Hjörleifur Guttormsson 28. nóvember 2009

Á elleftu stundu fyrir Kaupmannahöfn

Þann 7. desember hefst ársfundur aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn, sá 15. í röðinni (COP-15). Vonir manna um að hann skili marktækum árangri höfðu dofnað á síðustu vikum, ekki síst þar eð ekkert jákvætt heyrðist frá mestu mengunarríkjum heimsins, Kína og Bandaríkjunum. Á sama tíma hrönnuðust upp nýjar vísbendingar og aðvaranir vísindamanna um hraðari breytingar en áður var spáð, bæði um hækkun meðalhita og sjávarborðs. Slík váleg tíðindi hafa áhrif á almenningsálit og stjórnmálamenn eins og nú hefur komið á daginn. Bandaríkin sem sögðu sig frá Kyótó-bókuninni í tíð Bush forseta eru loksins farin að sýna lit. Obama forseti segist nú reiðubúinn að beita sér fyrir að Bandaríkin dragi svolítið úr losun fram til ársins 2020 eða sem svarar 4% miðað við árið 1990. Óvissa er hins vegar áfram um afstöðu Bandaríkjaþings. Kínastjórn hefur síðan bætt um betur með loforði um umtalsverðan niðurskurð á svipuðum forsendum. Kína er fyrst þróunarlanda til að lýsa yfir samdrætti í losun og vísar þannig útspil þeirra í rétta átt og hreyfir væntanlega við fleirum úr þeirra hópi..

Flókið pókerspil framundan

Loftslagssamningarnir eru gífurlega flókið viðfangsefni í núverandi stöðu. Hluti af skýringunni er að ríki heims eru enn langt frá því að hafa sameiginlega sýn um aðferðafræði sem beita eigi við það tröllaukna verkefni að komast út úr kolefnisbúskapnum. Það er raunar fyrst nýlega að stærstu mengunarvaldarnir hafa fengist til að viðurkenna loftslagsbreytingar af mannavöldum eins og Bandaríkin eru ljósast dæmi um. Mikið vantar á að stjórnmálamenn í ríkum hluta heimsins horfist í augu við það sjónarmið, að réttur til losunar gróðurhúsalofts út í umhverfið eigi að teljast sameiginlegur fyrir hvern og einn jarðarbúa, á sinn hátt hliðstæður öðrum mannréttindum. Þannig kæmi í hlut hvers ríkis losunarheimild miðuð við höfðatölu, sbr. meðfylgjandi línurit Á meðan slíkur grundvöllur er ekki til staðar stendur hver á sínu roði og reipdráttur og tortryggni setur mark sitt á samningaumleitanir. Það sem drífur þær áfram er hins vegar að við blasir sameiginlegt skipbrot verði ekki komið böndum á mengun lofthjúpsins. Hér er það hvert ríki eða ríkjahópur á borð við ESB sem talar fyrir sig og leitast við að gæta meintra hagsmuna.

Sérákvæði fyrir Ísland úr sögunni

Síðustu tölur um útkomu Íslands í Kýótósamhengi sýna að losun gróðurhúslofts hérlendis jókst um 32% frá 1990 til ársins 2007 sem er 22% umfram almennar heimildir. Stærsti hluti aukningarinnar stafar frá stóriðju, þar af 91% frá járnblendiframleiðslu og 72% frá áliðnaði. Munar þar mest um stækkun Norðuráls en áhrif frá Fjarðaráli eru fyrst nú að koma inn í bókhaldið. Með þeim verður losun á mann hérlendis um 17 tonn sem er með því hæsta sem gerist á heimsvísu. Í vegasamgöngum var aukningin á sama tíma mjög mikil eða 81% en lækkaði í sjávarútvegi úr 23 í 15%. Eftir er að sjá hver endanleg útkoma verður í lok Kyótó-tímabilsins 2012, en eins og horfir mun Ísland fara fram úr almennum + 10% losunarheimildum. Þar fyrir utan er svo „íslenska ákvæðið” sem fyrri ríkisstjórnir urðu sér úti um fyrir stóriðju en það það fellur úr gildi með Kyótóbókunni 2012. Afleiðingar þeirrar betlistefnu eru enn ófyrirséðar hvað Ísland varðar í samhengi loftslagssamningsins, en Svandís umhverfisráðherra hefur lýst því yfir að hún muni ekki feta þá slóð frekar en orðið er. Þess í stað verði dregið úr heildarlosun hérlendis um 15% fram til ársins 2020 sem þýðir 25% samdrátt frá og með viðmiðunarárinu 1990.

Í sjálfheldu stóriðjunnar

Í júní 2009 skilaði sérfræðinganefnd undir forystu Brynhildar Davíðsdóttur dósents við Háskóla Íslands áliti um tæknilega möguleika á að draga úr nettóútstreymi gróðurhúsalofttegunda hérlendis og binda að auki kolefni með annars konar mótvægisaðgerðum. Nefndin skilaði góðu starfi og er niðurstaða hennar sú að verði ekki um að ræða aukningu í orkufrekum iðnaði væri unnt að draga mikið úr útstreymi hérlendis með samræmdum aðgerðum eða sem nemur 52% fram til ársins 2020. Sé hins vegar gert ráð fyrir stækkun álverksmiðjunnar í Straumsvík og nýrri álverksmiðju í Helguvík snýst þetta við og í stað samdráttar yrði 3% aukning í losun 2020. Þetta sýnir í hnotskurn þá sjálfheldu í loftslagsmálum sem hér yrði með framhaldi á stóriðjustefnunni. – Af einstökum greinum sýnast mestir möguleikar til að minnka losun vera í sjávarútvegi, og er þá m.a. gert ráð fyrir notkun lífeldsneytis sem reyndar er umdeild. Í orkubúskap og landbúnaði eru einnig taldir umtalsverðir möguleikar og jafnframt gæti binding með skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis skilað miklu ef vel er að staðið. Til að þetta gerist þurfa sem fyrst að koma til fjárfestingar í loftslagsvænni tækni og margvíslegir hvatar af hálfu stjórnvalda. – Sérstök verkefnisstjórn margra aðila undir forystu Huga Ólafssonar vinnur nú að aðgerðaáætlun og er henni ætlað að skila tillögum fyrir 1. apríl 2010. Þá verður ljóst orðið hverju ráðstefnan í Kaupmannahöfn hefur skilað og hvaða verkefni bíða COP-16, þ.e. næsta ársfundar aðila loftslagssamningsins. Fjölbragðaglíman við afleiðingar iðnvæðingarinnar er rétt að hefjast.




Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim