Hjörleifur Guttormsson 22. desember 2009

Baráttan gegn loftslagsbreytingum
 – samnefnara vantar –

COP-15, ráðstefna aðildarríkja loftslagssamnings SÞ í Kaupmannahöfn 7.–19. desember 2009, skilaði ekki því sem vonir margra stóðu til, þ.e. bindandi samkomulagi um samdrátt í mengun af gróðurhúsalofti eftir að Kyótó-bókunin rennur út 2012. Þess í stað sendi ráðstefnan frá sér „óformlegt samkomulag“ aðildarríkjanna (Copenhagen Accord) sem prjónað var saman á elleftu stundu af leiðtogum nokkurra af fjölmennustu ríkjum heims: Bandaríkjunum, Kína, Indlandi, Brasilíu og Suður-Afríku, og afgreitt var mótmælalaust á framlengdum lokafundi ráðstefnunnar 19. desember. Innihaldið var langt frá kröfum og væntingum margra fyrir ráðstefnuna, en samt langtum skárra en ekkert.
 
Samkomulagið frá Kaupmannahöfn

Í Kaupmannahafnar-samkomulaginu er m.a. kveðið á um eftirfarandi:

 • Fallist er á þá vísindalegu skoðun að meðalhiti á jörðinni megi ekki hækka um  2°C miðað við það sem var fyrir iðnbyltingu.
 • Samþykkt að í ljósi vísinda þurfi að koma til mikill niðurskurður í losun gróðurhúsalofts á heimsvísu.
 • Samþykkt að koma í veg fyrir hækkun í losun gróðurhúsalofts á heimsvísu og innan þjóðríkja eins fljótt og kostur er.
 • Rík lönd muni fyrir árslok 2010 lýsa yfir losunartakmörkunum miðað við árið 2020.
 • Rík lönd sem eru aðilar að Kyótó-bókuninni muni herða á fyrirliggjandi markmiðum.
 • Þróunarríkin að Kína meðtöldu vænta sameiginlegs niðurskurðar ríkra þjóða um a.m.k. 40% árið 2020 miðað við grunnárið 1990.
 • Þróunarríki muni framkvæma aðgerðir til lækkunar (mitigation actions) á losun til að draga úr gróðurhúsalofti og greina frá þeim fyrir árslok 2010 og síðan á tveggja ára fresti til loftslagsskrifstofu Sameinuðu þjóðanna.
 • Skrá verði haldin yfir aðgerðir í þróunarríkjum sem fjármagnaðar verða af ríkum þjóðum.
 • Stofnaður verði Grænn loftslagssjóður kenndur við Kaupmannahöfn.
 • Samþykkt sem markmið á heimsvísu að safnað verði 100 milljörðum Bandaríkjadala árlega frá og með árinu 2020 til að aðstoða þróunarríki við að verjast loftslagsbreytingum.
 • Þróuð ríki safni í sjóð í sama skyni 30 milljörðum Bandaríkjadala frá 2010 til 2012.
 • Verulegur hluti af fjármagni þessara sjóða fari gegnum Græna loftslagssjóðinn sem styðji áform um að draga úr eyðingu skóga, aðlögun að loftslagsbreytingum og þróun og aðgang að hreinum tæknilausnum.
 • Viðurkennd er grundvallarþýðing þess að draga úr losun vegna skógaeyðingar og að safna þurfi í sjóði í því skyni og tryggja aðild frumbyggja að slíkum aðgerðum.

 

Framhald funda á árinu 2010

Eins og lesa má úr ofangreindu felast engar lagalegar skuldbindingar í ofangreindu samkomulagi og þar er ekki tekin afstaða til þess hvað taka skuli við af Kyótó-bókuninni eftir árið 2012. Skiptar skoðanir eru m.a. um hvort um einn samning eigi að vera að ræða eða fleiri. Þróunarríkin vilja einn samning þar sem aðeins iðnríkin taki á sig skuldbindandi samdrátt eins og verið hefur í Kyótó-bókuninni. Kína hefur að lokinni ráðstefnunni í Kaupmannahöfn verið legið sérstaklega á hálsi fyrir að fallast ekki á bindandi takmarkanir og vilja ekki að tiltekin væru stefnumið um samdrátt til lengri tíma, þ.e. árið 2050. En Bandaríkjaforseti kom heldur ekki með neitt örvandi framlag til ráðstefnunnar og áfram ríkir óvissa um afstöðu Bandaríkjaþings til takmarkana á losun. Eins og menn væntanlega munu sögðu Bandaríkin undir forystu Bush sig formlega frá aðild að Kyótó-bókuninni.
            Þrátt fyrir rýra formlega uppskeru í Kaupmannahöfn er þó á það að líta að frá og með COP-15 hafa öll aðildarríki loftslagssamningsins tekið undir þörfina á viðbrögðum við vaxandi mengun með vísan í álit  IPCC-vísindanefndarinnar. Ekkert þessara ríkja hefur heldur sagt sig frá frekara samningaferli og heldur það því áfram á grundvelli loftslagssamningsins. Næsta ráðstefna, COP-16, sem væntanlega verður haldin í Mexíkó í nóvember 2010, fær eflaust það verkefni að skilgreina framhaldið og leitast við að ná saman um skuldbindandi samdrátt. Fyrir þann fund er m.a. gert ráð fyrir ráðstefnu í Bonn næsta sumar.

Samnefnarinn sem vantar

Á meðan ekki er fundinn alþjóðafarvegur fyrir róttækan samdrátt í losun gróðurhúsalofts getur ekkert ríki og enginn leiðtogi hrósað sigri. Enginn má sköpum renna, stendur í gömlum texta. Mannkynið stendur frammi fyrir alvarlegasta vanda sem það hefur kallað yfir sig frá upphafi vega, þ.e. að komast út úr orkubúskap sem byggir á jarðefnaeldsneyti og safnar glóðum að höfði komandi kynslóða. Grunnur þessa vanda er það sóunarsamfélag sem svonefnd rík lönd hafa kallað yfir heimsbyggðina og milljarðar mannfólks sem við fátækt búa reyna af kappi að apa eftir. Sú gildra var hins vegar lítið lítið til umræðu í Kaupmannahöfn og hvernig skipa megi búskaparháttum jarðarbúa þannig að sjálfbært teljist til frambúðar. Óumdeilt er að ríku löndin bera meginábyrgð á núverandi stöðu en þegar upp er staðið eru allir á sama báti. Í grein um þessi efni fyrir mánuði benti ég á að rétturinn til aðgengis að andrúmsloftinu hljóti að teljast mannkyninu sameiginlegur. Því sé vænlegasti samnefnarinn í því átaki sem takast þarf að viðurkenna jafnt aðgengi sem grundvöll  skuldbindinga af hálfu þjóða heims til frambúðar litið. Þá kæmi heimild til losunar miðað við íbúafjölda í hlut hvers þjóðríkis í áföngum innan tiltekins tíma, t.d. fyrir miðja þessa öld. Æskilegt er að fá upplýst, hvort íslensk stjórnvöld muni leggja slíkum sjónarmiðum lið.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim