Hjörleifur Guttormsson 9. september 2010

Eigum við að trúa þessu um VG-forystuna?

Lengi skal manninn reyna, segir íslenskt orðtæki, nærtækt þegar mikið liggur við. Ég er stofnfélagi í Vinstrihreyfingunni grænu framboði og tel mig eiga nokkurn hlut í því að sá flokkur komst á legg og náði áheyrn í íslensku samfélagi. Einn af hornsteinum flokksins samkvæmt upphaflegri stefnuyfirlýsingu og landsfundarsamþykktum til þessa dags hefur verið yfirlýst andstaða við aðild að Evrópusambandinu. Á þessu var hnykkt af formanni flokksins Steingrími J. Sigfússyni frammi fyrir alþjóð fyrir alþingiskosningarnar vorið 2009 og því bætt við að umsókn um aðild kæmi ekki til greina eftir kosningarnar. Það kom því eins og reiðarslag fyrir fjölmarga flokksmenn og kjósendur VG þegar flokksforystan varð við þeirri ósk Samfylkingarinnar að láta reyna á fylgi við það á Alþingi að sækja um aðild að ESB og að meirihluti þingmanna flokksins studdi þá ákvörðun í júlí 2009. Málatilbúnaðurinn við að smeygja þessu beisli upp á þjóðina var af hálfu VG-forystunnar með reyfarakenndum hætti. Eftir á var látið í það skína að með aðildarumsókn ætti að leiða í ljós hvaða kostir byðust í samningum og að síðan fengi þjóðin að kveða upp sinn dóm um hugsanlegan aðildarsamning. Það síðastnefnda var engin náðargjöf, því að aldrei hefur verið um það ágreiningur að þjóðin ætti ef til kæmi síðasta orðið í slíku sjálfstæðisafsali.

Aðlögunarferli á fulla ferð

Menn hafa fylgst með því á þessu ári hvernig Evrópusambandið hefur verið að færa sig upp á skaftið gagnvart Íslendingum, þótt stækkunarstjóri þess dragi enga fjöður yfir að undanþágur frá grundvallarreglum komi ekki til greina. Í þeim efnum hefur hann leiðrétt Össur utanríkisráðherra opinberlega eins og byrjanda í skóla. Á sumarmánuðum fór að fréttast um umbúnaðinn að væntanlegum samningaviðræðum með aðlögunarferli af Íslands hálfu til að teljast gjaldgengt í klúbbinn þegar þar að kæmi. Jón Bjarnason ráðherra stakk við fæti og hlaut fyrir opinbera hirtingu af forsætisráðherra. Hann og ráðuneytisstjóri hans hefðu misskilið hvað í vændum væri. Nú ætti hins vegar ekki að vera þörf á að deila um þessi efni, því að fyrir liggur sérstakt minnisblað „um stuðningsaðgerðir Evrópusambandsins við Ísland í umsóknarferlinu“ dagsett 25. ágúst 2010, tekið saman fyrir utanríkismálanefnd Alþingis. Hver sem les þann pappír þarf ekki að velkjast í vafa um rammann sem Evrópusambandið setur viðræðunum með ótrúlegum fjárupphæðum til að hafa áhrif á afstöðu almennings og almannasamtaka á meðan á samningaviðræðum stendur. Grófari íhlutun í íslensk málefni hefur ekki sést fyrr né síðar, borin fram með tilboðum um mútugreiðslur í duldu og ódulbúnu formi. EES-ferlið á sínum tíma var eins og sunnudagaskóli í samanburði við ákefð Evrópusambandsins nú að flækja Ísland í net sín.

Kerfisbreytingar fyrirfram

Væntanlega gefst almenningi fljótlega kostur á að kynna sér þessa sérstæðu „þróunaraðstoð“ ESB við Ísland lið fyrir lið, sem nema á amk. 28 milljónum evra (4230 milljónum ísl. kr.) næstu þrjú árin. Megináherslan hvað Ísland varðar tengist aðlögunaraðstoð og stofnanauppbyggingu og skýrt tekið fram að vinnu að þeim verkefnum verði „miðstýrt frá Brussel.“ Sett verði upp sérstök landsáætlun þar sem skilgreint er hvernig ná skuli einstökum markmiðum ásamt viðmiðum um árangur. „Hins vegar er um að ræða stuðning, sem rekinn er beint af framkvæmdastjórninni og felur m.a. í sér aðstoð sérfræðinga og fjármögnun fræðslu- og kynnisferða sem álitnar eru mjög mikilvægar í umsóknarferlinu.“ Sérstök samþykkt var gerð um svonefndan IPA-stuðning við Ísland með breytingu á ESB-reglugerð sem tók gildi 14. júlí sl. Gerir hún ráð fyrir að stýra megi fjárveitingunum beint frá Brussel. Samin verði „fjölær heildaráætlun“ sem framkvæmdastjórnin útbýr með það að markmiði að „styrkja stjórnsýsluna“ á Íslandi „til að hún geti tekist á við þær breytingar sem innleiðing ESB-löggjafarinnar hefur í för með sér“ og „undirbúa jarðveginn fyrir væntanlega þátttöku í sjóðum og samstarfsáætlunum ...“.

Þéttriðið net ESB-áróðursmanna

Skjótvirkasti hluti aðlögunarferlisins er sögð vera svonefnd tæknileg aðstoð (TAIEX). „Um er að ræða aðgang að stórum hópi sérfræðinga frá aðildarríkjum ESB sem aðstoða við undirbúning að breytingu á löggjöf, reglum og innleiðingu, allt að fullu styrkt af Evrópusambandinu. Þessu til viðbótar er síðan kveðið á um „verkefnastuðning“ til þess m.a. að tryggja fyrirfram samræmt innheimtu- og upplýsingakerfi um tolla og virðisaukaskatt, og „þarf slíkt kerfi að vera til staðar þegar við inngöngu og verður nauðsynlegt að hefja undirbúning áður en ljóst er hvort Ísland mun gerast aðili eða ekki.“
            Þeir sem afneitað hafa aðlögunarferlinu gerðu rétt að kynna sér þennan pappír lið fyrir lið og þá herskara erlendra áróðursmanna ESB sem nú þegar fara um sveitir hérlendis. „Við þurfum bara að ræða það pólitískt nákvæmlega hvernig ferlið sem slíkt er hugsað og hvernig að því er staðið af okkar hálfu“ sagði Steingrímur J í Mbl. 25. ágúst sl. – Þótt fyrr hefði verið mun margur segja. En lengi skal manninn reyna.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim