Hjörleifur Guttormsson 10. ágúst 2009

Dreifing ágengra tegunda er alvörumál
Birtist sem grein í Morgunblaðinu 10. ágúst 2009

Í grein sem birtist í Morgunblaðinu 15. júní 2009 vakti ég athygli á að ágengar framandi tegundir lífvera eru vaxandi alþjóðlegt vandamál sem bregðast þarf við hér á landi sem annars staðar. Um það gilda m.a. skuldbindingar Ríósáttmálans um líffræðilega fjölbreytni og ákvæði laga um náttúruvernd. Á ráðstefnu sem umhverfisráðuneytið og Náttúrufræðistofnun Íslands boðuðu til í maí síðastliðnum vörpuðu fyrirlesarar skýru ljósi á stöðu mála  hérlendis, bæði hvað varðar dýra- og jurtaríkið. Í janúar 2006 hafði  Ríkisendurskoðun í sérstakri skýrslu fjallað um það tómlæti og vanrækslu sem hérlendis hefur ríkt um ofangreindan þjóðréttarsamning sem Ísland hefur verið aðili að í 15 ár. Í grein minni benti ég á að opinberar stofnanir eins og Skógrækt ríkisins og Landgræðslan hafi unnið gegn markmiðum samningsins að því er varðar ágengar innfluttar tegundir en tók jafnframt fram að ekki væru þar allir undir sömu sök seldir.

Viðbrögð Þrastar Eysteinssonar

Í Morgunblaðinu 13. júlí sl. birtist grein eftir Þröst Eysteinsson skógfræðing þar sem hann andmælir því sem fram kom í grein minni og staðhæfir m.a.:

„Það er óþekkt að framandi plöntutegundir valdi útrýmingu innlendra tegunda eða vistkerfa. Þvert á móti virðast plöntutegundir sem koma sér fyrir á nýjum svæðum einungis leiða til fjölgunar plöntutegunda í flóru viðkomandi staðar.“

 Í þessu sambandi víkur Þröstur að lúpínu og segir:

„Hins vegar er vandséð að hún sé að útrýma vistkerfum, búsvæðum eða tegundum og þannig má draga í efa að hún falli undir grein 8.h í Ríósamningnum.“  

Hér eins og víðar í greininni er Þröstur á hálum ís. Á árunum 1988–1993 voru gerðar allítarlegar rannsóknir á 15 mismunandi stöðum á landinu á útbreiðslu lúpínu, gróðurbreytingum sem henni fylgja og fleiri áhrifaþáttum (Borgþór Magnússon, Sigurður H. Magnússon, Bjarni Diðrik Sigurðsson: Gróðurframvinda í lúpínubreiðum. Janúar 2001. Fjölrit Rala nr. 207). Niðurstöðurnar tala skýru máli gegn staðhæfingum Þrastar. Lúpína er auðsæjasta dæmið hérlendis um ágenga framandi plöntutegund en við fleiri slíkum þarf að gjalda varhug.

Hvað segja rannsóknir okkur?

Grípum aðeins niður í ofangreinda rannsóknaskýrslu.

„Þegar á heildina er litið hurfu fleiri tegundir úr gróðri en numu land þar sem lúpína breiddist út og myndaði þéttar breiður ... Fléttur hurfu alveg úr reitum þar sem lúpína þétti sig að marki og samanstóð flóran af tegundafáu samfélagi háplantna og mosa. (s. 17) ... Niðurstöðurnar sýna að fjöldi plöntutegunda hverfur þar sem lúpína myndar þéttar, langlífar breiður. Hlutfallslega fáar tegundir halda velli eða nema þar land og fækkar því plöntutegundum yfirleitt þar sem lúpína breiðist um. ... Nánast allar smávaxnar mela- og mólendistegundir úr hópi tvíkímblaða jurta hurfu alveg úr landi sem lúpínan fór yfir. Svipaða sögu er að segja um algengustu lyngtegundir,... Það er eftirtektarvert að hvorki birki né víðitegundir fundust að nokkru marki þar sem lúpína myndaði þéttar, langlífar breiður. ... Rannsóknir okkar á gróðri í lúpínubreiðum ... benda eindregið til að í þéttum lúpínubreiðum, t.d. víðast hvar á Suðurlandi, séu ekki skilyrði fyrir birki til að vaxa upp af fræi. (s. 39) ...  Lúpína  er hörð í samkeppni við lágvaxinn gróður og fækkar plöntutegundum yfirleitt í landi sem hún breiðist yfir. Eftir að lúpína hefur numið land getur reynst erfitt að hemja útbreiðslu hennar.“ (s. 46)

Þetta ætti að nægja til að sýna fram á haldleysi staðhæfinga Þrastar.

Af hverju þessa einsýni?

Þröstur hefur uppi stór orð í garð þess fólks sem ber náttúruvernd fyrir brjósti og sakar það um að „vilja vernda rofið land, rýran gróður og „blessaða“ sauðkindina á þeim forsendum að þetta sé hið eina og sanna Ísland í allri sinni hrikalegri og nakinni fegurð.“ Málflutningur af þessu tagi kann ekki lukku að stýra og er ekki til þess fallinn að sætta sjónarmið og ná fram sjálfbærri landnýtingu og verndun þess sem íslensk náttúra býr yfir. Það er rétt hjá Þresti að ofnýting gróðurríkis landsins á liðnum öldum hefur skilið eftir sig djúp sár, og kom ekki til af góðu. En einmitt þess vegna er lífríki landsins viðkvæmt fyrir innflutningi tegunda, sem reynst geta ágengar, og einboðið að sýna varúð og flýta sér hægt við dreifingu þeirra. Að því ber opinberum stofnunum og starfsmönnum þeirra að vinna og hafa í heiðri skuldbindingar samkvæmt lögum og alþjóðasamningum.
Þröstur staðhæfir „að gróðurinn sem eftir er (sé) rýr og haldlítill ...“. Þar er ég honum ósammála. Íslenskt gróðurríki býr yfir miklum krafti fái það frið til að dafna. Þetta sjáum við hvarvetna þar sem þurrlendi hefur um skeið verið friðað fyrir beit eða votlendi verið þyrmt við framræslu. Umfram allt þarf að lyfta umræðunni upp úr þeirri einsýni sem Þröstur endurómar og virða leikreglur sem taka mið af þekkingu og alþjóðlegri reynslu. Lausnin felst ekki í að skipta af skyndingu um gróðurríkið sem hér hefur þraukað og aðlagast heldur taka tillit til þeirrar náttúru og landslags sem fyrir er og vernda um leið fjölbreytnina.

 Lúpínubreiður við Húsavík nyrðra 24. júní 2009.   Ljósmynd HG
Lúpínubreiður við Húsavík nyrðra 24. júní 2009. Ljósmynd HG



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim