Hjörleifur Guttormsson | 19. febrúar 2009 |
Gjaldþrota stóriðjustefna Birtist sem grein í Morgunblaðinu 19. febrúar Erlend stóriðja hérlendis hefur verið afar umdeild allt frá því að samningar um álbræðslu í Staumsvík voru í undirbúningi fyrir hartnær hálfri öld. Af andstæðingum þeirra samninga var dregið í efa að þjóðhagslegur hagnaður af álbræðslunni væri sá sem látið var í veðri vaka, teflt væri á tvær hættur um orkuverð og ekki gert ráð fyrir mengunarvörnum í verksmiðjunni. Viðreisnarstjórnin svonefnda hafði þó sitt fram og Alusuisse hóf rekstur dótturfélagsins ÍSALs sem enn starfar með breyttu eignarhaldi. Um 1980 komu í ljós stórfelldir meinbugir á rekstri fyrirtækisins vegna bókhaldsfalsana og skattaundandráttar. Fékk svikamyllan heitið „hækkun í hafi“. Jafnframt blasti við að raforkuverð til álbræðslunnar stóð ekki undir framleiðslukostnaði og að óbreyttu legðist mismunurinn af vaxandi þunga á almenna raforkunotendur innanlands. Auðhringurinn sá sitt óvænna, féllst á endurskoðun samninga og tvöföldun á raforkuverði sem bjargaði hag Landsvirkjunar þá um sinn. Bundið fyrir bæði augu Afhjúpun svikamyllunnar í Straumsvík dugði skammt og íslensk stjórnvöld kinokuðu sér við að fara í saumana á efnahagslegum áhrifum erlendu stóriðjustefnunnar. Einn ráðherrann af öðrum gerðist talsmaður fyrir álbræðslur sem notaðar voru sem pólitísk skiptimynt og fóru stækkandi stig af stigi með tilheyrandi kröfum um stórvirkjanir og línulagnir þvers og kruss um landið. Virkjanaiðnaðurinn hérlendis varð brátt ígildi hernaðariðnaðar í stærri löndum og hjúpaður leynd þar sem orkuverðið var lýst ríkisleyndarmál og herkostnaðurinn af náttúruspjöllum í engu metinn. Undir merki Atlantsáls var reynt að koma fótum undir 210 þúsund tonna álbræðslu á Keilisnesi. Frægt varð margendurtekið slagorð ráðherrans sem á árunum 1988–1992 barðist harðast fyrir því máli: „Eitt tonn af áli frá álbræðslu hér á landi skilar álíka miklu í þjóðarbúið og eitt tonn af þorski upp úr sjó.” Þegar ég lét fara ofan í saumana á þessum vísindum reyndust ósannindin margföld, en á eftir fylgdu á ráðherrastóli ótrauðir merkisberar fyrir Norðurál og Fjarðaál og skemmst er að minnast gjafasamnings síðustu ríkisstjórnar vegna álbræðslu í Helguvík. „Sitjum uppi með tapað spil“ Eftir að Kárahnjúkavirkjun og Fjarðaál komust á dagskrá hafa nokkrir hagfræðingar grafist fyrir um afkomu þessarar stærstu stóriðjuframkvæmdar hérlendis. Framan af beindust athuganir þeirra einkum að raforkusamningi Landsvirkjunar og Alcoa en nú hefur Indriði H. Þorláksson fv. ríkisskattstjóri litið yfir dæmið í heild, þ.e. efnahagslegt framlag allra þátta og birt niðurstöður sínar. Óhætt er að fullyrða að enginn hafi viðlíka forsendur og Indriði til að gera þetta dæmi upp þrátt fyrir leyndina yfir orkuverðinu. Niðurstöðurnar eru sláandi:
Sáralítill efnahagslegur ávinningur Vel rökstuddar umsagnir Indriða um einstaka þætti í stóriðjudæminu ættu að vera skyldulesning jafnt fyrir fræðimenn og embætttismenn sem um þessi mál véla, að ekki sé talað um starfandi stjórnmálamenn og frambjóðendur í komandi alþingiskosningum. Hér er aðeins rúm til að tæpa á fáeinum atriðum. Með því að lesa í ársreikninga starfandi álvera hérlendis kemst Indriði að því að virðisauki af starfsemi þeirra sé ekki mikill og líkur séu á að arður af orkulindinni, auðlindarentan, renni nær óskipt til orkukaupendanna, þ.e. stóriðjuveranna. Þá sé virðisauki vegna launa í álverunum ekki viðbót við hagkerfið heldur komi í stað launa fyrir störf sem ella hefðu orðið til.
Ísland í hlutverki nýlendu Þegar litið er yfir hvernig íslenskir stjórnmálamenn á stóriðjuvængnum hafa hagað sér síðustu tvo áratugi kemur hugtakið nýlenda ósjálfrátt upp í hugann, svo lágt er lagst í að greiða götu erlendra fjármagnseigenda. Þannig hafa skattgreiðslur stóriðjufyrirtækja hérlendis verið lækkaðar um helming frá 1995 að telja og bera þau nú lægri skatta en þekkist í nokkru öðru þróuðu ríki. Jafnframt hefur íslenska ríkið afsalað sér rétti til að hækka tekjuskatt á stóriðjufyrirtækin sem lögaðila umfram ákveðna lága prósentu og mun það vera einsdæmi á Vesturlöndum. „Lægsta orkuverð“ og „lægstu skattar“ eru verðmiðarnir sem hengdir hafa verið á Ísland til viðbótar við náttúruspjöll sem engin mælistika nær yfir. Hjörleifur Guttormsson |