Hjörleifur Guttormsson 27. janúar 2009

Evrópusambandið, Ísland og umhverfismálin

Birtist sem grein í Mogunblaðinu 28. janúar 2009

Það er mikil einföldun þegar umhverfisráðherra og fulltrúi hans í Brussel (sjá Mbl. 9. og 12. janúar sl.) leitast við að gylla Evrópusambandið sem sérstakt forystuafl í umhverfismálum. Framganga ESB á þessu sviði er misjöfn eftir því hvar borið er niður og efnahagsstefna sambandsins vinnur gegn markmiðinu um sjálfbæra þróun. Samanburðurinn við stöðu umhverfismála hérlendis segir fyrst og fremst sína sögu um tregðu og skammsýni íslenskra stjórnvalda í umhverfismálum um langa hríð. Baráttan fyrir umhverfisvernd á sér fremur rætur í starfsemi Sameinuðu þjóðanna og baráttu umhverfissamtaka víða um heim en innan framkvæmdastjórnar ESB þar sem flest annað en umhverfisvernd hefur forgang.

Alþjóðleg samvinna á umhverfissviði

Síðustu fjóra áratugina hefur alþjóðleg samvinna í umhverfismálum aukist stig af stigi og haldist að nokkru í hendur við vaxandi skilning á þeim vanda sem mannkynið stendur frammi fyrir vegna fjölþættra áhrifa af iðnvæðingu og fólksfjölgun. Sameinuðu þjóðirnar hafa með stofnunum sínum, alþjóðaþingum og sáttmálum verið kveikjan að þessari samvinnu og frjáls umhverfisverndarsamtök rekið á eftir úrbótum og unnið ómetanlegt starf. Gildir það jafnt innan þjóðríkja og á alþjóðavettvangi. Þetta víðtæka alþjóðlega samstarf vill stundum gleymast þegar kemur að svæðisbundinni samvinnu, sem hvað Ísland varðar er einkum á vettvangi Norðurlandaráðs, Evrópska efnahagssvæðisins og Norðurheimskautsráðsins. Á Ríó-ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 1992 voru samþykkt mikilvæg stefnumið og sáttmálar á umhverfissviði. Evrópusambandið hefur síðan á mörgum sviðum lagt sig fram um að móta reglur og viðmiðanir sem einnig hafa verið teknar upp í löggjöf hérlendis innan ramma EES-samningsins. Enn hefur þó ekki tekist að fá lögfest hér á landi meginmarkmið umhverfisréttar.

Umhverfisáhrif innri markaðar ESB

Innri markaður Evrópusambandsins sem stofnað var til1992 var aðferð evrópskra auðhringa til að ná frumkvæði í harðnandi samkeppni á alþjóðamörkuðum. Fjórfrelsið svonefnda, þ.e. frjálst streymi af vörum, þjónustu, fjármagni og vinnuafli óháð landamærum þjóðríkja var þar burðarásinn og varð kjarninn í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ákvæði þess samnings um óheftar fjármagnshreyfingar og tilskipanir um  bankastarfsemi eru bakgrunnur bankahrunsins hér á landi sl. haust og þeirrar þróunar sem til þess leiddi. Frá upphafi var ljóst að vaxtarhagfræðin að baki innri markaðarins samræmdist illa hugmyndunum um sjálfbæra þróun. Þetta mátti lesa í „Taskforce skýrslu“ framkvæmdastjórnar ESB 1990 þar sem m.a. var bent á að að flutningastarfsemi innan svæðisins myndi aukast um 30–50%.
Síðasta heildarúttekt Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA) frá árinu 2005 ber vott um að þrátt fyrir  jákvæðan árangur á ýmsum sviðum séu vistfræðileg fótspor (ecological footprints)   Evrópusambandsins margföld umfram það sem sjálfbært geti talist, þ.e. 5 hektarar á mann í stað 1–2 ha. Orkunotkun og losun gróðurhúsalofts fer vaxandi á ESB-svæðinu og sýnilegir erfiðleikar eru í vegi að ná settum markmiðum í loftslagsmálum og á mörgum öðrum sviðum.

Fjórfrelsið á kostnað umhverfisins

Innan Evrópusambandsins má segja að umhverfisþættir séu á þriðja farrými, þar eð tilskipanir sem gera ráð fyrir óheftri samkeppni á vöru- og þjónustusviði hafi forgang. Í þessu sambandi hefur verið bent á svonefnda umhverfistryggingu eða „miljøgaranti“ í grein 100 A í Rómarsamningnum sem heimili aðildarríkjum að setja eða viðhalda strangari reglum en almennt gildi innan ESB. Þetta hefur reynst haldlítið eftir að ESB-dómstóllinn hefur ítrekað dregið úr vægi slíkrar tryggingar. Á þetta reyndi m.a. í svonefndum PCP-dómi ESB-dómstólsins árið 1994 sem féll á þann veg að ekki mætti banna umrætt efni sem við bruna getur breyst í díoxín. Jafnframt var kveðið svo á að ekki megi beita þessu ákvæði nema fyrirfram liggi fyrir heimild frá framkvæmdastjórn ESB og sérstakur rökstuðningur verði að fylgja til að heimila undanþágur frá sameiginlegum reglum vegna umhverfissjónarmiða.  

Þjóðríkin svipt samningsumboði

Meðal afdrifaríkustu þátta af ESB-aðild er sú staðreynd að aðildarríkin eru svipt samningsumboði á umhverfissviði og í öðrum samningum við þriðju aðila. Þetta birtist m.a. á vettvangi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, í undirstofnunum þeirra og á stefnumarkandi þingum eins og glöggt kom í ljós á ráðstefnunni um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg árið 2002. Þar eins og í Ríó og víðar notuðu fulltrúar Noregs málfrelsi sitt og tillögurétt sem ríkis utan ESB til að ná fram ávinningum á umhverfissviði og koma í veg fyrir undanhald. Í drögum að lokaályktun ráðstefnunnar var setning þess efnis að sáttmálar á umhverfissviði verði framvegis að falla að viðskiptareglum WTO. Á þetta hafði ESB og Bandaríkin fallist en Noregur og Etíópía andmæltu og söfnuðu liði sem nægði til að ákvæðið var fellt út. Á hliðstæðan hátt gæti Ísland utan Evrópusambandsins tekið málstað umhverfisins ef vilji stæði til.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim