Hjörleifur Guttormsson 3. nóvember 2009

Stenst ráðstefnan í Kaupmannahöfn prófið?

Aldrei fyrr hefur mannkynið staðið frammi fyrir viðlíka ógn og það hefur kallað yfir sig með iðnvæðingu í krafti jarðefnaeldsneytis. Loftslagsbreytingar af völdum mengunar með gróðurhúsalofti eiga aðeins eftir að stigmagnast verði ekki brugðist við hér og nú. Á alþjóðaráðstefnunni í Kaupmannahöfn í desember ræðst hvort samkomulag tekst um nýjan og bindandi samning í stað Kyótóbókunarinnar. „Það er erfiðasta stjórnmálaþraut sem heimurinn hefur séð til þessa“ sagði Gordon Brown forsætisráðherra Breta 19. október síðastliðinn og bætti við að lausn hennar kalli á endurhönnun heilu efnahagskerfanna. Stjórnmálaleiðtogar um allan heim sitja nú yfir þessum Gordíonshnúti, sem flestir þeirra vildu til skamms tíma sem minnst vita af og jafnvel afneituðu.

Hrikalegar afleiðingar aðgerðaleysis

Viðfangsefnið er í bili komið úr höndum vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna IPCC og á borð stjórnmálamanna. Víða um heim hafa sérfræðinga- og þingmannanefndir setið yfir mengunardæminu sem notkun jarðefnaeldsneytis hefur kallað yfir heiminn frá því í árdaga iðnvæðingar og vindur nú æ hraðar upp á sig. David Miliband utanríkisráðherra Breta opnaði heimskort í Science Museum í London 22. október sl. sem sýnir afleiðingar aðgerðaleysis að hálfri öld liðinni. Kortið er byggt m.a. á mati vísindamanna hjá Hadley Centre og gerir ráð fyrir 4°C hækkun meðalhita á jörðinni árið 2060, tvöfalt hærri tölu en talið hefur verið hámark þess sem unnt væri að búa við án þess allt fari úr böndum í vistkerfum jarðar og á sjávarströndum. En kortið sýnir líka langtum hærri hitastig yfir þurrlendi en hafinu og mest á Norðurslóðum þar sem meðalhitinn gæti farið í 15–16°C. Slíkar rökstuddar dómsdagstölur hafa ekki áður sést og afleiðingarnar fyrir vistkerfi, fæðuöflun og stöðu sjávar eru að sama skapi ógnvænlegar. 

Ástralir burt frá ströndinni

Aðvörunarhróp var nýverið að berast frá ástralskri þingnefnd sem flutti löndum sínum þann boðskap að brátt væri tími bygginga með ströndum fram úti og menn yrðu að færa sig upp í landið frá hækkandi sjávarborði og brimsköflum. Strendur Ástralíu hafa sem víðar haft sérstakt aðdráttarafl fyrir húseigendur og yfir 700 þúsund slíkar fasteignir eru nú taldar neðan við 20 feta hæð frá fjöruborði. Í bænum Byron Bay  í Nýja Suður Wales hefur borgarstjórnin lagst gegn því að eigendur fasteigna byggi varnir og sandpokavirki sjávarmegin, heldur verði náttúran að hafa sinn gang. Þetta segir þingnefndin að þurfi ef til vill að lögleiða, m.a. í ljósi afar flókinna tryggingaákvæða og ábyrgðarreglna sem tengist loftslagsbreytingum. Eftir valdatöku ástralska Verkamannaflokksins í kjölfar síðustu kosninga reyna þarlend stjórnvöld nú að vinna gegn losun gróðurhúslofts en mæta harðri andstöðu samtaka iðnaðar og hægrimanna, sem í stjórnartíð sinni stungu hausnum í sandinn.

Þrengir að skógum og landbúnaði

Afleiðingar loftslagsbreytinganna eru altækar og þótt þær bitni misjafnlega hart á einstökum svæðum fyrst um sinn getur enginn hrósað happi til langframa. Eitt af því sem lagt verður fyrir ráðstefnuna í Kaupmannahöfn varðar aðgerðir til að stöðva frekari eyðingu regnskóga, m.a. með fjárframlögum til þeirra sem telja sig hafa hag af harðviðarsölu eða akuryrkju. Þar kemur pálmaolía mikið við sögu en notkun hennar í fjölmargar iðnaðarvörur og matvælagerð hefur farið sívaxandi. Er sú eftirspurn ekki síst ástæða þess að regnskógar eru brenndir í stórum stíl til að rækta í staðinn olíupálma en við það hverfur öflug kolefnisbinding skóganna. –  Í kjölfar hlýnunar breytist ræktarland í ördeyðu og eyðimerkur og að sama skapi dregur úr matvælaframleiðslu á heimsvísu og aðgangur að ferskvatni minnkar. Jafnframt verður röskun og tilfærsla á hafstraumum og vistkerfum sjávar, sem þegar er farin að segja til sín og haft getur ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér. – Nýverið hvatti Nicholas Stern, fyrrum aðalhagfræðingur Alþjóðabankans og höfundur þekktrar skýrslu, almenning til að snúa sér að grænmeti í stað kjöts af tillitssemi við loftslagið. Rökin eru þau að metan-losun frá nautgripum og svínum er gífurleg og talið að slík losun frá húsdýrum valdi á heildina litið um fimmtungi hlýnunar.

Ábyrgðin er iðnríkjanna

Iðnríkin viðurkenndu þegar árið 1995 að þeirra væri ábyrgðin á loftslagsbreytingum af mannavöldum. Nú er hins vegar svo komið vegna stórstígrar iðnvæðingar margra þróunarlanda með Kína í fararbroddi að einnig þau þurfa nú að axla ábyrgð af sívaxandi mengun andrúmsloftsins og hægja um leið á efnahagsvexti. Það gerist hins vegar ekki nema til komi fjárskuldbindingar og stuðningur af hálfu ríkra þjóða og um þann pakka deila þróuðu ríkin nú innbyrðis. Mest óvissa er um hlut Bandaríkjanna, því að án framlags þeirra jafnt í niðurskurði í losun sem og fjárframlögum verður ekkert bitastætt samkomulag í Kaupmannahöfn. Framhaldið verður prófsteinn á markaðshagkerfið og getu alþjóðasamfélagsins til að snúa af þeirri braut sem æ fleiri sjá nú að snýst um örlög siðmenningar og tilvist mannkyns.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim