Hjörleifur Guttormsson 6. apríl 2009

Skyggnst á bak við heimskreppur

Það vantar ekki mótsagnirnar í henni veröld. Menn telja sig með réttu hafa náð langt á fjölmörgum sviðum menningar og vísinda. Í krafti tækniþekkingar eru send geimför út í óravíddir himingeimsins, en á jörðu niðri ríkir um margt ógnarlegt ástand vegna óhæfrar samfélagsskipunar, auðsöfnunar fárra á kostnað fjöldans, vígtóla og hernaðar sem bitnar á saklausu fólki.
Heimskreppan sem nú herjar af sívaxandi þunga kom þorra fólks á óvart, að ekki sé talað um ráðamenn þjóðanna sem baðað höfðu sig í efnahagsuppsveiflu um árabil. Ef orðið kreppa heyrðist í umræðum vakti það oftast upp hugrenningatengsl við Kreppuna miklu á fjórða tug síðustu aldar. Að vísu hefur gengið á ýmsu í efnahagslífi heimsins á eftirstríðsárunum, mismunandi eftir svæðum, en heimskreppa hefur á Vesturlöndum verið talin draugur úr fortíð og hent gys að þeim sem minnt hafa á hann. Þess í stað hafa hagfræðingar talað um efnahagslægðir og uppsveiflur, eða þá mögur og góð ár, það er góðlátalega hringrás (e. business cycle) sem ekki sé ástæða til að gera mikið veður út af. Allt var það talið meinleysislegt, þótt á ýmsu gengi í þróunarríkjum, m.a. í Suðaustur-Asíu, Rómönsku-Ameríku og Afríku sunnan Sahara. Eftir fall Sovétríkjanna töldu margir að heimsbúskapurinn væri nánast kominn á beinu brautina, þótt lífskjör margra versnuðu í fyrrum kommúnistaríkjum frá því sem verið hafði á Sovéttímanum og bil milli ríkra og fátækra breikkaði víðast hvar til mikilla muna. Slíkar skuggahliðar hurfu að mestu fyrir ljómanum af þeim ríku sem fjölmiðlar halda á lofti sem fyrirmyndum.

Upprifjun um Kreppuna miklu

Austurríski hagfræðingurinn Joseph Schumpeter lýsti orsökum kreppu í kapítalísku efnahagskerfi með orðunum: „Orsök niðursveiflunnar er uppsveiflan”. Þótt kreppa hafi hverju sinni sín sérkenni eru ástæðurnar svipaðar. Uppsveifla sem nærist af lánum um lengri eða skemmri tíma ýtir undir óraunhæfar væntingar og fjárfestar byggja upp framleiðslugetu sem engin innistæða er fyrir. Hlutabréfaverð hækkar og hækkar í kauphöllum og spákaupmennska byggð á lánsfé nær yfirhöndinni. Það verður til blaðra sem stækkar uns hún springur og við tekur samdráttur sem orðið getur að djúpri og langvarandi efnahagslægð. Stjórnmálamenn og viðskiptalífið vakna upp um seinan við vondan draum og viðbrögðin eru að jafnaði fálmkennd. Þannig var það við upphaf Kreppunar miklu 1929 rétt eins og nú 80 árum síðar. Afleiðingar þeirra hamfara urðu langvinnar og stóðu í áratug fram í heimsstyrjöldina síðari. Viðbrögð Roosevelt Bandaríkjaforseta sem stóð fyrir opinberum inngripum í efnahagslífið undir merkjum New Deal á tímabilinu 1933–1939 milduðu félagslegar afleiðingar kreppunnar en bundu ekki enda á hana. Það gerðist fyrst með stríðsrekstrinum og miklum hagnaði sem þá varð til hjá bandarískum auðfélögum og gagnaðist uppbyggingunni í kjölfarið. Atvinnuleysið við upphaf New Deal 1933 nam um 25% og var enn um 15% 1940. Fannie Mae húsnæðiskerfið sem enn er við líði vestra á rætur í New Deal, sem og ýmis félagsleg öryggisnet.

Langt hlé án stóráfalla

Eðlilega spyrja margir hvað varð þess valdandi að viðlíka heimskreppa skall ekki á fyrr en á síðasta ári eftir 60–70 ára hlé. Fyrir því eru margar samverkandi ástæður. Gífurleg eyðilegging heimsstyrjaldarinnar síðari skapaði rúm fyrir miklar fjárfestingar og eftirspurn á markaði. Bandarískt fjármagn streymdi í uppbyggingu í Evrópu og Japan og vígbúnaðarkapphlaup kalda stríðsins skapaði mikla eftirspurn eftir stríðstólum. Sterk ítök verkalýðsfélaga fyrst í stað tryggðu ört vaxandi kaupgetu almennings og Bretton Woods viðskipta- og fjármálakerfið sem helstu iðnaðarveldin náðu saman um 1944 skapaði stöðugleika um áratugi. Aukið vinnuafl og landfræðileg útþensla ýttu jafnframt undir þanþol uppsveiflunnar. Upp úr 1970 fóru hins vegar að að koma fram brestir án þess þó að það leiddi til stóráfalla. Mjög dró þá úr hagnaði fyrirtækja en fjármagnseigendur brugðust við með útþenslu sem sameinaði nýja tækni og ódýrt vinnuafl. Austur-Asía varð þýðingarmikið svæði í þessu tilliti. Jafnhliða lögðust af framleiðslueiningar  á Vesturlöndum og með því hreinsaðist út fjármagn sem ella hefði getað framkallað alvarlega kreppu. Þjónustustörf tóku við af verksmiðjuframleiðslu í gömlu iðnríkjunum. Með þessum tilfærslum í skjóli vaxandi hnattvæðingar jókst virðisauki fjármagnseigenda og  arðrán vinnuafls frá því sem verið hafði.

Nýfrjálshyggjan fyllti mælinn

Sókn fjármagnseigenda undir merkjum nýfrjálshyggjunnar hófst fyrir alvöru um 1980 með Reagan og Thatcher sem pólitíska merkisbera. Rýmkað var stórlega fyrir fjármagnsflutninga og fjármálaþjónusta bólgnaði út. Dregið var úr ríkisafskiptum og beint og óbeint ráðist gegn verkalýðsfélögum og þannig dregið úr áhrifum launafólks á kaup og kjör. Ekki er vafi á að þessi gagnsókn fjármagnseigenda lengdi í líflínu kapítalsins, en eftirspurn fór þó minnkandi samhliða því sem dró úr kaupgetu og offramboð þrengdi að fyrirtækjum. Hins vegar ýttu ný og hagstæðari skilyrði fyrir fjármagnsflutninga undir uppsveiflu í Asíu austanverðri, einkum eftir að ómengaður kapítalismi varð ráðandi í Kína. Samhliða því veiklaðist efnahagskerfi Vesturlanda, einkum Bandaríkjanna, sem beindu kröftum sínum í vaxandi mæli að hergagnaiðnaði og stríðsrekstri en vanræktu innviði eigin samfélags, svo sem samgöngukerfi og menntun. Bandaríkin hafa á síðustu áratugum orðið skuldugasta ríki heims og Kína helsti lánardrottinn þeirra. Við þessi skilyrði, einkum frá síðustu aldamótum, gripu yfirstjórnendur efnahagsmála til enn hættulegri örvunaraðgerða en fyrr með lækkandi vöxtum og lánsfjármögnuðum áhættuviðskiptum í ótal umbúðum samhliða uppfærslu eigna á pappírnum. Á síðasta skeiði bar viðskiptalíf stærsta hagkerfis heims flest einkenni spilavítis þar sem stjórnvöld hirtu aðgangeyrinn en höfðu tapað bæði áttum og yfirsýn. Fasteignablaðran og bankarnir sem þanist höfðu út með henni var það sem sprakk með þeim afleiðingum sem nú blasa við heimsbyggðinni.

Ríkiskapítalismi til bjargar?

Fáir hefðu trúað því fyrir tveimur árum að pólitískir ábyrgðarmenn nýfrjálshyggjunnar breyttust á einni nóttu í boðbera ríkisafskipta, ríkisstyrkja til fjölþjóðafyrirtækja og ríkisuppkaupa á gjaldþrota fjármálastofnunum. Þessi er þó raunin og fara þar fyrir leiðtogar Bandaríkjanna og Bretlands en aðrar háborgir kapítalismans koma haltrandi á eftir. Skýringin er einfaldlega sú að þeir sáu engin önnur ráð þegar átrúnaðargoðið, hinn frjálsi markaður, reyndist með öllu ófær um að ráða við afleiðingar efnahagshrunsins og kapítalisminn sem kerfi var kominn á hnén. Björgunaraðgerðirnar, yfirfærslur úr almannasjóðum og stjarnfræðilega háar stuðningsaðgerðir eru stórfelldustu byrðar sem dæmi eru um að lagðar hafi verið á skattgreiðendur. Atvinnuleysingjum fjölgar nú óðfluga og  þeir sem áður töldust bjargálna komast á vonarvöl. Óvissa er um hvort Keynes-úrræði með ríkisútgjöldum og ódýrum lánum nægi til að koma eftirspurn í gang á ný. Skrúfan niður á við er í fullum gangi með stórfelldri eyðingu fjármuna, framleiðslugetu og þekkingar svo og ómældum hörmungum fyrir hundruð milljóna manna um veröld víða. Það sýnir sig að enn er í fullu gildi greining Karls Marx á kerfislægu óeðli kapítalismans sem ganga þarf í gegnum hrun og hreinsunareld kreppu þegar minnst varir.
 
G-20 fundurinn og framhaldið

Í samanburði við Kreppuna miklu eru viðbrögð við niðursveiflunni í Bandaríkjunum og hjá helstu iðnríkjunum sem fulltrúa áttu á fundi 20-leiðtogafundinum 2. apríl 2009 langtum skjótari og samstilltari en áður hafa sést, ekki síst ef litið er til Kreppunnar miklu. Nú er það neyðin og óttinn við þaðan af verra sem rekur menn saman. Samsetning 20-ríkjahópsins ber jafnframt vott um breytt landslag, þar sem Kína og Brasilía eru meðal þáttakenda, svo dæmi séu nefnd. Yfirlýsingar nýafstaðins fundar í London bera hins vegar merki fegrunaraðgerða þar sem tíndar voru til ákvarðanir um  fjölmörg atriði sem þegar hafði verið lofað og sumar komnar á rekspöl. Þetta á við um stóraukin fjárframlög til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og til björgunaraðgerða af ýmsu tagi. Sem vænta mátti eru samþykktirnar almennt orðaðar til að ná samstöðu og hvergi minnst á viðkvæm atriði eins og skuldsetningu Bandaríkjanna né heldur að hver þjóð skuli veita 2% af vergri þjóðarframleiðslu til að örva efnahagslífið. Orðagjálfur um grænar og sjálfbærar leiðir er stráð eins og skrauti á tertu hér og þar í yfirlýsingu leiðtoganna án nokkurrar útfærslu eða skuldbindinga og hnykkt út með áminningu um að fylgja beri í hólf og gólf leikreglum Alþjóða viðskiptastofnunarinnar (WTO).
            Burtséð frá fyrirheitum um hertar reglur með fjármálafyrirtækjum, atlögu að skattaskjólum og gegn bankaleynd verður ekki séð að áherslurnar frá Lundúnafundinum feli í sér endurmat á þeim siglingaljósum sem fylgt hefur verið um langt skeið. Ekkert marktækt er þar að finna um velferðarkerfi eða réttindi verkafólks, hvað þá að sett séu spurningarmerki við áhrif hnattvædds fjármagns á umhverfi jarðar. Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru vafðar inn í óljóst orðalag. Áhyggjur af þeim bíða stærri ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar í Kaupmannahöfn undir lok ársins. Allt ber þetta vott um að mótsagnirnar í vegferð mannkyns hafa ekki minnkað í kreppunni sem nú ríður húsum heldur sækja þær að sem aldrei fyrr.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim