Hjörleifur Guttormsson 20. janúar 2009

Norður-Íshafið, olíuvinnsla og Drekasvæðið

Stærsta ógn sem mannkynið stendur frammi fyrir tengist loftslagsbreytingum í kjölfar sívaxandi framleiðslu af jarðefnaeldsneyti, olíu, jarðgasi og kolum. Hér vegast á andstæð og ósamrýmanleg markmið sem reyna munu á alþjóðasamfélagið meira en flest annað á næstunni, reiknað í árum og áratugum. Alþjóðaorkumálastofnunin (IEA) gerir ráð fyrir allt að 50% aukningu í orkunotkun fram til árins 2030 og að langmestur hluti hennar verði að koma frá kolefnisríkum jarðefnum með tilheyrandi gróðurhúsaáhrifum. Á sama tíma hafa mörg iðnríki, þar á meðal Evrópusambandið, sett sér það markmið að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 20% fram til ársins 2020 og um 50% eða meira um miðja þessa öld. Er það talið forsenda þess að stöðva hlýnun andrúmsloftsins við 2°C hækkun meðalhita.  Fáir hafa trú á að með því sé nóg að gert eins og nú horfir um stigvaxandi hlýnun að mati þorra loftslagsfræðinga. Mjög er nú horft til Norður-Íshafsins í þessu samhengi en olíuvinnsla þar getur skilið á milli feigs og ófeigs.
           
Banvænt samhengi

Hafísbreiður á Norður-Íshafi minnka nú ár frá ári vegna hlýnunar og áætlar Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna að heimsskautsísinn verði með sama áframhaldi horfinn árið 2040. Brotthvarf íssins sem nú endurkastar sólgeislun veldur hraðari hlýnun en ella og aukningin mælist nú meiri á norðurslóðum en sunnar á hnettinum. Við hlýnun losnar metangas (mýragas) úr jarðlögum þar sem áður var sífreri en það er 20 sinnum virkari gróðurhúsalofttegund en koldíoxíð. Af því er gífurlegt magn nú bundið í freðmýrum og hafsbotnslögum. Losun á metangasi fylgir enn aukin hlýnun og þannig stigmögnun sem veldur því að enn meira berst af metan í andrúmsloftið. Með hlýnun hafsins á norðurslóðum tekur metan líka að losna úr jarðlögum undir hafsbotni, eins og sýnt var fram á við rannsóknir norðan Síberíu sl. haust.

Yfir fimmtungur olíuforðans í Norður-Íshafi

Bandaríska jarðvísindastofnunin áætlar að 22% af óþekktum olíu- og gaslindum sé fólgið á norðurskautssvæðinu og með bráðnun íbreiðunnar þar geta þær orðið aðgengilegar til nýtingar. Ríkin sem telja sig eiga rétt á þessu stóra svæði samkvæmt hafréttarsáttmálanum eru öll í startholunum að undirbúa og hefja þar olíuvinnslu. Um er að ræða Bandaríkin, Kanada, Rússland, Noreg og Danmörku, það síðastnefnda með yfirráðum sínum yfir Grænlandi. Þar með er jafnframt Evrópusambandið með í leiknum, en framkvæmdastjórn þess segir sambandið þess fýsandi að hefja olíuvinnslu í Íshafinu. Ísland hefur nú slegist í þennan hóp ef marka má orð Össurar iðnaðarráðherra sem sagði m.a. er hann mælti á Alþingi 21. nóvember sl. fyrir lagafrumvarpi um svonefnda kolvetnastarfsemi: „Það er eðlilegt að menn hafi væntingar til þess [þ.e. vinnslu olíu og gass]. Um töluvert langt skeið hafa vísbendingar gefið til kynna að á þessu svæði, og reyndar á svæði sem teygir sig áfram inn í norsku lögsöguna Jan Mayen megin, að í jarðlögum töluvert djúpt undir hafsbotni kunni að vera að finna verulegt magn af kolvetnisauðlindum, bæði olíu og gasi.“

Stefnir hraðfara í óefni

Hvað sem hugsanlegum olíugróða líður hljótum við að spyrja hvort rétt sé að Íslendingar sláist með í þessa feigðarför. Áframhaldandi aukning í notkun jarðefnaorkugjafa leiðir af sér óbærilega hlýnun á jörðinni með þeirri geigvænlegu röskun sem henni fylgir fyrir lífríki jarðar, veður, hafstrauma og sjávarborð. Viðfangsefnið ætti því að vera að takmarka með öllum tiltækum ráðum vaxandi notkun jarðefnaeldsneytis sem orkugjafa og draga úr henni stig af stigi til að koma böndum á loftslagsbreytingarnar. Alveg sérstaklega á þetta við norðurheimsskautssvæðið sem hefur að mestu sloppið við olíuvinnslu hingað til. Í þessum efnum má engan tíma missa. Ætli heimsskautsríkin
fimm sér í alvöru að minnka losun gróðurhúsalofts um fimmtung fram til 2020 þurfa þau að draga mikið úr notkun á olíu, kolum og gasi. Skilvirkasta einstaka leiðin að því marki er að láta óhreyfðar þær kolvetnalindir sem kann að vera að finna á norðurslóðum.

Ísland og verndun norðurslóða

Ég hef ekki orðið var við neitt frumkvæði undanfarið af Íslands hálfu til að stemma stigu við háskalegri hlýnun á norðurslóðum. Fáir eiga þó jafn mikið undir að ekki hefjist kapphlaupið sem þar stefnir í með olíu- og gasvinnslu. Því ber að setja stórt spurningarmerki við þau áform sem iðnaðarráðherra og Samfylkingin nú boða um olíuvinnslu á Drekasvæðinu ef kolvetnaleit ber þar árangur. Framtíðarhagsmunir okkar sem þjóðar felast í verndun norðurslóða fyrir mengun og að hlýnun fari þar ekki úr böndunum. Því ætti Ísland að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að öll áform um olíu- og gasvinnslu í Norður-Íshafi verði stöðvuð og alþjóðlegt samkomulag verði gert um verndun þessa svæðis í líkingu við það sem í gildi er umhverfis suðurheimsskautið.

 



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim