Hjörleifur Guttormsson 20. október 2009

Efnahagskerfi á leið í gamla farið

Rösklega ár er liðið frá því yfir heimsbyggðina reið mesta kreppa frá stríðslokum með gífurlegri eyðingu fjármuna og framleiðslugetu, samdrætti í viðskiptum og atvinnuleysi um 60 milljóna manna. Hérlendis hefur mest farið fyrir umræðu um áhrifin á íslenskt efnahagslíf í kjölfar bankahrunsins og stjórnvöld verið upptekin af glímunni við afleiðingar Icesafe-hneykslisins. Erlendis hefur mikið verið rætt um alþjóðleg viðbrögð við kreppunni og hvaða lærdóma fjármálaheimurinn og ráðamenn hyggist draga af hamförunum. Virtir fjölmiðlar eins og Der Spiegel og The Economist vara sterklega við andvaraleysi og að í mörgu stefni nú í sama farið í fjármálaheiminum. Fundur leiðtoga G-20 ríkjanna í Pittsburgh í síðasta mánuði gaf engin skýr skilaboð um framhaldið en mörg orð féllu þar um ábyrgð og áherslu á „sjálfbæran hagvöxt, jafnvægi og stöðugleika“. Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var heitið fjármunum til viðbragða og lofað að auka hlut þróunarríkja og fámennari landa í stjórn sjóðsins. Lagst var ákveðið gegn hvers konar verndaraðgerðum og hugmyndir um Tobin-skatt á fjármagnsflutninga fengu ekki undirtektir. Leiðtogarnir hyggjast beita sér fyrir að Doha-viðræðum á vegum Alþjóðaviðkiptastofnunarinnar (WTO) verði lokið á árinu 2010. Tveir hliðstæðir fundir G-20 ríkja voru ákveðnir á næsta ári, í júní og nóvember.

Seilst djúpt í almannasjóði

Mörg orð hafa fallið um að nýfrjálshyggjan og hugmyndir um óheftan markaðsbúskap hafi fengið rothögg strax við upphaf kreppunnar. Segja má að fyrri leiðarvísum úr þeim herbúðum hafi verið snúið á haus með því að ausa almannafé úr ríkissjóðum margra landa til að forða hruni banka, stöðvun viðskipta og gjaldþroti stórfyrirtækja, m.a. í bílaiðnaði. Þar var rösklegast gengið fram í háborgum kapítalismans með Bandaríkin í fararbroddi, en þau voru þá enn undir forystu Bush. Með 800 milljarða pakkanum juku Bandaríkin á risavaxna skuldsetningu sína og fjárlagahalla. Síðar bættu raunar Kínverjar um betur með ákvörðun um gífurlegar opinberar fjárfestingar til framkvæmda. G-20 fundurinn í Pittsburgh þakkaði það opinberum inngripum í markaðinn að ekki fór verr, en lagði jafnframt áherslu á að drifkrafturinn upp úr kreppunni yrði framvegis að koma frá einkageiranum sem taka yrði upp aðra og betri siði. Ekki komu leiðtogarnir sér þó saman um neinar bindandi reglur þar að lútandi.

Flestir fljótir að gleyma

Nú er að sjá sem margir telji að heimurinn hafi sloppið með skrekkinn og kreppan sé liðin hjá, a.m.k. sé það versta löngu afstaðið. Bent er á að jákvæð teikn séu um vöxt í iðnaði og mörg stórfyrirtæki séu farin að skila hagnaði á ný, þar á meðal fjármálastofnanir. Þvert ofan í orð stjórnmálamanna að slá verði á græðgi og hömlulausa sjálftöku greinir Wall Street Journal frá því að starfsmenn fjárfestingabanka vestra megi eiga von á metári í bónus- og aukagreiðslum sem hjá 23 stærstu fjármálastofnunum Bandaríkjanna muni fara fram úr því sem gerðist á árinu 2007 um 10 milljarða dollara. Í hlut eiga þar m.a. bankar sem tekið hafa á móti ríkisframlögum. Í Þýskalandi og víðar heimta nú háttsettir bankamenn til baka bónusgreiðslur og  í Bretlandi hafa  dómsúrskurðir þar að lútandi fallið bankastarfsmönnum í vil. Margt bendir þannig til að í fjármálaheiminum sé flest að falla í sama far og fyrir kreppuna. Undir þetta tók Dominique Strauss-Kahn forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nýlega í viðtali við Der Spiegel (nr. 38): „Í höfði of margra – ekki aðeins hjá almennum borgurum, heldur líka hjá topp-pólitíkusum – er kreppan liðin hjá.“ Þennan hugsunarhátt sagði hann hættulegan. Efnahagskreppan haldi áfram, þrátt fyrir batamerki, atvinnuleysi muni áfram fara vaxandi og framundan sé félagsleg kreppa sem sé langt frá því að hafa náð hámarki.

Ósjálfbært efnahagskerfi

Ítrekað hefur komið fram að erlendir stjórnmálamenn og talsmenn atvinnulífs binda vonir um lyktir kreppunnar við að kaupgleði almennings og vilji til eyðslu fari vaxandi á ný. Það sé helsta ráðið til að örva framleiðslu og eftirspurn og vinna um leið gegn atvinnuleysi. Dregið hefur síðasta árið verulega úr rómaðri kaupgleði Bandaríkjamanna sem lengst af hefur verið drifin áfram af lánum á  afar lágum vöxtum. Breytt hegðun hvað þetta varðar ætti þó að teljast til dyggða, en ráðvendni hjá almenningi í fjármálum rímar ekki við þarfir kerfisins. Minni efnisleg neysla er í hátíðarræðum á umhverfisvettvangi talin eitt helsta ráðið til að draga úr álagi á umhverfið, ekki síst losun gróðurhúsalofttegunda sem ríki heims viðurkenna nú sem eitt stærsta vandamál sem við sé að fást. G-20 fundurinn í Pittsburgh lagði reyndar áherslu á að samkomulag yrði að nást um nýjan loftslagssamning í desember næstkomandi. Fátt sýnir skýrar fáránleika og innri mótsagnir þess efnahagskerfis sem heimurinn býr nú við en að til að það skrimti þurfi að auka til muna þá sóun og sólund sem viðgengist hefur í ríkum samfélögum.  



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim