Hjörleifur Guttormsson 27. ágúst 2009

Ósjálfbært efnahagskerfi í dauðateygjum

Efnahagskerfi heimsins sem kennt er við kapítalisma berst ekki aðeins í bökkum heldur stefnir að óbreyttu í strand. Þeim fjölgar eðlilega sem setja spurningarmerki við undirstöður og leikreglur efnahagslífsins. Áberandi er hins vegar hversu margir stjórnmálamenn og þorri fjölmiðla forðast þá umræðu. Í stað þess að reyna að grafast fyrir um rætur kreppunnar og ræða um framtíðina fer mest fyrir fréttum og umræðu um liðna viðburði, kollsteypur fyrirtækja, hlut fjárglæframanna í hruninu og þá erfiðleika sem blasa við skuldum hlöðnum almenningi. Vandinn er vissulega ærinn í bráð en ekki síður í lengd þegar horft er til aðsteðjandi vistkreppu, loftslagsbreytinga og auðlindaþurrðar. Hér verður vikið nokkrum orðum að framtíðinni og ríkjandi efnahagskerfi.

Hnattvæðing og skuldasöfnun

Eðli yfirstandandi kreppu er um margt það sama og á  fyrri samdráttarskeiðum kapítalismans á öldinni sem leið. Þó var bólan sem leiddi til fjármálakreppunnar haustið 2008 skrautlegri en áður hefur sést og andvaraleysi stjórnkerfis Bandaríkjanna og Bretlands með hreinum ólíkindum. Aðdragandi núverandi kreppu hefur verið óvenju langur eða nærri þrír áratugir sem einkenndust af hnattvæðingu fjármagnsins og frjálshyggju sem leiddi til gífurlegra offjárfestinga á heimsvísu. Á þessum tíma átti sér stað á Vesturlöndum stórfelld eyðing framleiðsluverðmæta og tilfærsla til láglaunasvæða í þróunarríkjum með tilheyrandi væntingum fjárfesta um gróða. Bandaríkin urðu á þessu tímabili stærsti skuldunautur í heimsviðskiptum og Kína að sama skapi öflugur lánardrottinn. Stuttu fyrir hrun fjármálamarkaða haustið 2008 sagði fjármálaráðherra Bandaríkjann Henry M. Paulson: „ Þetta er án samjafnaðar öflugasta efnahagskerfi á veraldarvísu sem ég hef séð á mínum viðskiptaferli.“ Alan Greenspan seðlabankastjóri gaf honum lítið eftir og herskarar milljarðamæringa og smærri spámenn tóku undir.

Útþensla og náttúruleg takmörk

Á síðustu þremur áratugum hefur efnahagskerfi veraldar mælt í hefðbundnum hagvexti þrefaldast, bólgnað út frá því að vera um 13 trilljónir á áttunda áratugnum í 36 trilljónir á miðju ári 2008. Flestir hagfræðingar virtust líta svo á að þessi veisla gæti haldið ótrufluð áfram. Á umræddu tímabili hrönnuðust hins vegar upp viðvaranir þess efnis úr mörgum áttum að takmarkaðar náttúruauðlindir plánetu okkar stæðu engan veginn undir slíkum vexti til frambúðar. Á slíkar raddir var lengst af lítið hlustað enda hefðbundinn hagvöxtur og það sem að baki honum býr talinn af ráðandi öflum jafn ómissandi og loftið sem við öndum að okkur. Viðbrögð við kreppunni í Bandaríkjunum og víðar hafa að undanförnu endurspeglað þessa trú og ómældum upphæðum af skattpeningum hefur verið dælt úr opinberum sjóðum til bjargar bönkum og fjármálakerfi. Skyndilega urðu bannorð eins og  þjóðnýting gjaldgeng í þessu Guðs eigin landi. Allt miðar þetta að því að geta haldið leiknum áfram þar sem frá var horfið, að vísu með óljósum fagurgala um að draga beri lærdóma af hruninu.

Hlýnun, olíuþurrð og vatnsskortur

Ekki er liðinn áratugur frá því að stjórnmálamenn á Vesturlöndum fóru loks að taka aðvaranir vísindamanna um loftslagsbreytingar alvarlega. Forysta Bandaríkjanna var í afneitun hvað þetta varðaði allt fram á síðasta vetur. Þó stendur heimsbyggðin frammi fyrir því verkefni að draga úr og stöðva sem frekast má verða losun gróðurhúsalofts. Talið er að olíuframleiðsla sé senn að ná hámarki og á þessari öld muni olíulindir jarðar ganga til þurrðar. Þær horfur munu neyða alþjóðasamfélagið til róttækrar stefnubreytingar eigi ekki illa að fara. Vatnsskortur er einnig orðinn brennandi vandamál á sumum svæðum og veðurfarsbreytingar samfara hlýnun eiga eftir að auka á vandann. Við þetta bætist hraðfara eyðing náttúrulegra vistkerfa og lífverutegunda með hruni líffræðilegrar fjölbreytni á stórum svæðum. Fyrirsjáanleg fjölgun jarðarbúa um 50% á einum mannsaldri gerir þessa glímu við umhverfistakmarkanir enn örðugri. Þrátt fyrir auðsæjar blikur leyfa flestir forystumenn þjóða sér samt að feta troðna slóð með hagvöxt knúinn áfram af rányrkju náttúruauðæfanna sem leiðarvísi og lausnarorð. Áhrif mannlegra umsvifa á náttúru og auðlindir eru áfram í engu metin í þjóðhagsreikningum.

Jafnvægi í stað ósjálfbærs hagvaxtar

Lengi hafa blasað við afleiðingar ósjálfbærs vaxtar og neysluhyggju sem alið er á til að knýja áfram hjól efnahagslífsins. Ekkert sýnir betur haldleysi ríkjandi kerfis en sú staðreynd að heilbrigðir lífshættir, hófsemi og tillitssemi við umhverfið eru nánast bannorð. Gangverkið byggir á sem hraðastri umsetningu varnings og þjónustuafurða því að ella blasi við hrun. Viðfangsefnið, samhliða því sem glímt er við afleiðingar umhverfisbreytinga af mannavöldum, ætti að vera að hverfa sem fyrst frá ríkjandi efnahagsstefnu og einbeita kröftum sem flestra að því að ná jafnvægi í samskiptum við náttúruna. Til þess þarf að fjarlægja marga gullkálfa og kasta hagvaxtartrú og lífsháttum sem hún nærir fyrir borð.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim