Hvað mælir gegn aðild að Evrópusambandinu?
Undirritaður er stundum spurður að því hvað valdi því að ég sé mótfallinn því að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Sumir gefa til kynna að í þessu felist útúrboruháttur og jafnvel gamaldags þráhyggja. Hér á eftir vil ég draga saman nokkur þau atriði sem ráða afstöðu minni og eins og menn geta ráðið af lestri greinarinnar eru ástæðurnar margar og sumpart samslungnar. Mér hefur löngum þótt það ljóður á annars líflegri umræðu um Evrópusambandið þegar fólk bindur sig við aðeins eitt álitamál við mat á sambandinu, til dæmis spurninguna um gjaldmiðil, svo áhugaverð sem hún vissulega getur verið.
Fullveldisafsalið
Við blasir að aðild að Evrópusambandinu fylgir fullveldisafsal á mörgum sviðum. Stofnanir Evrópusambandsins eru bærar um að taka ákvarðanir fyrir aðildarríkin samkvæmt nánari reglum og fara því með þau málefni sem þannig eru lögð undir sambandið.
Samruni í átt að sambandsríki hefur einkennt þróun Evrópusambandsins en um það efni ríkir mikil togstreita innan þess. Dómstóll ESB með aðsetur í Lúxemburg hefur iðulega tekið mið af markmiðum stofnsáttmála þess sem kveður á um samruna og dómar hans eru yfirþjóðlegir, þ.e. æðri dómsvaldi aðildarríkjanna.
Í framkvæmdastjórn ESB sitja nú 27 kommissarar, einn tilnefndur af hverju aðildarríki. Sérstaklega er kveðið á um að viðkomandi sé ætlað að gæta hagsmuna sambandsins í heild en ekki ganga erinda viðkomandi ríkis. Innan framkvæmdastjórnarinnar starfa nú um 25 þúsund embættismenn.
Á Evrópuþinginu sitja alls 785 kjönir fulltrúar, þar af 5 frá Möltu sem er fámennasta ríki sambandsins með um 400 þúsund íbúa. Fulltrúatalan lækkar lítilsháttar eftir næstu kosningar til þingsins í júní 2009. Þingið hefur mjög takmörkuð völd. Í hlut Íslands kæmu 5-6 þingmenn alls, þ.e. innan við eitt prósent af heildarfjölda þingmanna.
Á EES-samningnum og ESB-aðild er mikill munur bæði um eðli og umfang. Sá fyrrnefndi tekur fyrst og fremst til ákvæða um innri markað ESB og kallaði á sínum tíma ekki á stjórnarskrárbreytingu að mati meirihluta Alþingis.
Evrópusambandið er tollabandalag, þ.e. án tolla milli aðildarríkja, en sameiginlegur tollmúr er gagnvart ríkjum utan þess. Fríverslunarsamningar af hálfu einstakra aðildarrríkja við lönd utan sambandsins eru útilokaðir.
Utanríkisstefna ESB og Sameinuðu þjóðirnar
Evrópusambandið hefur smám saman verið að taka yfir fjölþætt verkefni af aðildarríkjum sínum á sviði utanríkis- og öryggismála og færa þau undir framkvæmdastjórnina í Brussel og fleiri stofnanir. Þetta gerðist fyrst að marki með Amsterdam-sáttmála ESB 1999 og frekari breytingum síðar. Efnt var þá til embættis talsmanns utanríkis- og öryggismála, sem kemur fram fyrir ESB-ríkin að höfðu samráði við framkvæmdastjórnina (nú Javier Solana).
Opnað hefur verið fyrir þátttöku Evrópusambandsins í hernaðarátökum í takmörkuðum mæli (EUFOR), fyrst á Balkanskaga árið 2003 og síðan á fleiri stöðum, m.a. í Afríku. Í Afganistan annast ESB nú einkum þjálfun þarlendra lögreglusveita. Hervæðing á vegum sambandsins er umdeilt og viðkvæmt mál, sem átti sinn þátt í að Lissabon-sáttmálinn var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu á Írlandi sumarið 2008.
Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna samræmir ESB afstöðu aðildarríkja sinna og talar á Allsherjarþinginu nær alltaf einni röddu gegnum fulltrúa þess ríkis sem fer með formennsku hverju sinni. Það á einnig við um 6 aðalnefndir allsherjarþingsins og ECOSOC (Efnahags- og félagsmálaráðið). Innan Alþjóða viðskiptastofnunarinnar (WTO) fer ESB með samningsumboð allra ríkjanna svo og í GATT-viðræðum. ESB hefur auk þess allt frá 1990 talað einni röddu á öllum stórum alþjóðaráðstefnum Sameinuðu þjóðanna þannig að einstök aðildarríki koma þar ekki fram með sjálfstæðum hætti. Fulltrúum ESB-ríkja í Öryggisráðinu ber að upplýsa önnur aðildarríki um afstöðu sína. Á opnum fundum Öryggisráðsins talar fulltrúi formennskuríkis ESB hverju sinni fyrir hönd sambandsins. – Ef Ísland yrði aðili að ESB myndi sjálfstæð rödd þess að mestu hljóðna hjá Sameinuðu þjóðunum og á alþjóðaráðstefnum á þeirra vegum.
Þrengt að lýðræði
Miðstýrt og ólýðræðislegt stjórnkerfi Evrópusambandsins blasir við hvert sem litið er.
Framkvæmdastjórnin í Brussel, skipuð embættismönnum sem áður greinir, er eina stofnun sambandsins sem lagt getur fram lagafrumvörp en efni þeirra eru m.a. væntanlegar tilskipanir. Evrópuþingið svonefnda hefur aðeins umsagnarrétt um slík frumvörp, þarf að vísu að samþykkja fjárlög og getur beitt stöðvunarvaldi í vissum tilvikum. Frumvörpin þurfa síðan samþykki ráðherraráðsins eftir tilteknum reglum um atkvæðavægi, sem getur verið misjafnt eftir málasviðum.
Fjarlægar valdastofnanir ESB í Brussel (framkvæmdastjórnin), Strassburg (þingið) og Lúxemburg (dómstóllinn) ýta undir pólitískt sinnuleysi og gefa lítið sem ekkert færi á lýðræðislegu aðhaldi. Að stofnunum þessum safnast herskarar launaðra lobbyista, einkum á vegum stórfyrirtækja og hagsmunasamtaka.
Evrópusambandinu fylgir samþjöppun valds á sama tíma og almennt er krafan um valddreifingu. Áhugi almennings á störfum þess er að jafnaði sáralítill. Kemur það m.a. fram í lítilli kosningaþáttöku til Evrópuþingsins sem víða er helmingi minni en til þjóðþinga og fer jafnvel niður í 20%. Vegna fjarlægðar er eftirlitsvald af hálfu kjósenda líka hverfandi.
Ógnarlegt skrifræði hefur einkennt margt í starfsemi ESB og hefur orðið einskonar vörumerki sambandsins. Hefur það síst minnkað eftir því sem aðildarríkjum fjölgar.
Þá er ótalin sú uppskera af starfi ESB að markaðurinn hefur þrengt sér æ meira mæli inn á svið opinberrar þjónustu.
Skert forræði yfir auðlindum
Við blasir að forræði aðildarríkja ESB yfir náttúruauðlindum tapast eða er stefnt í tvísýnu með aðild þeirra að sambandinu.
Þannig myndu Íslendingar missa úrslitavald yfir sjávarauðlindum sínum og forræði þeirra færast undir ákvörðunarvald (exclusive competence) ESB. Hætt er jafnframt við að misheppnuð fiskveiðistjórn ESB, sem einkennst hefur af ofveiði og margháttaðri óreiðu, yfirfærist á Ísland.
Með aðild að ESB félli brott réttur Íslands til að gera samninga við ríki utan ESB og við ESB sjálft, t.d. um nýtingu flökkufiskistofna sem eru um 30% verðmætis fiskafla upp úr sjó hérlendis (m.a. loðna, norsk-íslenska síldin, kolmunni, grálúða, úthafskarfi).
Við hlýnun sjávar bætast við fleiri tegundir, nú síðast makríll, sem Íslendingar gera tilkall til, en með ESB-aðild félli brott réttur Íslands til samninga um nýtingu slíkra stofna.
Ráð yfir öðrum náttúruauðlindum, m.a. jarðvarma og fallorku, yrði stefnt í óvissu, a.m.k. á landsvæðum í einkaeign.
Þá liggur fyrir að loftslagsmál og aðild að lofstlagssamningum yrðu færð undir forræði ESB.
Ósveigjanleg efnahagsstefna
Efnahagsleg þungamiðja ESB er gamli 6-ríkja kjarni Kola- og stálbandalagsins með þýsk auðfélög í fararbroddi. Efnahagsstefna sambandsins miðast við að styrkja samkeppnisstöðu stórfyrirtækja í hnattvæddum viðskiptum, einkum gagnvart Bandaríkjunum og Japan.
Innan ESB hefur markaðsfrjálshyggja sótt á eins og víðar og einkavæðing þrengt að velferðarþjónustu og jöfnuði.
Efnahags- og myntbandalagið (EMU), með evru sem gjaldmiðil frá árinu 2002 að telja, samanstendur nú af 16 ríkjum með um 325 milljónir íbúa af alls um 500 milljónum í ríkjunum 27. Seðlabanki Evrópu, stofnaður 1998 með aðsetur í Frankfurt, fer með peningamálastefnu Evrusvæðisins og ákveður vaxtastig. Svonefnd Maastricht-skilyrði (samleitniskilyrði), fjögur talsins, skapa rammann um myntsamstarfið og fela í sér eftirfarandi:
- Verðbólga má ekki vera meira en 1,5% yfir meðaltali verðbólgu hjá þeim þremur ESB-ríkjum með lægstu verðbólguna.
- Langtíma-stýrivextir mega ekki vera meira en 2% hærri en að meðaltali í þeim þremur ríkjum þar sem verðlag er stöðugast.
- Halli á rekstri ríkissjóðs má ekki vera meiri en 3% af vergri landsframleiðslu og heildarskuldir hins opinbera mega ekki vera yfir 60% af vergri landsframleiðslu.
- Aðild að gengissamstarfi Evrópu (Exchange Rate Mechanism, ERM II) í a.m.k. tvö ár án gengisfellingar og gengi gjaldmiðils hafi haldist innan ákveðinna vikmarka.
Þessi skilyrði setja evru-ríkjunum stífan ramma sem þau eru bundin af og getur hann leitt til alvarlegra erfiðleika í efnahagsstjórn bæði á krepputímum eins og nú ganga yfir og þess utan. Dæmi: Írland.
Ísland er mjög langt frá því að uppfylla ofangreind skilyrði og upptaka evru væri því ekki í sjónmáli, þótt landið væri orðið aðili að ESB.
Hagsveiflur eru ólíkar á Íslandi og í ESB og oft á allt öðrum tíma. Evru-binding, án möguleika á gengisaðlögun, gæti þannig leitt til langvarandi efnahagserfiðleika hérlendis.
Viðvarandi og mikið atvinnuleysi
Atvinnuleysistig hefur verið hátt innan Evrópusambandsins sögulega séð, þó misjafnt eftir löndum. Um skeið tókst að ná því niður í 6-7% að meðaltali en síðustu tvö árin hefur það vaxið til muna og er nú að meðaltali 8% í aðildarríkjunum.
Verst er ástandið á Spáni með 15.5% atvinnuleysi (mars 2009), í Lettlandi og Litáen um og yfir 14% og á Írlandi 10%. Í Þýskalandi er atvinnuleysi nú 8,6%, tvöfalt meira í landinu austanverðu en í vesturhlutanum.
Alvarlegast er atvinnuleysið hjá ungu fólki á aldrinum 15–24 ára og nemur nú að meðaltali 17,5% á öllu ESB-svæðinu. Verst er ástandið hjá þessum aldurshópi á Spáni um 32%, í Svíþjóð 24% og í Ungverjalandi 22% svo dæmi séu nefnd.
Víða á landsbyggð innan ESB er atvinnuleysi langt yfir landsmeðaltali, og almennt er staða landsbyggðar og jaðarsvæða veik og hömlur lagðar á stuðningsaðgerðir.
Landbúnaður á jaðarsvæðum hefur víðast hvar átt mjög í vök að verjast, þrátt fyrir niðurgreiðslur til bænda. Það er mat hagsmunasamtaka bænda hérlendis að aðild að ESB færi langt með að kippa grundvelli undan hefðbundnum íslenskum landbúnaði. Við það bætist augljós og aukin hætta af dýrasjúkdómum.
Umhverfivernd víkjandi
Þótt margt jákvætt hafi gerst á sviði umhverfismála innan Evrópusambandsins og undir merkjum Umhverfisstofnunar Evrópu sem Ísland er aðili að, gildir um ESB það sama og í öðrum iðnvæddum ríkjum að umhverfissjónarmið og náttúruvernd eiga undir högg að sækja. Samkeppnissjónarmið og vaxtarhagfræðin með óheftu streymi vöru og fjármagns hafa yfirhöndina og styðjast við sterka stöðu í tilskipunum ESB. Þar við bætast beint og óbeint reglur Alþjóða viðskiptastofnunarinnar (WTO) þar sem umhverfisvernd er víkjandi.
Við undirbúning að innri markaðinum um 1990 kom skýrt fram í „Taskforce-skýrslu“ framkvæmdastjórnar ESB að markmið innri markarins samræmdust illa hugmyndum um sjálfbæra þróun, m.a. myndi flutningsstarfsemi innan ESB-svæðisins aukast um 30–50%.
Undanfarið hefur flug milli ESB-landa aukist gífurlega og fylgja því margháttuð umhverfisvandamál.
Síðasta heildarúttekt Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA) frá árinu 2005 ber vott um að þrátt fyrir jákvæðan árangur á ýmsum sviðum eru vistfræðileg fótspor ESB (ecological footprints) margföld umfram það sem sjálfbært getur talist.
Bæði orkunotkun og losun gróðurhúsalofts hefur fram að þessu farið vaxandi á ESB-svæðinu og eiga ríkin og sambandið í heild í erfiðleikum við að ná settum markmiðum í loftslagsmálum.
Dómstóll ESB hefur í úrskurðum sínum orðið til þess að veikja enn frekar svonefnda umhverfistryggingu (grein 101 A), sbr. PCB-dóminn frá árinu 1994.
Nýjar reglur á umhverfissviði eru ýmist háðar auknum meirihluta aðildarríkja ESB eða samþykki þeirra allra. Þannig geta einstök ríki og ríkjahópar komið í veg fyrir réttarbætur í þágu umhverfisins.
Afdrifaríkt í samhengi umhverfismála er að aðildarríki ESB eru svipt samningsumboði á umhverfissviði og í samningum við ríki utan sambandsins. Hefur þetta veikt framsækin öfl og dregið úr árangri í þágu umhverfisverndar innan þess. Svipað á við á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þar sem ESB talar oftast fyrir öll aðildarríki sín.
Þróun umhverfisréttar hefur almennt náð bestri fótfestu í skjóli frumkvæðis Sameinuðu þjóðanna, sbr. Ríó-ráðstefnuna, og í svæðisbundinni samvinnu ríkja, svo sem í Norðurlandaráði og Norðurheimsskautsráðinu og á vettvangi Árósasamningsins sem Ísland er loks að verða aðili að.
Félags- og jafnréttismál
Innan ESB hefur opinber þjónusta átt undir högg að sækja og það sama á við um
samningsstöðu launafólks, m.a. tengt ákvæðum fjórfrelsisins svonefnda og viðvarandi atvinnuleysi.
Launamunur hefur farið stigvaxandi og þeim fjölgað til muna sem lokast af í fátæktargildrum.
Einstök fátækari ESB-ríki hafa vissulega notið góðs af styrkjakerfi sambandsins sem ríkari aðildarlöndin standa undir fjárhagslega, en með stækkun sambandsins hefur dregið úr þeim ávinningum og þeir minnkað hlutfallslega.
Heilbrigðisþjónusta hefur verið gefin “frjáls” þvert á landamæri skv. úrskurðum ESB dómstólsins, og leiðir það til mikils stjórnunarvanda á heilbrigðissviði í ríkjum sambandsins.
Láglaunastefna sækir nú á með undirboðum milli landa, m.a. í skjóli þjónustutilskipunar ESB, og fylgja því rýrð réttindi og kjör launafólks.
Erlend fyrirtæki og undirverktakar þeirra geta nú greitt laun eins og í heimalandi væri, þvert á kjarasamninga viðkomandi ríkis þar sem starfsemin fer fram (Laval-málið).
Vinnuréttur er nú orðinn hluti af ESB-rétti fyrir tilstilli dómstóls ESB, en áður var staðhæft að slíkt kæmi ekki til álita (Vaxholm-dómurinn frá 22. des. 2007 og Viking Line-dómurinn frá 5. jan. 2008)
..........
Í þessari samantekt hefur verið fjallað um mörg atriði sem hafa þarf í huga þegar fjallað er um Evrópusambandið þegar lagt er mat á starfsemi þess. Öðru fremur hefur hér verið bent á það sem neikvætt er að margra hyggju eða varhugavert út frá íslenskum sjónarhóli en það eru einmitt slík atriði sem skoða þarf vandlega þegar íslenskir hagsmunir eru annarsvegar og þróun samskipta við þennan volduga granna. Hver sem framvindan verður er það eftir sem áður sjálfsagt markmið af Íslands hálfu að eiga góð samskipti við Evrópusambandið og einstök aðildarríki þess, bæði á efnahags- og menningarsviði sem og í umhverfis- og félagsmálum.
Hjörleifur Guttormsson |