Hjörleifur Guttormsson 7. maí 2009

Botninn er suður í Borgarfirði

Birtist í Morgunblaðinu 7. maí 2009

Háskólaprófessor í Eyjafirði, Ingi Rúnar Eðvarðsson, skrifar grein í Morgunblaðið sem birtist 5. maí sl. undir fyrirsögninni „Atvinnuleysi og ESB”. Leitun er að öllu kynlegri samsuðu. Greinin á að færa lesendum heim sanninn um að engin hætta sé á auknu atvinnuleysi hérlendis við inngöngu í ESB heldur hið gagnstæða. „Atvinnuleysi hefur minnkað innan ESB“ er sérstaklega undirstrikað í greininni og að minni ríkin komi ekki verr út en hin stærri nema síður sé. Til stuðnings þeirri staðhæfingu birtir prófessorinn töflu þar sem hann skiptir ESB-ríkjum í þrjá hópa: Norðurlönd, minni ríki og stærri ríki. Telur hann sig sýna fram á „með óyggjandi hætti“ að ótti við aukið atvinnuleysi samfara ESB-aðild sé ástæðulaus.
            Sá galli er m.a. á framsetningu greinarhöfundar að hann stöðvar klukku sína við árið 2007. Þannig verður ljóst að tilgangurinn helgar meðalið. Lítum aðeins á stöðuna í fámennari ríkjum ESB þar sem prófesorinn endar sína töflu (tölur hans 2007 í sviga) og á núverandi atvinnuleysi í apríl 2009 (Heimild: Eurostat á heimasíðu framkvæmdastjórnar ESB).
Norðurlönd í ESB: Danmörk nú 5,7% (3,4 árið 2007); Finnland 7,6% (6,6); Svíþjóð 8,0% (3,5).
Minni ríki: Eistland 11,1% (4,7); Írland 10,6% (4,8); Kýpur 4,9% (3,7); Lettland 16,1% (4,9); Litháen 15,5% (5,4); Malta 6,7% (4,1).
Samkvæmt málflutningi áróðursmanna fyrir aðild Íslands að ESB snýst  Evrópusambandið öðru fremur um vinnu og velferð. Atvinnuleysi í þessu fyrirmyndar samfélagi mælist nú að meðaltali 8,9% yfir allt svæðið, jafn hátt á  evrusvæðinu og utan þess. Framkvæmdastjórn ESB áætlar þessa dagana að atvinnuleysið fari í 11,5% að meðaltali um mitt næsta ár. Bakkabræður komust eitt sinn að því að „botninn er suður í Borgarfirði“. Mér sýnist Eyfirðingurinn enn hafa verk að vinna.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim