Hjörleifur Guttormsson 26. maí 2009

Loftslagsógnin færist nær

Stöðugt koma fram nýjar vísbendingar þess efnis að mat alþjóðlegu loftslagsnefndarinnar IPCC hafi hingað til verið of varfærið um hlýnun andrúmslofts jarðar og áhrif hennar á umhverfi og aðstæður mannkyns. Nýjast í þeim efnum er grein í tímaritinu Science eftir Stefan Rahmstorf forstöðumann stofnunar í Potsdam um afleiðingar loftslagsbreytinga og breskra samstarfsmanna hans um vendipunkta (tipping points) sem valdið geti viðsnúningi og hröðun þannig að ekki verði aftur snúið. 

Níu afdrifaríkir vendipunktar

Vísindamennirnir sjá fyrir sér níu svið þar sem breytingar geti leyst úr læðingi áður ófyrirséða atburðarás í loftslagi jarðar. Þar er efst á blaði brotthvarf hafíss í Norðurhöfum, bráðnun Grænlandsjökla og hnignun frumskóga Amasónsvæðisins. Þegar sumarísinn í Norður-Íshafi hverfur og dökkur hafflötur kemur í stað hvítrar ísþekju dregur úr endurkasti sólargeisla og hlýnunin eykst og stigmagnast. Margir vísindamenn, þar á meðal James Hansen forstöðumaður Nasa, telja skammt í þennan vendipunkt sem búast megi við þegar hækkun meðalhita verður á bilinu um 0,5–2°C. Þannig gæti sumarís verið horfinn af Norðurskautssvæðinu innan fárra áratuga. Ekki þarf að fjölyrða um þær gífurlegu umhverfisbreytingar sem þessu yrðu samfara hérlendis, ekki síst í hafinu umhverfis Ísland. Um áhrifin á hafstrauma og fiskistofna ríkir fræðileg óvissa en afleiðingarnar gætu orðið afar afdrifaríkar á efnahag og aðrar aðstæður hérlendis. – Hlýnunin á norðurslóðum er þegar farin að valda aukinni losun á metanlofti (mýragasi) úr freðmýrum og við það mun bætast losun á gróðurhúsalofti úr jarðlögum á hafsbotni. Metan er 20-falt öflugri gróðurhúsalofttegund en koldíoxíð og aukning þess hefði í för með sér mikla stigmögnun loftslagsbreytinga. – Bráðnun Grænlandsjökla er þegar hafin í einhverjum mæli en vendipunkti í þeirri þróun gæti verið náð við 3°C hlýnun og endað með eyðingu á jökulhveli Grænlands jafnvel innan 300 ára. Þessu samfara yrði hækkun sjávarborðs um allt að 7 metra.

Alþjóðleg viðbrögð vekja vonir

Efnahagskreppan sem nú setur mark sitt á opinbera umræðu hefur sem betur fer ekki orðið til að stöðva viðleitni að tjaldabaki til að bregðast við loftslagsógninni. Þar eru mestar vonir bundnar við áþreifingar milli kínverskra og bandarískra ráðamanna. Obama forseti virðist staðráðinn í að taka loftslagsmálin heima fyrir föstum tökum og bæta fyrir vanrækslu Bush-stjórnarinnar. Í síðustu viku tilkynnti hann átak til að minnka bensíneyðslu bandaríska bílaflotans um 40% á árunum 2012–2016 og hefur náð að fylkja hagsmunaaðilum að baki þeirri áætlun. Óvissa er þó enn háð andstöðu á Bandaríkjaþingi, einkum í öldungadeildinni. Orkuráðherrann Steven Chu, nóbelsverðlaunahafi í eðlisfræði, hefur þar verk að vinna að sannfæra þingið um áætlunina. Samhliða þessari róttæku stefnubreytingu Bandaríkjastjórnar hafa um skeið farið fram áþreifingar við kínversk stjórnvöld um samkomulag þessara risavelda um samvinnu í loftslagsmálum og að leggja sameiginlega lóð á vogarskál Kaupmannahafnarfundarins í desember. Samanlagt valda Bandaríkin og Kína hartnær helmingi af núverandi losun gróðurhúsalofts í heiminum, hlutur Bandaríkjanna þar fjórfalt meiri en Kína umreiknað á íbúa. Takist slíkt samkomulag hefði það sögulega þýðingu og gæti rutt brautina fyrir alþjóðasátt um umtalsverðan samdrátt á næsta skuldbindingatímabili, 2012-2020, sem tæki við af Kyótóbókuninni.

Ísland úr skammarkróknum?

Hlutur íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum hefur verið til skammar hingað til. Þau urðu sér úti um 10% almenna aukningu fyrir Ísland í Kyótó 1997 þegar önnur þróuð ríki skuldbundu sig fyrir 5% samdrætti miðað við viðmiðunarárið 1990. En ekki nóg með það heldur tókst þeim að herja í viðbót út undanþáguákvæði fyrir stóriðju hérlendis upp á 1,6 milljónir tonna CO2, íslenska ákvæðið svonefnda. Sömu öfl og að þessu stóðu hafa gert sig líkleg til að reyna að endurtaka leikinn, sbr. þingsályktunartillögu sem reynt var að þrýsta í gegn á Alþingi fyrir nýafstaðnar kosningar. – Ný ríkisstjórn hyggst breyta hér til ef marka má samstarfsyfirlýsingu hennar. Þar stendur m.a.: „Ísland standi við loftslagsskuldbindingar sínar og leggi fram metnaðarfulla áætlun í loftslagsmálum fyrir alþjóðlegu loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn í desember 2009.“ Slík áætlun hlýtur að gera ráð fyrir 20-30% samdrætti á næsta losunartímabili án nokkurra sérákvæða því að jafnframt stendur í stjórnarsáttmálanum: „Lokið verði við aðgerðaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda um 50–75% til 2050, með tímasettum og tölulegum markmiðum, eigi síðar en vorið 2010. Í áætluninni verði lögð sérstök áhersla á samdrátt í losun frá samgöngum og fiskiskipum.“
            Allt mannkyn á tilveru sína undir að takast megi að bægja frá loftslagsógninni í tæka tíð með samstilltu átaka. Það gerist ekki án sjálfbærrar þróunar með grundvallarbreytingum á efnahagsstarfsemi heimsins samhliða því sem dregið verði stig af stigi úr nýtingu jarðefnaeldsneytis og sólund annarra náttúruauðlinda.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim