Stefnir í olíuþurrð innan fárra áratuga
Enginn neitar því að jarðolía sé takmörkuð og endanleg auðlind. Skoðanir eru hins vegar skiptar um hversu langur tími líði áður en alvarlegur skortur fari að segja til sín. Notkunin hefur vaxið óðfluga frá ári til árs og þótt tímabundið komi slaki í eftirspurn vegna heimskreppunnar ganga allar spár út á að orkunotkun fari hratt vaxandi næstu áratugi.
Aðalhagfræðingur IEA spáir bresti innan áratugar
Nýverið birtist niðurstaða úr mati á framleiðslu olíu á yfir 800 vinnslusvæðum sem svarar til um ¾ af heimsframleiðslunni. Hún leiðir í ljós að framleiðslugeta á stærstu svæðunum hefur þegar náð hámarki og að fall í framleiðslugetu er nær tvöfalt meira en reiknað var með fyrir aðeins tveimur árum, þ.e. 6,7% í stað 3,7% sem áætlað var á árinu 2007. Aðalhagfræðingur Alþjóðaorkumálastofnunarinnar IEA, Fatih Birol, sagði í viðtali við breska blaðið Independent 3. ágúst sl. að ríkisstjórnir margra landa virtust ómeðvitaðar um að heimsframleiðsla olíu muni ná hámarki á næstu 10 árum sem væri áratug fyrr en flestir hefðu gert ráð fyrir. Við þetta bætist að olíufyrirtæki séu treg til að fjárfesta í vinnslu á nýjum svæðum og það geti leitt til brests í framboði innan 5 ára. Slíkt geti gert að engu vonir manna um efnahagsbata. Þegar á árinu 2011 sé raunveruleg hætta á bresti í framboði með tilheyrandi verðhækkunum á olíu.
Vægi OPEC-ríkjanna fer vaxandi
Þessi þróun leiðir óhjákvæmilega til þess að vald OPEC-ríkanna yfir heimsmarkaði á olíu fer vaxandi þar eð framleiðslugeta annarra ríkja á olíu fer þegar minnkandi. Jafnvel þótt eftirspurnin héldist stöðug þyrfti fram til 2030 að koma til ný framleiðsla sem svarar til ferfaldri núverandi olíuframleiðslu Saudi-Arabíu. Alþjóðaorkumálastofnunin hefur hingað til þótt varfærin og íhaldssöm í mati sínu en Birol undirstrikar að dagar olíunnar sem orkugjafa verði brátt taldir og lausn verði að felast í því að skipta yfir á aðra orkugjafa áður en til þess komi. Slík umskipti taki óhjákvæmilega langan tíma og kalli á miklar fjárfestingar.
Nátengt loftslagsbreytingunum
Eftir því sem framboð hefðbundinnar olíu minnkar vex hættan á að horfið verði til nýtingar enn óhreinna jarðefnaeldsneytis sem auki á loftslagsvandann. Þar eru kolin nærtæk en einnig tjörusandur sem mikið finnst af, m.a. í Kanada. Olíuframleiðsla úr kolum og tjörusandi veldur hins vegar margföldun á losun gróðurhúsaloft á orkueiningu og myndi gera að engu viðleitni ríkja til að stemma stigu við loftslagsbreytingunum. Kapphlaup stórvelda um yfirráð yfir olíulindum hefur lengi sett mark sitt á heimsmálin en mun gera það í enn ríkara mæli eftir því sem harðnar á þeim dalnum. Fáir staldra enn sem komið er við önnur og vænlegri ráð sem er að stuðla að sjálfbærum lífsháttum með því að gjörbreyta núverandi búskaparháttum mannkyns, draga úr orkusóun og framleiðslumagni, fyrst af öllu í iðnríkjunum.
Hjörleifur Guttormsson |