Hjörleifur Guttormsson 5. júní 2009

Verndun líffræðilegrar fjölbreytni í mótbyr hérlendis
Grein í tilefni af Alþjóðadegi umhverfisins 5. júní 2009

Þann 22. maí sl. boðaði umhverfisráðneytið og Náttúrufræðistofnun Íslands til fundar þar sem umræðuefnið var ágengar framandi tegundir. Þar gáfu fjórir sérfræðingar yfirlit um stöðu mála hérlendis og nýr umhverfisráðherra boðaði aðgerðir. Þetta var á degi sem helgaður er baráttunni um verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Sú ískyggilega mynd sem fyrirlesarar drógu upp af innrásartegundum (invasive species) og þróun mála hérlendis kom eflaust mörgum á óvart. Við blasir af hálfu íslenskra stjórnvalda og opinberra stofnana áratuga aðgerðaleysi og brot gegn lagafyrirmælum og alþjóðlegum skuldbindingum. Nú reynir á nýja ríkisstjórn og ráðherra að bregðast hart við og samræma aðgerðir.

Lagarammi og skuldbindingar

Seytján ár eru liðin frá undirritun alþjóðasamningsins um verndun líffræðilegrar fjölbreytni á ráðstefnunni í Ríó de Janeiro 1992. Í honum segir m.a. að aðilum að samningnum beri „að koma í veg fyrir að fluttar séu inn erlendar tegundir sem ógna vistkerfum, búsvæðum eða tegundum, að öðrum kosti stjórna þeim eða uppræta þær.“ (grein 8.h) – Athygli vekur að á upplýsingavef umhverfisráðuneytisins hefur íslensk þýðing samningsins ekki verið aðgengileg þótt hana megi finna í Stjórnartíðindum.
Við endurskoðun laga nr. 44/1999 um náttúruvernd var tekið inn ákvæði um innflutning, ræktun og dreifingu lifandi lífvera (41. grein). Samkvæmt henni skal umhverfisráðherra kveða á um skráningu, innflutning, ræktun og dreifingu lifandi framandi lífvera hérlendis og skipa sérfræðinganefnd stjórnvöldum til ráðgjafar um þessi efni. Ráðherra gaf ári síðar á grundvelli laganna út reglugerð varðandi útlendar plöntutegundir (Rg.583/2000) og setti jafnframt á fót sérfræðinganefnd um þau efni. Hliðstæðar reglugerðir hafa enn ekki verið út gefnar um aðra lífveruhópa en þó er til ráðgjafanefnd um innflutning dýra.  
 
Áfellisdómur Ríkisendurskoðunar

Í janúar 2006 kom út á vegum Ríkisendurskoðunar skýrsla undir heitinu “Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni – Umhverfisendurskoðun” (http://www.rikisendurskodun.is/files/skyrslur_2006/liffraedileg.pdf ). Þar var að frumkvæði stofnunarinnar fjallað um áhrif og stöðu þessa alþjóðasamnings á grundvelli heimildar í 9. grein laga nr. 86/1997 um Ríkisendurskoðun þar sem segir: “Þá getur hún [Ríkisendurskoðun] kannað hvernig stjórnvöld framfylgja áætlunum, lagafyrirmælum og skuldbindingum á sviði umhverfismála.” Í skýrslunni kemur glöggt fram það fádæma tómlæti og vanræksla sem þjóðréttarsamningur þessi hafði fram að þeim tíma sætt af hálfu íslenskra stjórnvalda. Þó höfðu nokkrir alþingismenn með fyrirspurnum á Alþingi ítrekað vakið athygli á fálæti um þennan mikilvæga alþjóðasamning.
Í skýrslunni segir m.a.:

„Að öllu samanteknu telur Ríkisendurskoðun að aðild Íslands að samningnum hafi haft mjög takmörkuð áhrif á íslenska löggjöf og opinbera stefnu á sviði líffræðilegrar fjölbreytni.  ... Sérstaka athygli vekur hve takmörkuð áhersla virðist lögð á náttúrufræðilegar rannsóknir hér á landi. ... Æskilegt er að Alþingi og stjórnvöld skoði hvort tilefni kunni að vera til að fela tilteknu stjórnvaldi sérstaklega það hlutverk að fylgjast með hvernig staðið er að verndun og varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi. Að hluta til sinna Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun slíku verkefni, en þarna skortir engu að síður almenna yfirsýn. Þá virðist líka skorta virkan formlegan vettvang til að eðlilega verði staðið að innleiðingu og framfylgd samningsins hér á landi.“  

Á heildina litið var skýrsla Ríkisendurskoðunar orð í tíma töluð og eflaust varð hún til þess að ýta við stjórnvöldum sem loks í ágúst 2008 samþykktu fyrstu stefnumörkunina um framkvæmd samningsins.

Samstilla verður kraftana

Hér er ekki rúm til að fjalla um það sem sérfræðingar drógu fram um fjölda aðfluttra lífvera jafnt dýra og plantna á nýafstaðinni ráðstefnu. Flestir sem gefa gaum að íslenskri náttúru þekkja dæmi um þróunina á þessu sviði og minkur og lúpína hafa lengi verið á allra vitorði sem vágestir. Alþekkt er að vistkerfi einangraðra eyja eru viðkvæmust fyrir innflutningi og dreifingu framandi lífvera og þar er Ísland engin undantekning. Yfirstandandi loftslagsbreytingar grípa róttækt inn í þessa þróun og þörfin á greiningu og vöktun er þeim mun brýnni. Af reynslu erlendis frá má margt læra þótt aðstæður í hverju landi séu sérstæðar. Nefna ber sérstaklega Nobanis-verkefnið um framandi ágengar tegundir (http://nobanis.slu.se) en tengiliður þess hérlendis er Sigurður H. Magnússon á Náttúrufræðistofnun. Þá er á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar unnið að alþjóðlegu átaki til að stöðva fyrir árið 2010 tap á líffræðilegri fjölbreytni („Niðurtalning 2010“) en Ísland er þar ekki formlegur aðili. – Bág staða á þessu sviði hérlendis helgast m.a. af því að opinberar stofnanir eins og Skógrækt ríkisins og Landgræðslan hafa unnið gegn markmiðum samningsins þótt ekki séu þar allir undir sömu sök seldir. Á því verður vonandi breyting fyrr en seinna undir forystu umhverfis- og auðlindaráðuneytis.

Eiður Guðnason í Río 1992

Eiður Guðnason umhverfisráðherra undirritar fyrir Íslands hönd Samninginn um verndun líffræðilegrar fjölbreytni á Ríó-ráðstefnunni í júní 1992.
Ljósm. HGHjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim