Kolbrún Halldórsdóttir kom inn á Alþing sem nýliði á vordögum 1999. Hún varð þá þegar áberandi sem talsmaður Vinstri grænna á mörgum sviðum, ekki síst í umhverfis- og kvenfrelsismálum. Jafnt samherjar og andstæðingar hafa síðan með réttu sett samasemmerki milli Kolbrúnar og þeirrar fersku og róttæku stefnu í umhverfismálum sem Vinstri græn hafa frá upphafi staðið fyrir.
Skeleggur málflutningur Kolbrúnar gegn stóriðjustefnu stjórnvalda vakti athygli um allt land. Viðbrögð andstæðinga voru því miður rógur og stóryrði. Gegn hvers kyns einsýni hefur hún hins vegar teflt fram rökum sjálfbærrar þróunar og flutt fjölda þingmála sem byggja á þeirri hugsun.
Fáir þingmenn hafa lagt jafn hart að sér og Kolbrún við að treysta undirstöðurnar í málflutningi VG eins og þær m.a. birtast okkur í ritinu Græn framtíð sem flokkurinn gaf út 2007. Sem fulltrúi í auðlindanefnd á síðasta kjörtímabili skilaði hún frábæru starfi sem VG hefur fylgt eftir í hverju stórmálinu eftir annað, m.a. í deilunum um vatnalög. |