Hjörleifur Guttormsson 10. mars 2009

Heimskreppa og banvænn vítahringur

Heimskreppan fer dýpkandi dag frá degi og enginn sér fyrir endann á henni. Athygli vekur hversu lítið fer fyrir umræðu um eðli hennar og orsakir og hvað við eigi að taka. Hérlendis hafa flestir haft í mörg horn að líta eftir hrunið mikla sl. haust og ekki um að sakast þótt lítið hafi farið fyrir umræðu um víðara samhengi. Smám saman er það að renna upp fyrir fólki að íslenska bankahrunið tengist heimsviðburði sem ekki á sinn líka frá því milli heimsstyrjalda á öldinni sem leið. Kreppan sem á rætur í gangverki kapítalismans er vafalítið af sama toga og sú sem reið yfir fyrir 80 árum, en ytri aðstæður í veröldinni eru nú allt aðrar en þá. Ekki þarf annað en benda á að íbúatala jarðar hefur síðan þrefaldast, alvarlegar loftslagsbreytingar steðja að af mannavöldum, tæknistig hefur tekið stökkbreytingu og  auðsöfnun og misskipting vex óðfluga. Við þessar aðstæður eru efnahagshamfarirnar nú afdrifaríkari og hættulegri fyrir siðmenningu okkar en kreppur fyrri alda og þörfin á róttækum úrlausnum brýnni en ella.  

Heimskerfi á heljarslóð

Það þarf ekki mikla visku til að sjá þá grundvallarbresti sem verið hafa í búskaparháttum mannkyns um langa hríð og ógna nú umhverfi jarðar og undirstöðum siðmenningar sem aldrei fyrr. Fyrst er að nefna ósjálfbæran orkubúskap með jarðefnaeldsneyti sem stendur nú undir 80–90%  af orkunotkun mannkyns. Þar er að finna uppsprettu gróðurhúsloftsins sem veldur hlýnun jarðar og hættu á hrikalegum og stigmögnuðum afleiðingum þegar í tíð næstu kynslóða. Þurrð þessara orkugjafa, olíu og kola, er fyrirsjáanleg, en enginn sjálfbær orkugjafi er í sjónmáli sem leyst geti þá af hólmi nema á löngum tíma. Samhliða þróun nýrra orkugjafa þarf að koma til stórfelldur samdráttur í heildarorkunotkun jarðarbúa og það enn frekar miðað við höfðatölu. Kjarnorka knýr víða á en notkun hennar er háskaleg vegna geislavirks úrgangs og þeirrar hættu sem af dreifingu hennar stafar. Þróunin í orkubúskap jarðar stefnir hins vegar hratt í öfuga átt með vexti sem Alþjóða orkumálastofnunin IEA áætlar að nemi allt að 50% fram til ársins 2030.

Að ryðja veisluborðið

Vöxturinn í orkunotkun stafar af framleiðslu- og neysluháttum sem þorri fólks hefur talið eftirsóknarverða og birtast Vesturlandabúum í sífellt hraðari vöruumsetningu og útþenslu á flestu því sem tengist daglegu lífi, húsnæði, samgöngum, tækjum og tólum, ekki síst til dægrastyttingar. Við þetta bætist sú falda en sívaxandi fjárfesting sem tengist hernaði og hergagnaframleiðslu og stendur undir drjúgum hluta af hagvexti og útgjöldum ríkja, jafnvel þeirra sem örsnauð mega teljast. Nemur sá þáttur um1,5 biljónum bandaríkjadala, þar af fellur tæpur helmingur til hjá Bandaríkjunum og um 70% hjá Natóríkjum (heimild Wikipedia). Bent er á að með bættri nýtingu aðfanga samhliða tækniþróun, betri endingu í stað einnota og auknu vinnuframlagi megi draga umtalsvert úr sóun orku og efnisþátta. Það eitt dugar þó skammt ef heimfæra ætti neyslumynstur Vesturlanda upp á alla jarðarbúa. Fyrir slíku eru engar forsendur og því er verkefnið að búa sem flestum bærilegt líf með langtum minni orku og álagi á umhverfið.

 

Gjaldþrota hagkerfi

Og þá er komið að kreppunni og spurningunni hvort einhver von sé til að heimsbyggðin komist út úr henni án þess að endurtaka hrunadansinn. Margir viðurkenna í orði að kapítalisminn hafi brugðist og mörgu þurfi að breyta. Á skömmum tíma hafa forystumenn iðnríkjanna snúið baki við nýfrjálshyggjunni og skriðið undir pilsfald ríkisins eftir peningum til að bjarga bönkum og bílaframleiðendum og seðlabankar eru í kapphlaupi um að færa niður vexti, sem nú eru víða að nálgast núllið. Nú síðast hefur Englandsbanki boðað seðlaprentun til að vinna gegn verðhjöðnun og fá hjólin til að snúast. Þrátt fyrir að verja eigi óheyrilegum upphæðum úr skuldsettum ríkissjóði Bandaríkjanna og fleiri ríkja í yfirtökur og örvunaraðgerðir eins og það er kallað er engin vissa fyrir að það dugi til að endurvekja traust og stöðva áframhaldandi samdrátt. Atvinnuleysishorfur upp á 10% í Bandaríkjunum og 20% á Spáni segja sína sögu um ástand á vinnumarkaði vestanhafs og austan. Það er líka  tímanna tákn að höfuðrit Karls Marx, Auðmagnið, rennur nú út eins og heitar lummur.

Að rjúfa vítahringinn

Leiðtogar iðnríkja, ýmist undir merkjum G8 eða G20, leita nú úrræða út úr efnahagsöngþveitinu á tíðum fundum og vikapiltar þeirra hittast þeim mun oftar. Talað er um samræmdar aðgerðir, þak á ofurlaun, endurmótun á fjármálakerfis heimsins en umfram allt að ekki megi grípa til verndaraðgerða og hlúa að heimamarkaði. Allt á áfram að vera hnattvætt og menn skulu bara vona að veisluhléið standi stutt svo að unnt sé að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Menn varast eins og heitan eld að nefna jöfnuð og lítið heyrist minnst á sjálfbæra þróun, hvað þá sósíalisma. Nú er þó kjörið tækifæri til að brjótast út úr vítahring sjálfseyðingar og blinds hagvaxtar. En til þess þarf þor og nýja hugsun og umfram allt að kasta trúnni á óskeikulan markað sem æðsta leiðarljós. 



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim