Hjörleifur Guttormsson | 12. apríl 2009 |
Litast um á páskadagsmorgni Hræranlegar hátíðir Eins og gildir um flesta tilbreytingu í daganna rás liggja rætur páskahalds aftur í forneskju, löngu fyrir daga kristninnar. Nafnið er þó rakið til hebresku þar sem pesah var heiti á einhvers konar alþýðuhátíð með vorkomu og talið merkja hlaup eða stökk, sem vísar í ærsl almúgafólks. Á þessum tíma fæðast fyrstu lömbin og vænta má um sama leyti bygguppskeru. Meðal Gyðinga var haldin páskahátíð eftir vorjafndægur og hjá kristnum söfnuðum var þá minnst upprisu Krists sem þeir töldu hafa orðið um þetta leyti. Páskaheitið berst svo til okkar gegnum grísku, latínu og fornsaxnesku að talið er. Engilsaxar tala hins vegar um Easter og Þjóðverjar um Ostern, sem er gamalt heiti á vorhátíð norðan Alpa, tengt austur-átt þar sem hækkandi sól rís er vorið nálgast. Á Norðurlöndum hélst hins vegar páska-nafngiftin sem fyrirfinnst í íslenskum handritum frá því um 1200 og er þá sem karlkynsorð í fleirtölu líkt og nú. Blind trú á markaðinn Margt er á hreyfingu um þessa páska í okkar samfélagi eins og víðar um heiminn og aðeins hálfur mánuður í ögurstund alþingiskosninga. Krepputímarnir sem við nú erum vitni að munu skilja eftir sig djúp spor í minni margra, enda láta þeir fáa ósnortna. Enginn veit hvenær og hvernig þeim hremmingum muni linna. Margir upplifa kreppuna líkt og náttúruhamfarir og hneigjast til að halda að þeir fái engu ráðið um frekari framvindu. Alltof lítið fer fyrir umræðu um ástæður þessara efnahagslegu hamfara sem eiga sér langan aðdraganda. Upptök þeirra er að finna í efnahagskerfinu sem þróast hefur á Vesturlöndum um aldir og kennt er við kapítalisma. (sjá heimasíðu: www.eldhorn.is/hjorleifur) Engu er líkara en þorri hagfræðinga kynoki sér við að varpa ljósi á það samhengi. Ástæðan er sennilega sambland af ónógri yfirsýn og þeirri blindu trú á markaðinn sem byrgt hefur mörgum sýn síðustu áratugina. Hér á Íslandi ristir umræðan ekki djúpt á heildina litið. Vinstri grænir eru eini stjórnmálaflokkurinn sem nú í aðdraganda kosninga gerir kröfu um að önnur gildi verði ráðandi í samfélaginu framvegis. Flokkurinn hefur allt frá því hann var stofnaður fyrir 10 árum varað við fyrirsjáanlegri kollsiglingu og krafist róttækra breytinga með sjálfbæra þróun og hófstillingu sem leiðarljós til framtíðar litið. Vinstri grænir hafa andæft af þrótti stóriðjustefnunni, varað við útrásinni og gert kröfu um að siðræn gildi en ekki auðgildi ráði för í samfélaginu. Draumalandið og svefngöngur vanans Ánægjulegasti viðburður í dymbilvikunni var frumsýning myndarinnar Draumalandið. Þar er á ferð fólk sem hefur áttað sig meira en "til hálfs" og hristir rækilega upp í oss "svefngöngum vanans" svo notuð séu orð úr Söknuði Jóhanns Jónssonar. Framleiðandinn Sigurður Gísli Pálmason kom hugsun sinni skýrt til skila í viðtali við Fréttablaðið í gær, laugardag. Meðal þess sem hann bendir á er að eftir að grýla kommúnismans hvarf af sviðinu hafi læðst upp að okkur nýr einræðisherra " ... sem enginn tók eftir en við lútum öll með einhverjum hætti. Þessi nýi einræðisherra er hagvöxturinn. Allt gengur út á að þjóna honum. Vöxtur, viðbót, aukning. Það verður að vera meira í dag en í gær. Þetta þýðir það eitt að neyslan þarf að aukast og það er út af fyrir sig mjög óheilbrigt. Fólk krossar sig ef hagsvöxturinn dregst saman." Hjörleifur Guttormsson |