Hjörleifur Guttormsson 12. október 2009

Eftirmáli um Umhverfisþing

Umhverfisþing 2009 stóð í einn og hálfan dag og lauk um hádegi 10. október. Ég hef áður sagt frá helstu atriðum sem voru á dagskrá fyrri fundardaginn en vík hér að síðari deginumog kem jafnframt á framfæri nokkrum ábendingum sem varða  þingið og framlag umhverfisráðuneytisins sem fundarboðanda.

Blandaðir ávextir síðari þingdaginn

Fimm erindi voru á dagskrá að morgni síðari þingdags undir fyrirsögninni Hvernig náum við takmarkinu um sjálfbært Ísland? Þar reið Sveinn Jónsson frá Kálfskinni á vaðið og sagði frá hamprækt sem nýst geti vel til iðnaðar og fóðurgerðar og frá fleiri nýmælum sem unnið er að í Eyjafirði, svo sem gönguleiðum, köfun og strandveiðum. María Ellingsen leikkona greindi frá hópi fólks sem kallar sig Mauraþúfuna og boðar til svonefnds þjóðfundar 14. nóvember n.k. til að leita leiða út úr núverandi ástandi, þvert á flokkadrætti. Valdir verða 1200 einstaklingar með tölfræðiúrtaki til þátttöku og þess utan kallaðir til fulltrúar frá stofnunum. Guðmundur Ingi Guðbrandsson líf- og umhverfisfræðingur kallaði eftir sameiginlegri sýn á sjálfbæra þróun og vill sjá mælanlegan árangur. Vék hann m.a. að ágengum tegundum, sérstaklega lúpínu, og benti á að áætlanir vanti hvernig við henni skuli brugðist. Stjórnskipuð nefnd hefur starfað í 10 ár án þess nokkuð hafi frá henni komið um þessi efni. Upplýst var að Náttúrustofa Vesturlands og Stykkishólmsbær hafa sýnt það jákvæða framtak að kortleggja útbreiðslu ágengra tegunda í landi sveitarfélagsins og lagt fram tillögur um viðbrögð. Brynhildur Pétursdóttir ritstjóri Neytendablaðsins fjallaði um sjálfbæra neyslu sem setið hafi á hakanum. Benti hún á flutning matvæla heimshorna á milli og sóun sem því fylgi á orku og hráefni auk íblöndunar eiturefna. Nefndi svonefnda REACH-reglugerð ESB og undirbúning að því að innleiða hana hérlendis. Íslendingar væru neysluhítir og breyta þurfi hér róttækt viðhorfum til neyslu með það að markmiði að Ísland verði grænasta land í heimi. Björg Pétursdóttir sérfræðingur hjá menntamálaráðuneyti ræddi um menntun til sjálfbærrar þróunar sem væri ný áhersla hjá stjórnvöldum. Skólar geti þar haft mikil áhrif til að auka þekkingu og færni. Byggja þurfi áherslur um sjálfbærni inn í námsskrá og námssvið allra skólastiga. Sveitarfélög þurfi að verða virk, móta almenna stefnu og koma á fót skólaráðum innan sinna vébanda.

Áhersluatriði og þættir útundan

Margt jákvætt mætti segja um þinghaldið, fjölbreytta dagskrá þess, góða fundarstjórn og fjölda þátttakenda sem ber vott um vaxandi áhuga á málasviðinu. Eins og vikið var að í fyrri þætti mínum frá þinginu lagði umhverfisráðuneytið fram tvö stefnumarkandi gögn: Skýrslu um Umhverfi og auðlindir (60 blaðsíður) og „megináherslur 2010–2013“ undir fyrirsögninni Velferð til framtíðar. Síðara plagginu er ætlað að falla inn í ramma sem smíðaður var af ráðuneytinu fyrir þing Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg 2002 og ætlað er að ná til ársins 2020, með endurskoðun fjórða hvert ár. Aukið er nú við þáttum um sjálfbæra framleiðslu og neyslu og um menntun til sjálfbærrar þróunar.
Hér verður vikið að nokkrum atriðum sem lítið sem ekkert er að finna um í framlögðum gögnum frá ráðuneytinu. Fimm svið vantar þannig í skýrsluna um Umhverfi og auðlindir. 1) Ferskvatn sem auðlind fær þar enga umfjöllum og er það þó undirstaða alls lífs á þurrlendi. 2) Skipulagsmál fá lítið sem ekkert rúm en þau eru lykilatriði til að ná árangri á fjölmörgum sviðum umhverfismála. 3) Þjóðlendur eru ekki nefndar á nafn þótt þar sé um að ræða stór landssvæði í almennaeigu, einkum á miðhálendinu, sem kalla á samræmda verndar- og nýtingarstefnu. 4) Líffræðileg fjölbreytni kemur lítið við sögu í skýrslunni og ekki er minnst einu orði á ágengar tegundir. 5) Vistvænar veiðiaðferðir, áhrif mismunandi veiðarfæra sem og friðum svæða innan efnahagslögsögunnar eru ekki nefnd í skýrslunni. Það sem sagt er hér um liði 2)–4) á einnig við um plaggið Velferð til framtíðar. Þá stingur mjög í auga að í hvorugu plagginu er minnst orði á vernd og veiðar sjávarspendýra, hvali og seli, né heldur tófu sem þó fær af sér litmynd til skreytingar. Ég sakna líka skýrari umfjöllunar um Norðurslóðir, þar á meðal um hugsanlega olíuvinnslu. Um félagslega þætti sem eru ein af þremur meginstoðum sjálfbærrar þróunar er ekki fjallað í skýrslum þessum og eru þeir þó síst þýðingarminni en náttúrufræðileg þekking ef ná á árangri í sjálfbærri þróun.

Sáralítill tími til almennra umræðna

Stærsti veikleiki í skipulagi Umhverfisþings nú eins og oft á fyrri slíkum þingum var að sáralítill tími var gefinn til umræðna í sal. Þetta olli því að lítil viðbrögð komu frá þingfulltrúum við þeim fjölda erinda sem flutt voru. Úr þessu hefði verið auðvelt að bæta með því að hafa „heimskaffihús“aðeins á dagskrá fyrri daginn, því að endurtekning á því síðari þingdaginn gaf lítið í aðra hönd. Ágætt er að prófa slík form en þau mega ekki taka völdin á svona vettvangi þar sem væntanlega er ætlast til að fá fram sjónarmið þátttakenda við framsettum gögnum og hugmyndum. Færir fundarstjórar eins og Þóra Arnórsdóttir og Freyr Eyjólfsson  hefðu farið létt með að halda fólki við efnið innan tímamarka. Vissulega var fólk beðið um athugasemdir og tillögur til ráðuneytisins með bréfum eftir á, en slíkt vill falla milli þils og veggjar í dagsins önn.

Endurmótað ráðuneyti og stofnanir þess

Fyrir liggur samkvæmt sáttmála ríkisstjórnar veruleg breyting á verksviði umhverfisráðuneytisins sem koma á fram í heitinu umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Þótt ráðherra hafi gert stutta grein fyrir þeim nýmælum í setningarræðu á þinginu hefði verið æskilegt að fá ítarlegri frásögn um þá nýskipan og umræður um hana. Ljóst virðist að m.a. rannsóknir á náttúruauðlindum landsins og vöktun þeirra komi í hlut endurskapaðs umhverfisráðuneytis samhliða því að stefnt er að einu atvinnuvegaráðuneyti. Slíkt mun hafa áhrif á undirstofnanir og samskipti innan stjórnarráðsins og við almenning. Tilfinning mín er að sitthvað þurfi endurmótunar við í þeim stofnunum sem fyrir eru á umhverfissviði, ekki síst að því er varðar Umhverfisstofnun. Sameining of margra óskyldra þátta innan hennar fyrir sjö árum hygg ég hafi verið misráðin og þarfnist endurskoðunar. Brynhildur Pétursdóttir vék að þessu í erindi á þinginu og taldi að greina ætti milli náttúruverndar og annarrar umhverfisverndar í stofnanaásýnd og málsmeðferð. Samskipti náttúrustofa við aðrar stofnanir á sviði umhverfisverndar, þar á meðal við Náttúrufræðistofnun, gæti þurft að glöggva, en stofurnar hafa sannað gildi sitt þá tvo áratugi sem þær hafa starfað. Til viðbótar við Umhverfisþing vantar síðan vettvang fyrir frjáls félagasamtök til að bera saman bækur sínar líkt og gerðist á Náttúruverndarþingum fyrr á árum.


Ungt fólk á Umhverfisþingi: Sigríður og Unnsteinn Manuel. – Ljósm. HG



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim