Hjörleifur Guttormsson 7. desember 2009

Afganistan

Obama Bandaríkjaforseti er á leið til Ósló að taka á móti friðarverðlaunum Nóbels. Sú ótímabæra útnefning er ekki hans sök heldur Norðmanna sem gerðu honum þessa skráveifu. Þeim hafa reyndar oftar en ekki verið mislagðar hendur. En Obama hefur ekki auðveldað sér viðtöku verðlaunanna með því nokkrum dögum áður að sökkva sér og bandarískum soldátum enn dýpra en áður í herleiðangur NATÓ í Afganistan. Ekki færri en þrjátíuþúsund bandarísk ungmenni eru send til viðbótar á þennan æfingavöll stórvelda til að halda áfram stríði sem staðið hefur í átta ár talið frá innrásinni úr vestri 2001 en í full þrjátíu ár miðað við innrás Sovétmanna úr norðri um jólaleytið 1979. Þegar þessi liðstyrkur berst verða 100 þúsund hermenn fjölþjóðaliðs á vettvangi þar eystra og 30 billjónir dala bætast við í herkostnaðinn. Til viðbótar er nú reynt að píska önnur NATÓ-ríki til að sýna lit, en jarðvegurinn virðist súr ef marka má undirtektir. Lítið hefur verið spurt opinberlega um hlut Íslands í þessari síðustu jólakvaðningu austur þangað, en kannski er Össur að hugsa málið. Eitthvað voru sendimönnum Halldórs Ásgrímssonar mislagðar hendur um árið þegar þeir fóru í innkaupaleiðangur í óleyfi í stað þess að gæta Kabúl-flugvallar – og rétt skruppu með skrekkinn.

Ömurleikinn uppmálaður

Stríðsrekstur NATÓ undir forystu Bandaríkjanna í Afganistan er lýsandi dæmi um kolrangt mat og ofmetnað heimsveldis á hernaðarlegri getu sinni og möguleikum til að deila og drottna. Ekki það að ástandið í Afganistan undir Talibönum fyrir síðustu innrás hafi verið á einhvern hátt til fyrirmyndar, ekki frekar en kommúnistastjórnin í Kabúl fyrir þrjátíu árum. Rauði herinn var sendur til að verja hana falli 1979 en mistókst herfilega ætlunarverkið eftir miklar þrautir og smán. Í Bandaríkjunum nefna æ fleiri Víetnamstríðið og ósigur Bandaríkjanna þar, nú þegar tugþúsundir eru sendar í viðbót á vígvöllinn. En útreið Sovéthersins í Afganistan á 9. áratugnum er þó nærtækari til samanburðar. Blaðamenn sem voru á vettvangi í Kabúl og Kandahar á þeim tíma rifja þessa dagana upp hliðstæðurnar og fórna höndum yfir að nýbakaður Bandaríkjaforseti skuli falla fyrir rökum herforingja sinna og ekkert geta lært af sögunni. Leiktjöldin sem reynt hefur verið að setja upp kringum Karzai-stjórnina gátu ekki verið gegnsærri en einmitt í aðdraganda þessarar ákvörðunar, með nýafhjúpað kosningasvindl þarlendis sem slær flest fyrri met.

Hvað er verið að verja?

Obama tók Afganistan-stríðið í arf frá Bush forvera sínum. Herleiðangurinn sem hófst 7. október 2001 var upphafið á yfirlýstu allsherjarstríði Bush gegn hryðjuverkum og menn geta nú dæmt um árangurinn í Írak sem og Afganistan. Markmiðið skyldi vera að útrýma Al-Kaída og ríkisstjórnum sem veittu þeim skjól. Í Írak var hvorki að finna gereyðingarvopn eða stuðning af hálfu Saddam Hussein við Al-Kaída. Í Afganistan tókst skjótlega að steypa stjórn Talibana en Osama bin Laden, höfuðpaur Al-Kaída, og nánustu samverkamenn hans eru ófundnir og engin vissa fyrir hendi um felustaði þeirra sem allt eins geta verið í Pakistan. Á Wikipedia er haft eftir bandarískum leyniþjónustumönnum að liðsmenn Al-Kaída í Afganistan séu innan við 100 talsins. Draugurinn sem Bandaríkjamenn vöktu upp með Osama bin Laden á ekki síst rætur í óskoruðum stuðningi bandarískra stjórnvalda við frændur hans sem eru við völd í Saudi Arabíu. Stjórnin þar mældist í fyrra í 159. sæti af 167 ríkjum á lýðræðismælikvarða tímaritsins Economist og 161. sæti hvað tjáningafrelsi varðar. Saudi Arabía er eins og allir vita leiðandi olíuútflutningsríki í heiminum. Þegar búið er að þurrka rykið af öllu skruminu er það olíuþorsti Bandaríkjanna sem ræður stefnu þeirra og yfirgangi í Austurlöndum, Írak jafnt sem Afganistan. Nýjum forseta í Hvíta húsinu sem boðaði breytingar ætlar að reynast um megn að slökkva þann þorsta og draga réttar ályktanir af 30 ára stríðsrekstri í Afganistan.

Augstein hafði rétt fyrir sér

Þann 12. nóvember 2001 birti ég á heimsíðu minni þýðingu á grein úr Der Spiegel eftir ritstjórann Rudolf Augstein „sem sker sig úr hálfvelgju og yfirdrepsskap sem víða gætir í umræðunni eftir 11. september“ eins og ég orðaði það í kynningu. Augstein sagði m.a.:

„Nú beinast sjónir gegn hryðjuverkamönnum. Gjörningsmenn sem menn þekkja er unnt að finna og gera óskaðlega. Að berjast við ógnunina sem slíka er hins vegar vandræðamál og óframkvæmanlegt. Hvernig ætla menn að útrýma á heimsvísu hryðjuverkastarfsemi sem birtist í svo margvíslegu gervi og á sér svo margar mismunandi rætur?
Aðeins eitt er víst: Sá sem hegðar sér eins og Bandaríkjamenn gera núna í Afganistan, vinnur ekki gegn ógnuninni - heldur örvar útbreiðslu hennar. Sá sem leggur sárafátækt land í rúst og ösku án mikils tillits til óbreyttra íbúa sem þjást af hungri og bíða hlífðarlausir eftir hörðum vetri, þarf ekki að undrast þótt almenningsálitið fari að snúast gegn honum. Það stendur ekki á Þórðargleði yfir einstökum pólitískum afglöpum í hvert skipti sem Bandaríkjamenn misstíga sig.“



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim