubúnir að standa uppi í hárinu á öflufum þrýstihópum, nema í litlum ríkjum þar sem fiskveiðar eru svo  mikilvægar efnahagslega að ekki er hægt að horfa fram hjá hættunni af allsherjar útrýmingu (mass extinctions).

Virkjum nú öldurnar síkviku

En allsherjar útrýming, hversu fjarlæg sem hún sýnist, sem ætti að upptaka hugann, er útrýming manna. Það er ekki skynsamlegt að horfa framhjá henni þar sem losun CO2 á í hlut, hin stóra bölvunin fyrir úthöfin. Til lengri tíma litið eru höfin stóra safngryfjan fyrir næstu allt kolefni. Þau kunna að megna að bægja frá hluta af hnattrænni hlýnun, - til dæmis með því að taka við CO2, með því aðmeð orkuframleiðslu í krafti bylgja eða sjávarfalla, eða með því að veita með einhverjum hætti viðtöku meira kolefni úr andrúmslofti en nú gerist. En samt sem áður munu þau halda áfram að breytast svo lengi sem menn halda áfram að losa mikið kolefni út í andrúmsloftið.
            Hingað til hefur hækkun sjávarborðs, deyjandi kórallar og útbreiðsla þörungablóma aðeins verið minniháttar mál í hugum flestra. Nokkrir fellibyljir í viðbót á borð við Katrínu, nokkur dramatísk sjávarflóð í borgum við strendur ríku landanna, hugsanlega einnig stöðvun á hluta af stærstu færibandum sjávarstraumanna, einkum ef  í hlut ætti það sem hitar upp vestanverða Evrópu: hver og einn slíkra atburða myndi fanga athygli stjórnmálamanna. Vandamálið er að þá gæti það verið um seinan.
...........
Lauslega þýtt  / HG



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim