Hjörleifur Guttormsson 5. janúar 2010

Hvernig horfir fyrir gróssérum í ársbyrjun 2010?

Milli hátíða greip ég í minningar Halldórs Laxness „Úngur eg var“ frá árinu 1919. Í kafla sem heitir Hótel Continental er höfundurinn m.a. að segja frá því hve illa Dönum gekk að átta sig á töluðu máli íslensku og gátu haldið það vera hebresku eða rússnesku. Í framhaldi af því segir í upprifjun Halldórs (bls. 114–118):

„Úrþví ég fór að nefna almennan ókunnugleika um Ísland í Kaupmannahöfn, væri ekki úr vegi að tína upp dæmi af ósamsvarandi fyrirferð Íslendinga í þessari borg. – Þetta haust gerðist það, að íslenskir síldargróssérar, þeir sem í Höfn sátu og voru að bíða þess að sumarsíldin 1919 stigi í verði, þá fóru þeir alltíeinu að finna til sín einsog þeir væru soldáninn af Kuwait. Þeir sögðu upp vist sinni á dönskum hótelum, en keyptu hótel sjálfir handa sér og sínum vinum, öðrum íslandsgróssérum; en af slíkum moraði í borginni þó reyndar hefði verið sannað að íslendingar samanlagðir væru færri en íbúar í Istedgade. Hótelið hét Continental og lá á Kristjánshöfn. ... Síldin hækkaði og lækkaði á víxl allan veturinn en gróssérarnir héldu að með vorinu mundi koma kraftaverk ef þeir hefðu þolinmæði til að bíða. Um tíma batt hótelið vonir við að það sem staðið hafði í dönskum blöðum, að Litvinoff mundi koma til Kaupmannahafnar eftir jólin að kaupa síld handa Lenín. Hótel Continental ætlaði að bjóða kommissarnum að vera meðan hann stæði við í bænum. En svo fór sem fór, um vorið var síldin orðin verðlaus og hinar ótöldu sænsku milljónir sem gróssérarnir biðu eftir komu aldrei;”

Fjármálakerfi áfram í sama farvegi

Á árinu 2009 töldu ráðamenn heimsins sig vera að glíma við afleiðingar hrunsins á fjármálamörkuðum Vesturlanda. Haldnir voru fundir á ótal þrepum frá leiðtogum G-20 ríkjanna til ráðherra fjármála og viðskipta í alls konar samhengi til að berja í brestina. Menn töldu sig hafa forðað því versta með því að ausa út almannafé í gjaldþrota banka og sjóði og í opinberar framkvæmdir. Bandaríkin voru þar stórtækust  en aðrir fetuðu sömu slóð, ekki síst kommúnistastjórnin í Kína. Skuldahaugum einkaaðila var mokað yfir í ríkissjóði, sem skuldsettir voru fyrir og byrðar hrunsins þar með fluttar yfir á herðar almennings og óborinna kynslóða. Heitið var jafnframt bót og betrun til að svona ósköp endurtækju sig ekki, þar á meðal að stöðva sjálftöku í fjármálastofnunum og efla eftirlitskerfi. Þegar upp er staðið lítur út fyrir að þetta hafi að mestu verið sýndaraðgerðir, leiktjöld til að bjarga rétt í bili ásýnd kapítalismans og hefja síðan leikinn á ný sem business as usual. Lítum aðeins á hvað þýska tímaritið Der Spiegel hefur að segja um hreingerninguna í fjármálaheiminum á liðnu ári.

Uppgjöf fyrir sjálftökuveldinu

Wolfgang Kaden, um áratugi ritstjóri efnahagsmála hjá Der Spiegel, skrifaði rétt fyrir jólin eftimæli um árið 2009 undir fyrirsögninni „Uppgjöf fyrir einokunarskrímslinu“. Hann bendir á að Josef Ackermann hjá Deutsche Bank geri ráð fyrir hagnaði hjá bankanum upp á 10 milljarða Evra þegar á árinu 2011. Slíkar upphæðir séu ekki sóttar í venjuleg viðskipti og lán til framleiðslufyrirtækja heldur í fjárfestingarbrask með verðbréf og hverskonar áhættuviðskipti og tilbúnar og kunnuglegar söluafurðir banka og áhættusjóða. Liðsveitin sem fyrir ári hafi nærri kollsteypt efnahagsstarfsemi heimsbyggðarinnar sé mætt til leiks á ný, þess albúin að raka að sér gróða og útdeila bónusum til sín og sinna. Þeir hinir sömu gangi áfram í sjóði seðlabanka landanna sem láni út fé nánast á núllvöxtum og stjórnmálamenn horfi á aðgerðarlausir þvert ofan í gefnar yfirlýsingar um að nú skuli hreinsað til. Þrátt fyrir viðleitni á yfirborðinu til að taka til í bankaheiminum, svo sem að gera kröfur um eiginfé, setja hömlur á aukagreiðslur og styrkja eftirlitskerfin sé ekki hreyft við undirstöðum fjármálaiðnaðarins. Eftir standi fjöldi banka sem séu of stórir til að hægt sé að leyfa þeim að fara á hausinn. Mikið skorti jafnframt á gegnsæi til að bregðast við kerfisbrestum í tæka tíð og stjórnvöld telji sig ekki geta horft upp á gjaldþrot peningastofnana vegna hættu á keðjuverkunum. Fjárfestingaraðilar, bankar og sjóðir, geti treyst á að ríki hlaupi undir bagga í stað þess að láta þá falla. Fjármálastarfsemin sé orðin hnattvædd og ætli menn sér að stöðva rúllettu áhættu og ofsagróða þurfi öll helstu ríki heims að leggjast saman á árar. Þetta hafi brugðist, Bandaríkin og Bretland sem fóstrað hafi peningarúllettuna, skerist áfram úr leik og Kína standi álengdar til þess albúið að gerast þátttakandi og hagnast á fjárhættuspilinu. Wolfgang Kaden hjá Der Spiegel metur það svo að markaðskerfi eftirstríðsáranna og lýðræðislega kjörin yfirvöld virðist hafa gefist upp fyrir fjármálaskrímslinu sem kallaði yfir heiminn dýpstu kreppu eftirstríðsáranna.

Hvað verður um Íslandsgróssérana?

Íslenskur fjármálaheimur er agnarsmár samanborið við Frankfurt, City og Wall Street. Hér hafa stjórnvöld stritað baki brotnu við að bjarga því sem bjargað varð eftir fall þriggja helstu banka landsins. Gróssérarnir sem leiddu okkur út í hrunið og færðu Ísland á eins konar byrjunarreit hafa verið að forða sér undan refsivendi götunnar í leit að nýjum gististað líkt og síldarspekúlantarnir í Kaupmannahöfn fyrir 90 árum. Okkur er sagt að endurreisn hinna föllnu banka sé lokið, reyndar með yfirtöku svonefndra kröfuhafa, erlendra fjármálastofnana og innlendra skósveina þeirra, undir nýjum nöfnum að því er varðar tvö af þessum musterum. Sjálfsagt eigum við að gleðjast yfir þessum tíðindum. En í fullri hógværð mætti kannski spyrja hvort leikreglum hafi verið breytt þannig að girt sé fyrir að sama fjárhættuspilið hefjist á ný hérlendis líkt og er að gerast úti í hinum stóra heimi.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim