Hjörleifur Guttormsson 10. október 2009

Fjölsótt Umhverfisþing ræðir um sjálfbæra þróun

Umhverfisþing er vettvangur sem ráðuneyti umhverfismála boðar til annaðhvert ár og er nú haldið í sjötta sinn. Þingið sótti um fjögurhundruð manns sem hlýddu á fjölda erinda og tóku þátt í svonefndu heimskaffihúsi þar sem leitað var svara við spurningum um sjálfbæra þróun. Á þinginu kynnti umhverfisráðuneytið samantekt í skýrsluformi um Umhverfi og auðlindir, en fyrir liggur að auðlindamál og rannsóknir sem þeim tengjast verði brátt í verkahring þess. Einnig voru kynnt drög um megináherslur ráðuneytisins á árunum 2010–2013 undir fyrirsögninni Velferð til framtíðar.

Átök um stóriðjustefnu

Í ræðu við upphaf þingsins kynnti Svandís Svavarsdóttir ýmis stefnuatriði sín og sagðist m.a. ekki bera fram neinar sérkröfur fyrir stóriðju á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn í desember næstkomandi . Nýta beri orkulindir landsins til fjölþættrar atvinnustarfsemi og vernda verðmæt svæði sem þeim tengjast. Hún minnti á nýja náttúruverndaráætlum sem gerii ráð fyrir friðlýsingu 12 nýrra svæða og tiltók sérstaklega friðlýsingu Þjórsárvera. – Boðskapur umhverfisráðherra fékk almennt góðar undirtektir en hinsvegar afar óblíðar viðtökur hjá Viljálmi Egilssyni talsmanni Samtaka atvinnulífsins. Sagði hann sjálfbæra þróun snúast um fólk og Íslendingar verði að nýta náttúruauðlindir landsins til að fjárfesta sig út úr kreppunni. Fordæmdi hann skattlagningu á orkufrekan iðnað sem fæli fjárfesta frá og talaði um „ólöglega“ aðför umhverfisráðherra að stöðugleikasáttmála atvinnulífs og stjórnvalda. Við allt annan tón kvað hjá Guðmundi Gunnarssyni formanni Rafiðnaðarsambandsins og formanni umhverfisnefndar ASÍ. Hann gagnrýndi stjórnmálamenn og aðra þá sem nú kalli á fleiri álver. Yrði orðið við kröfum þeirra væri búið að virkja hér allt. Ekki megi setja öll egg í sömu körfu heldur horfa heildstætt á málin og varast blint hagkvæmnimat.

Heiðursgestur frá Hornafirði

Sveitarstjórinn á Hornafirði, Hjalti Þór Vignisson, var heiðursgestur þingsins og flutti ágætt erindi um framtíðarsýn manna í byggðarlaginu sunnan Vatnajökuls. Þar reyni menn að byggja sem mest á eigin kröftum og hyggjuviti til að skjóta fórum undir fjölbreytt atvinnulíf í sátt við náttúruna. Minnti hann á orð Þórbergs Þórðarsonar að sjá það stóra í því smáa. Hjalti dró upp mynd af fjölmörgum nýsköpunarþáttum í atvinnulífi, menntun og rannsóknarstarfi þar eystra. Sérstaklega vék hann að Vatnajökulsþjóðgarði sem væri aflvaki í samfélaginu og tengdist fjölmörgum nýsköpunarhugmyndum, m.a. í ferðaþjónustu. Unnið sé nú að verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn sem eigi að tryggja náttúruvernd og fléttast saman við sögu og mannlíf. Marka þurfi m.a. stefnu um atvinnustarfsemi innan þjóðgarðsins.

Áhersla á náttúruvernd

Magnús Tumi Guðmundsson prófessor flutti áhrifamikið erindi um náttúruvernd og þær hættur sem steðji að því sem sérstætt er á Íslandi, ekki síst hálendinu. Hér eins og víðar sé stunduð hröð og ósjálfbær námuvinnsla á orku og auðlindum. Mannkynið sé að eyða á 100 árum olíulindum sem tekið hafi 100 milljón ár að byggja upp og afleiðingin sé m.a. hækkun sjávarborðs sem færi mannvirki og  borgahverfi á kaf, m.a. í Reykjavík. Hann kallaði eftir vönduðu skipulagi sem ramma um sjálfbært mannlíf. Hálendinu stafi hætta af ókynsamlegri mannvirkjagerð, virkjunum og uppbyggðum vegum og af „þjófum í paradís“ sem aki í fullkomnu tillitsleysi utan vega og virði hvorki boð né bönn. Tiltók hann sérstaklega akstur mótorhjólamanna. Langtum meira fjármagn þurfi til náttúruverndar og ráða ætti 100 manns til landvörslu strax næsta sumar. Kostnaður við 1000 manns í landvörslu væri ekki meiri en það fjármagn sem væri að baki einu starfi í álveri. Vatnajökulsþjóðgarð taldi hann eina merkustu tilraun í náttúruvernd á Íslandi og friðlýsa þurfi fleiri stór svæði á hálendinu. Magnús Tumi lauk máli sínu með áskorun um að hætta að eyðileggja íslenska náttúru með vondum ákvörðunum og andvaraleysi.

Áskorun umhverfisverndarsamtaka

Fyrir hönd umhverfisverndarsamtaka ávarpaði þingið Hrund Skarphéðinsdóttir formaður Framtíðarlandsins. Hún ræddi hættur af stóriðjustefnunni og benti á reynsluna frá Austurlandi þar sem vonir manna bundnar risaframkvæmdum hefðu ekki orðið að veruleika. Við verðum að hætta að einblína á stórar lausnir sagði Hrund og vitnaði til orða Finnboga Jónssonar framkvæmdastjóra Nýsköpunarsjóðs þess efnis að hvert starf í stóriðju kosti einn milljarð en fjárfesting í nýsköpunarfyrirtækjum eins og Marorku og CCP á bilinu 25 til 30 milljónir króna. Ekki eigi að veita stóriðjufyrirtækjum afslátt frá sköttum og skyldum og ýta þannig undir gervihagvöxt. Þá benti hún á stöðu orkuöflunar til stóriðjufyrirtækja og minnti á nýlega niðurstöðu Sigmundar Einarssonar jarðfræðings þess efni að til álvers í Helguvík vanti 270 MW þótt öll jarðvarmaorka suðvestanlands kæmi til og með álveri á Bakka þyrfti að fullvirkja allan háhita á Norðausturlandi. Virkjun jarðvarma fylgi auk þess veruleg tæknileg áhætta. Hún kallaði eftir endurskoðun á  mælikvörðum um hagvöxt og þjóðarframleiðslu og líta þurfi á lífsgæði í víðara samhengi en gert hefur verið.
    
Leitað lausna í „heimskaffihúsi“

Fulltrúar ungs fólks, Sigríður Ólafsdóttir og Unnsteinn Manuel Stefánsson,  ávörpuðu þingið og kölluðu m.a. eftir almenningssamgöngum til að unnt væri að hverfa frá einkabílisma og draga úr mengun. Síðsdegis var hlýtt á fjölda erinda í tveimur málstofum sem beindust að umhverfismálum í sveitarfélögum annarvegar og atvinnulífi hins vegar. Að því búnu settust þingfulltrúar á svonefnt heimskaffihús, nokkrir við hvert borð og leituðu svara við spurningunni „Hvernig náum við raunverulegum árangri við uppbyggingu sjálfbærs samfélags?“ Lausnarorðin reyndust af ýmsu tagi sem vænta mátti. Við borðið sem ég sat við varð sammæli um eftirfarandi úrræði:

  • Breytt efnahagskerfi á heimsvísu sem virði takmarkanir jarðar.
  • Alþjóðlegar og staðbundnar leikreglur sem taki jafnt mið af hagrænum, umhverfislegum og félagslegum þáttum.
  • Lýðræðisleg og siðræn gildi verði sett í öndvegi.
  • Grænfánaverkefni verði felld inn í námsskrár.

Umhverfisverndarþingið er þannig merkileg tilraun til að leita lausna við mörgum brennandi vandmálum og leggur til nesti á langri leið til sjálfbærrar þróunar.

Svipmynd frá Umhverfisþingi
Svipmynd frá Umhverfisþingi - ljósmynd HG



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim