Hjörleifur Guttormsson 3. júlí 2009

Heitt sumar framundan

Það gengur meira á hérlendis en gerst hefur í manna minnum. Ekki eru það náttúruhamfarir, því að eldur í iðrum jarðar, landskjálftar og jökulhlaup hafa haft hægt um sig og lífrænar auðlindir lands og sjávar hafa ekki brugðist. Hamfarirnar sem á þjóðinni dynja eru allar af mannavöldum. Stærð hrunsins og ránskaparins af almannaeigum snýst um upphæðir sem enginn óinnvígður getur í raun höndlað eða sett í samhengi við þjóðhagsstærðir, hvað þá daglegt líf. Hrunið er sagt taka fram mestu fjárglæfrum í sögu Bandaríkjanna, eins og Enron. Sem salt í sárin fá menn svo að vita að stjórnendur og starfsmenn einkabankanna nýttu síðustu daga fyrir hrun til að skammta sér yfir 23 milljarða til hlutafjárkaupa!

Enginn enn til ábyrgðar
Þótt níu mánuðir séu liðnir frá bankahruninu hafa enn engir í raun verið dregnir til ábyrgðar. Hvítflibbaræningjarnir ganga lausir eins og ekkert hafi í skorist og enginn hefur verið ákærður. Vettlingatökin í þeim efnum hafa djúpstæð áhrif á þorra fólks sem gert er að greiða fyrir glæpagengin með lækkuðum launum, skertum lífeyri, tapi á innistæðum og nú síðast með Icesafe-skuldaklafa sem ef fram gengur í formi ríkisábyrgðar mun taka við og herða að þegar sjö mögru árin sjö ættu loks að vera liðin. Fálmkennd viðbrögð ríkisstjórnar Geirs A Haarde sem kunni þau ráð helst að biðja Guð að hjálpa Íslendingum verða lengi í minnum höfð. Æ betur kemur í ljós hvernig eftirlitsstofnanir ríkisins brugðust gjörsamlega hlutverki sínu, Fjármálaeftirlitið þar fremst í flokki, að ógleymdum hlut Seðlabanka. Hundurinn liggur þó grafinn dýpra þar sem er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið, en vegna lögfestingar á ákvæðum hans 1994 um óheftar fjármagnshreyfingar og bankastarfsemi um víðan völl dafnaði útrásin sem velti þjóðarskútunni með 12-faldri yfirhleðslu af óreiðuskuldum.

Ríkisstjórn á tæpu vaði
Ríkisstjórnirnar sem við tóku í febrúar sl. og eftir alþingiskosningarnar í apríl eru ekki öfundsverðar af að moka flórinn eftir valdatíð Sjálfstæðisflokksins og fylgiflokka hans síðustu 18 árin. Það segir hins vegar sitt um glámskyggni almennings hvernig sá liðsafnaður bjargaði sér í gegnum kosningar og eflist nú í stjórnarandstöðu ef marka má skoðanakannanir. Það ætlar að sannast nú sem oft áður að skammtímaminni almennings er lýðræðinu hættulegra en flest annað. Í þeim efnum eiga fjölmiðlar mikla sök og fjöldi álitsgjafa með lærdómstitla sem ósýnt er um að leggja saman tvo og tvo.
            Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna á þegar í vök að verjast. Óheyrilegt álag setur mark sitt á starfsstíl stjórnarinnar og stuðningsflokka hennar á Alþingi. Hraðinn í afgreiðslu stórmála er óhóflegur og vantar mikið á að almenningur geti fylgst með og haldið þræði. Upplýsingar um Icesafe-samninginn voru klúðurslegar og ófullnægjandi í upphafi og einkennast enn af staðhæfingum sem almenningur á erfitt með að leggja mat á. Þessi vinnubrögð hafa veikt stjórnina og liðsveit hennar á Alþingi er ekki samhent sem skyldi eða sannfærandi í framgöngu sinni.
 
Umsókn um ESB-aðild stóra tundurskeytið
Stærsti veikleiki ríkisstjórnarinnar felst í því vegarnesti sem hún efndi til að loknum kosningum. Svonefnd samstarfsyfirlýsing er hátimbrað plagg þar sem mörgu er lofað sem erfitt mun reynast að standa við, ekki síst vegna fjárhagsþrenginga. Verst og afdrifaríkast í þeim farangri er þó fyrirheitið um að sótt skuli um aðild að Evrópusambandinu. Þar er á ferðinni það tundurskeyti sem sundrað getur ríkisstjórnarsamstarfinu fyrr en varari. Engin frambærileg skýring hefur fengist frá forystu Vinstri grænna hvers vegna fallist var á kröfur Samfylkingarinnar í þessu efni. Með því hefur trúverðugleiki flokksins þegar hlotið ómældan skaða og ef fram fer sem horfir blasir við hætta á lömun liðsveitarinar og jafnvel klofningi.
            Umsókn um aðild að Evrópusambandinu ef samþykkt verður á Alþingi er stærsta og afdrifaríkasta mál í sögu lýðveldisins. Óskiljanlegt er hvernig flokkur eins og VG sem hafnar slíkri aðild samkvæmt stefnuyfirlýsingu og landsfundarsamþykkt ætlar sem aðili að ríkisstjórn að efna í aðildarsamning. Slíkur samningur er eðli máls samkvæmt á ábyrgð viðkomandi ríkisstjórnar sem verður að standa eða falla með honum. Í því efni hjálpar engin tilvísun í þjóðaratkvæði.

Ný stjórnarskrá fyrir lýðveldið
Stærsta verkefnið samkvæmt samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, taki menn hana alvarlega, er fyrirheitið um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Kjósa á til stjórnlagaþings ekki síðar en næsta vor. Það verður hlutverk þess að móta tillögur að nýrri stjórnarskrá í stað þeirrar sem sett var við lýðveldisstofnun. Vel þarf að standa að verki til að slíkri endurskoðun verði lokið á kjörtímabilinu, þ.e. innan fjögurra ára. – Algert öfugmæli er að ætla á sama tíma að stíga stór og afdrifarík skref í fullveldisafsali með aðild að Evrópusambandinu, hvað þá að fara að krukka í gildandi stjórnarskrá í þágu ESB-aðildar á meðal heildarendurskoðun stendur yfir.

Heimskreppan dýpkar enn
Heimskreppan sem nú grefur um sig hvarvetna að heita má fer enn dýpkandi. Atvinnuleysi í helstu iðnríkjum Vesturlanda er að ná 10% markinu og jafnvel 20% í ríkjum þar sem verst gegnir eins og á Spáni og í Eystrasaltslöndum. Innan Bandaríkjanna er boðuð neyðarlöggjöf í stærsta og lengst af öflugasta ríkinu Kaliforníu. Athygli vekur hvernig hriktir í stoðum Evrópusambandsins og að þar hjálpar enginn sameiginlegur gjaldmiðill eins og evra nema síður sé. Boðberar kapítalismans standa ráðþrota í kreppunni gagnvart grautfúnu og ósjálfbæru efnahagskerfi. Sú umhverfisvá sem nú herðir tökin, og fáir komast nú hjá að viðurkenna að vofi yfir mannkyni, er skilgetið afkvæmi ótæks og siðlauss hagkerfis og lífshátta sem bera feigðina í sér.
- - - - - - -
Framundan er heitt sumar hér á Íslandi eins og víða um lönd. Enginn getur spáð fyrir um hvað seinnihluti ársins beri í skauti sínu. Hásumarvikurnar munu fleiri Íslendingar en oft áður nota til að ferðast um eigið land og ná vonandi að njóta óviðjafnanlegrar náttúru þess og finna sálarró  eftir hremmingar liðinna mánaða.. Vonandi opnast augu sem flestra fyrir því að sjálfstæði og fullveldi er það dýrmætasta sem við eigum. Þau gæði sem forfeðurnir heimtu með baráttu sinni megum við aldrei gefa frá okkur og niðjum okkar



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim