Hjörleifur Guttormsson 12. maí 2009

Tundurskeyti í farangrinum

Margir munu ánægðir með að tekist hefur að mynda ríkisstjórn tveggja flokka á vinstri væng stjórnmálanna nú tveimur vikum eftir kosningar. Ísland þurfti vissulega á öðru að halda en langvarandi stjórnarkreppu eftir þau ósköp sem yfir þjóðina hafa dunið.

Janusarhöfuð nýrrar ríkisstjórnar

Í langri stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar hafa fjölmiðlar að vonum fyrst af öllu staldrað við kafla þar sem fjallað er um svonefnd Evrópumál, þ.e. hugsanlega aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Í þeim texta er á ferðinni ótrúlegur stjórnskipulegur óskapnaður jafnt að formi og innihaldi, sem helgast eflaust af því að stjórnarflokkana greinir á um grundvallaratriði málsins. Byrjað er á að boða að ákvörðun um aðild Íslands að ESB verði í höndum íslensku þjóðarinnar sem muni í þjóðaratkvæðagreiðslu greiða atkvæði um samning að loknum aðildarviðræðum. „Utanríkisráðherra“ muni á vorþingi leggja fram tillögu um aðildarumsókn. Með þessum orðum er gert ráð fyrir að aðildarsamningur verði að veruleika. Í annan stað er látið líta svo út að ríkisstjórnin, þ.e. framkvæmdavaldið, komi að málinu fyrir atbeina utanríkisráðherra, en það er blekking eins og málið nú liggur fyrir. Komi tillaga um þetta efni fram á Alþingi flutt af  „utanríkisráðherra“ flokkast hún þar skv. 55. grein stjórnarskrárinnar sem mál þingmannsins Össurar Skarphéðinssonar og er að formi til óviðkomandi embætti hans sem ráðherra. Af þessu leiðir jafnframt að þingmenn og ráðherrar VG eru stjórnskipulega ekki ábyrgir fyrir framgangi tillögunnar. Sjálf hefur ríkisstjórnin hvorki eina stefnu í þessu máli né þingstyrk til að knýja fram þingsályktun sem áskorun á sjálfa sig þess efnis að sækja um aðild að ESB. 

Löskuð ásýnd vegna ESB-umsóknar

Svokölluð málamiðlun stjórnarflokkanna um að sótt skuli um aðild að Evrópusambandinu gengur augljóslega ekki upp. Tillaga þessa efnis gengur gegn stefnu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs eins og formaður VG ítrekaði á fæðingardegi stjórnarinnar. Engin frambærileg skýring hefur fengist á því hvers vegna fallist var á einhliða kröfu Samfylkingarinnar um slíka aðildarumsókn. Með því eru bæði flokksmenn og margir óbreyttir kjósendur VG skildir eftir í sárum og tundurskeyti er sett í farangur ríkisstjórnarinnar. Það er alvarlegt þegar ekki er hægt að treysta því að haldið sé fast við flokkssamþykktir í slíku stórmáli og þegar forystumenn ganga bak orða sinna. Með þessu hefur ásýnd VG verið löskuð en flokkurinn hefur hingað til getað hampað stefnufestu og trausti sem aðalsmerkjum sínum. Mikill fjöldi flokksráðsmanna andmælti þessu ákvæði samstarfsyfirlýsingarinnar sl. sunnudag og sérstök bókun fimm alþingismanna flokksins um staðfasta andstöðu þeirra við aðildarumsókn er skýr ábending um, hversu holt er undir því ferli sem ríkisstjórnin hyggst flytja inn á Alþingi innan skamms.  

Andvana borinn samningur

Framsetningin á Evrópusambandskaflanum er bæði óskipuleg, sundurlaus og órökræn sem ekki er að undra þar sem tveir halda á penna. Þar stendur m.a.: „Stuðningur stjórnvalda við samninginn þegar hann liggur fyrir er háður ýmsum fyrirvörum um niðurstöðuna út frá hagsmunum Íslendinga ...”. Í því sambandi er vísað til sjávarútvegs- og  landbúnaðarmála, byggða- og gjaldmiðilsmála, umhverfis- og auðlindamála og almannaþjónustu. Halda mætti eftir orðanna hljóðan að fyrst eigi að semja og síðan að gera fyrirvara. Í framhaldi textans er svo boðað að „víðtækt samráð verður á vettvangi Alþingis og við hagsmunaaðila um samningsmarkmið og umræðugrundvöll viðræðnanna.“ Hér er Alþingi sett í hlutverk frumkvæðisaðila og geranda í utanríkismálum sem samkvæmt stjórnarskrá og hefðum eru á hendi framkvæmdavaldsins. Það verður verk að vinna ef þetta allt á að fá niðurstöðu áður en vorþing getur tekið afstöðu til þingmannatillögu Össurar.  

Fáheyrður flumbrugangur

Ef hér væri ekki á ferðinni afdrifaríkasta mál sem borið hefur fyrir Íslendinga frá því þeir öðluðust fullveldi 1918 væri hægt að gera gys að þessum fáheyrða málatilbúnaði. En alvaran í stöðunni er meiri en svo að hægt sé að leyfa sér gálaust tal. Með forsætis- og utanríkismál í ríkisstjórninni fara tveir ráðherrar Samfylkingarinnar, en í samsteypustjórn sem þessari væri eðlilegt að þessi ráðuneyti skiptust milli flokkanna tveggja. Ef umrædd tillaga um málsmeðferð berst frá Alþingi til ríkisstjórnarinnar verður hún á forræði utanríkisráðherra, en Alþingi fengi eftir fregnum að dæma náðarsamlegast að hafa nefnd til að horfa yfir öxlina á honum. Samfylkingin hefur sótt þetta mál af ofurkappi en engri forsjá og er trúandi til alls svo að ná megi aðildarsamningi við framkvæmdastjórn ESB. Þar opnar Olle Rehn stækkunarstjóri portin og dregur fram Rómarsáttmálann með viðaukum.


Halda mætti að nýmynduð ríkisstjórn með listann langa og eld í öðrum hvorum ranni hefði annað og þarfara að gera en bæta á bálið stærsta ágreiningsmáli í sögu lýðveldisins. Eftir orðanna hljóðan er þetta þó ásetningur hennar og því þarf almenningur að halda vöku sinni sem aldrei fyrr.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim