Hjörleifur Guttormsson 11. nóvember 2009

Lissabon-sáttmálinn færir ESB nær stórríkinu

Lissabon-sáttmáli Evrópusambandsins er ígildi stjórnarskrár og með honum er stigið stórt skref í átt að ríkisheild. ESB hefur síðustu tvo áratugina verið að auka völd  miðstjórnar sambandsins á kostnað aðildarríkjanna skref fyrir skref. Þau birtast okkur í viðbótum við upphaflega Rómarsamninginn og bera nöfn eins og Maastricht 1993,  Amsterdam 1999 og nú síðast Lissabon 2009. Schengen-samstarfið frá 1985 sem fól í sér afnám landamæraeftirlits var fellt undir reglur sambandsins 1999 og varð Ísland aðili að því árið 2001. Tala aðildarríkja nær tvöfaldaðist á árunum 2004–2007 þegar þeim fjölgaði úr 15 í 27. Íbúatalan innan ESB er nú um 500 milljónir og efnahagsumsvifin svara til um 30% af heimsframleiðslu. Engum getur blandast hugur um að hér er á ferðinni stórveldi sem markvisst þokast í átt að ríkisheild með öllu sem til heyrir, um margt hliðstætt Bandaríkjum Norður-Ameríku. Íslendingar hljóta að meta afstöðu sína til ESB í ljósi þessa. Viljum við hverfa frá núverandi skipan mála sem sjálfstæð þjóð og gerast örlítið peð í jaðri Evrópuríkis með stjórnstöðvar og aðra þungavigt staðsetta handan Atlantsála?

Hvað breytist með Lissabon-sáttmálanum?

Lissabon-sáttmálinn breytir Evrópusambandinu bæði að formi og innihaldi. Stærsta formbreytingin sem við blasir út á við eru ný embætti forseta og utanríkisráðherra, sá fyrrnefndi kosinn af ráðherraráði til tveggja og hálfs árs með möguleika á endurkjöri, sá síðarnefndi einnig kosinn af ráðherraráðinu með samþykki framkvæmdastjórnarinnar og er jafnframt einn af varaforsetum hennar. Utanríkisráðherrann fer einnig með öryggis- og hernaðarmál sambandsins. ESB fær aukið valdsvið í ýmsum málum og yfirþjóðlegur dómstóll sambandsins fær aukin verkefni sem ná til flestra sviða. Aukinn meirihluti mun gilda um flestar ákvarðanir, þannig að aðildarríkin hafa ekki lengur stöðvunarvald. Í ráðherraráðinu minnkar hlutur smáríkja en stórþjóðirnar auka sinn hlut verulega frá því sem verið hefur. Atkvæðavægi Þýskalands hefur t.d. verið ferfalt meira en Danmerkur en verður nú fimmtán-falt á við Danmörku. Vægi Íslands yrði hverfandi eða 3 atkvæði af alls 350 í ráðherraráðinu!

Ólýðræðisleg uppbygging styrkist

Hingað til hefur hvert aðildarríki átt einn fulltrúa (kommissar) í framkvæmdastjórninni í Brussel. Nú verður þriðjungur aðildarríkja án slíks fulltrúa hverju sinni en þeir eiga að flytjast milli aðildarríkja með hliðsjón af fólksfjölda og landfræðilegri legu. Hingað til hefur hvert aðildarríki fengið kommissar í sinn hlut. Kjör forseta framkvæmdastjórnar á nú, að framkominni tillögu aukins meirihluta ráðherraráðsins, að staðfesta af Evrópuþinginu með meirihluta atkvæða. Þingið hefur eftir sem áður ekki frumkvæði að löggjöf  heldur er það framkvæmdastjórnin ein sem semur og leggur fram lagafrumvörp. Vald þjóðþinga aðildarríkjanna veikist í réttu hlutfalli við það sem miðstjórnarvaldið í Brussel styrkist. Þessi ólýðræðislega uppbygging gengur þvert á almennar kröfur um grenndarlýðræði og aukin áhrif almennings. Hvert þetta leiðir sést best í síminnkandi kjörsókn fólks í aðildarríkjunum í kosningum til Evrópuþingsins, en hún nam að meðaltali 43% í júní 2009. Getur það hvaflað að Íslendingum að láta hneppa sig í viðjar fjarlægra valdastofnana sem nú hafa verið reyrðar fastar en áður með Lissabonútgáfu Evrópusambandsins?



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim