Hjörleifur Guttormsson 13. febrúar 2009

Spennan vex á Evrusvæðinu

Það er fróðlegt að fylgjast með vaxandi spennu og hagsmunaárekstrum innan Myntbandalags Evrópu með sinn margprísaða evrugjaldmiðil. Á sama tíma og ýmsir hagfræðingar eru að vísa Íslendingum á evruna sem hina öruggu höfn, ef ekki í dag þá á morgun, birtast fréttir frá meginlandi Evrópu um vaxandi hagsmunaárekstra og áhyggjur um framtíð myntbandalagsins í dýpkandi kreppu. Það er einkum ástand fimm ríkja bandalagsins sem horft er til þessa stundina, en það eru Grikkland, Írland, Ítalía, Portúgal og Spánn. Eftir að hafa lagt hart að sér við að uppfylla Maastricht-skilyrðin og komast í evru-skjólið gagnvart gengissveiflum eru þessi lönd nú að upplifa þá spennitreyju sem þeim er gert að búa við til frambúðar. Efnahagur þessara ríkja byggir á ólíkum grunni miðað við gömlu iðnríkin sem ráða ferðinni í bandalaginu með Þýskaland í fararbroddi. Sjúkdómseinkennin eru vaxandi skuldsetning, versnandi samkeppnis- og greiðslustaða, vaxandi fjárlagahalli og gífurlegt atvinnuleysi þar sem Spánn er í fararbroddi með sín 14% án atvinnu þessa stundina.

Skuldabréfamarkaðir í þessum löndum eru yfirspenntir, einkum í Grikklandi og á Írlandi en einnig í fjölmennari ríkjum eins og Spáni og Ítalíu, þar sem skuldir hins opinbera eru komnar yfir 100% af vergri þjóðarframleiðslu. Á Spáni og á Írlandi stendur byggingariðnaður sérstaklega illa eftir mikla offjárfestingu síðustu árin.

Vangaveltur eru uppi um hvort einhver þessara ríkja verði að segja skilið við Myntbandalagið, en það er hægara sagt en gert og kostnaðurinn við að taka upp eigin mynt er sagður gífurlegur og slík gjaldmiðilsbreyting tæknilega flókin. Á hinu leitinu  blasir við hættan á að löndin lendi í vanskilum og greiðsluþroti og þá er spurningin hver geti komið til hjálpar. Reglur myntbandalagsins gera ekki ráð fyrir slíkri uppákomu og þeir efnahagslega sterku í bandalaginu eru auk þess þegar hart keyrðir í kreppunni, ekki síst Þjóðverjar. Innan Evrusvæðisins getur því fyrr en varir blasað við neyðarástand með tilheyrandi pólitískum landskjálftum, þar sem fárra góðra kosta er völ. Valið kann að standa milli upplausnar eða endurskoðunar á meginreglum sem kalli á allt annan og meiri samruna og miðstýringu en Maastrict-sáttmálinn gerði ráð fyrir. Íslendingar gerðu rétt í að halda sig fjarri þessu spennusvæði, hlúa að eigin gjaldmiðli og sníða sér stakk að vexti.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim