Hjörleifur Guttormsson 20. mars 2009

Stöndum sameinuð gegn aðild að ESB
Ávarp á landsfundi VG

Góðir landsfundarfulltrúar.
Við sem stofnuðum þennan flokk fyrir 10 árum getum litið stolt um öxl. Ávinningarnir eru langtum meiri en virðast kann við fyrstu sýn.

Hver væri staðan í mikilvægustu þjóðmálum án tilkomu og sterkrar stöðu VG? Það gildir um umhverfismálin, um jafnrétti og stöðu kvenna í stjórnmálum, um skilning á sjálfbærri þróun og um sýn til alþjóðamála langt út fyrir múra Evrópusambandsins.

Hver væri viðspyrnan nú eftir hrunið ef enginn stjórnmálaflokkur hefði staðið vaktina, varað við og vísað á aðrar leiðir?

Ánægðust getum við verið með þær undirtektir sem Vinstri grænir hafa fengið meðal æskufólks, kynslóðanna sem eiga eftir að takast á við vandamálin sem hrannast upp og kalla á ný tök og gerbreytta stefnu, ekki bara hérlendis heldur á heimsvísu.

Skýr stefna um meginatriði er það sem skilað hefur flokki okkar í þá stöðu sem hann nú hefur meðal þjóðarinnar. Vegna stefnufestu og einingar höfum við notið sérstöðu á sama tíma og hrunadansinn hefur dunað hjá öðrum stjórnmálaflokkum.

Baráttan fyrir umhverfisvernd á öllum sviðum hefur skipt sköpum fyrir gengi okkar Vinstri grænna. Þar höfum við notið óskoraðrar sérstöðu vegna skammsýni og fálætis annarra stjórnmálaafla. Því miður eru ekki horfur í bráð á virkri samkeppni frá öðrum um þá varðstöðu.

Skemmst er að minnast veifunnar um Fagra Ísland sem Samfylkingin dró upp fyrir síðustu kosningar en liggur nú gleymd og grafin í Helguvík.

Í umhverfinu kristallast sá yfirþyrmandi vandi sem nú blasir við mannkyni öllu með loftslagsbreytingum og þverrandi auðlindum til sjós og lands. Ekkert heimshorn er þar undanskilið.
 
Með hverju ári sem líður án þess brugðist sé við þessum vanda verður brimgarðurinn óárennilegri sem í framtíðinni  mun brotna á þeim sem nú eru ungir. Umhverfismálunum í allri sinni breidd gerði flokkur okkar góð skil í aðdraganda kosninga fyrir tveimur árum í ritinu Græn framtíð. Stefnan sem þar er mörkuð á enn brýnna erindi við þjóðina nú en áður í harðnandi efnahagsumhverfi.

Alþjóðamálin og samskiptin út á við minna á sig nú sem fyrr. Þar skiptir öllu fyrir smáþjóð sem okkar að standa fast á sínu og rækta sem best samskipti til allra átta. Ísland er á krossgötum milli austurs og vesturs og ef fer sem horfir bætist við norðlæga víddin, Norðurheimsskautssvæðið, með aukinni umferð og ásælni í auðlindir Íshafsins.

Ísland á ekki að láta loka sig af sem jaðarsvæði í evrópsku stórríki. Ofurkapp Samfylkingarinnar á að koma Íslandi í Evrópusambandið er ekki aðeins skammsýnt heldur hættulegt framtíðarhagsmunum þjóðarinnar.

Fátt skiptir meira máli en að við Vinstri græn stöndum fast á markaðri stefnu gegn inngöngu í ESB, ekki bara við núverandi aðstæður heldur svo langt sem séð verður, og hviki  hvergi frá stefnu sinni gegn aðild í áframhaldandi stjórnarsamstarfi eftir kosningar.

Samfylkingin á enga kröfu á okkur í þessu máli og verður að gera upp við sig hvort hún vill halla sér til hægri eftir kosningar í von um betri viðtökur við þá allrameinabót sína að koma Íslandi inn í Evrópusambandið.

Ég tel reyndar engar líkur á að Samfylkingin sjái sér pólitískt fært að leita til hægri eftir kosningar ef núverandi stjórnarflokkar fá þingmeirihluta í kosningum.

Góðir félagar.
Næstu vikur verða afdrifaríkar. Verkefni okkar er að gera kjósendum sem ljósast hvert við viljum stefna, hverjar eru okkar lausnir í yfirstandandi kreppu og til lengri tíma litið.

Margir spyrja sig á næstu vikum, hvers vegna á ég að kjósa Vinstri græn fremur en önnur framboð? Svarið veltur á skýrri stefnu og á því að sérstöðu flokks okkar sé haldið til haga.

Frambjóðendum okkar um allt land fylgja góðar óskir.

Göngum sameinuð til sóknar fyrir góðan málstað.

 



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim