Hjörleifur Guttormsson 10. ágúst 2010

Hugleiðingar á heitu sumri

Íslendingar hafa í sumar notið einmuna veðurblíðu einkum suðvestanlands. Hér eins og víða um heim stefnir í að hitamet verði slegin þetta árið. Upplifunin af því er hins vegar víða dapurlegri en hérlendis. Rússland upplifir nú mestu hita og þurrka í mannaminnum og afleiðingarnar eru skógareldar og mengun sem ógna heilsu tugmilljóna. Á Indlandsskaga hrekjast milljónir manna frá heimilum sínum vegna metúrfellis. Frá Kína berast daglega fréttir af manntjóni vegna náttúruhamfara. Á Norðurskautssvæðinu rýrnar sumarísinn hraðar en menn áður hafa upplifað. Við hitamælingar í andrúmslofti bættust sl. vor rannsóknaniðurstöður um þróun hitastigs í efstu lögum sjávar á tímabilinu 1993–2008. Þær sýna verulega hækkun á þessu tímabili, meiri en IPCC-vísindanefnd  Sameinuðu þjóðanna hafði áætlað. Við þetta bættust síðan fyrir skemmstu rannsóknir sem taldar eru sýna allt að 40% minnkun á plöntusvifi í heimshöfunum á síðustu öld, að miklum hluta eftir 1950. Skammtímaþróun ein og sér, hvað þá einstakir atburðir eða staðbundin frávik, sanna vissulega ekkert um hlýnun jarðar til frambúðar. En þegar mælingar og aðrar vísbendingar á löngu tímabili stefna í eina og sömu átt þarf mikla forherðingu til að afneita forspám um hlýnun jarðar af mannavöldum vegna losunar gróðurhúslofts.

Eftirmál loftslagsráðstefnu

Loftslagsráðstefnan í Kaupmannahöfn í desember 2009 olli miklum vonbrigðum. Niðurstöður ráðstefnunnar voru óskuldbindandi andstætt því sem Evrópuríki og fleiri höfðu stefnt að. Gífurlegar væntingar höfðu verið bundnar við þessa 190 ríkja ráðstefnu aðila loftslagssamningsins og síðan hefur verið leitað að blórabögglum. Málsmeðferðin hefur verið gagnrýnd þar sem niðurstaðan réðst á fundi 25 ríkja á meðan fulltrúar annarra landa horfðu í gaupnir sínar í aðalfundarsal. Í raun voru það stórveldin sem úrslitum réðu. Kína og Indland neituðu að taka á sig tölulegar skuldbindingar um losun og vísuðu til ábyrgðar gömlu iðnríkjanna á því hvernig komið er. Þau fengu stuðning annarra áhrifamikilla þróunarríkja eins og Brasilíu og Suðurafríku. Staða Obama Bandaríkjaforseta reyndist veik í ljósi þess að hann hefur ekki vald á málum heima fyrir þar sem meirihluti á Bandaríkjaþingi hefur lagst gegn stefnu hans í loftslagsmálum. Einnig hefur reynsluleysi danska forsætisráðherrans Lars Løkke Rasmussen verið kennt um hvernig fór. Staðreyndin er sú að í stað þess að vísa fram á veginn lauk ráðstefnunni án þess að nokkurt alþjóðlegt samkomulag sé í sjónmáli til að taka við af Kyótóbókuninni.

Bandaríkjaþing bregst skyldum sínum

Þótt Kína hafi nú jafnað metin við Bandaríkin í heildarlosun gróðurhúsalofts eru það þau síðarnefndu sem leggja langsamlega mest til mengunar andrúmsloftsins reiknað á íbúa. Lífsmáti Bandaríkjamanna – the American way of life – með ofurneyslu og sóun auðlinda hefur verið fordæmisgefandi fyrir heimsbyggðina frá lokum heimsstyrjaldar fyrir 65 árum. Sovétríkin og fylgiríki þeirra með sínum miðstýrða áætlunarbúskap drógu heldur ekki fram nein önnur gildi í umhverfismálum og skildu víða eftir sviðna jörð. Loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna er ávöxtur Ríó-ráðstefnunnar 1992 en Bandaríkjaþing hefur aldrei fengist til að horfast í augu við loftslagsvandann, þótt einstök fylki eins og Kalifornía hafi sýnt loftsvert frumkvæði. Þannig hafa Bandaríkin ekki staðfest Kyótóbókunina og í síðasta mánuði gerðust þau tíðindi að Harry Reid talsmaður meirihluta demókrata í öldungadeild Bandaríkjaþings ákvað að draga til baka loftslagsfrumvarp (cap and trade bill) sem fulltrúadeildin samþykkti í fyrra með naumum meirihluta. Fullyrti hann að þingstyrk vantaði fyrir málinu, en auk repúblikana hafa allmargir þingmenn demókrata snúist gegn frumvarpinu.  Bandaríkjastjórn kemur þannig berhent sem aldrei fyrr til næsta ársfundar ríkja loftslagssamningsins sem haldinn verður í Mexíkó í nóvember næstkomandi.

Mannkyn í stórkostlegum vanda

Það þarf ekki spádómsgáfu til að sjá að jarðarbúar standa frammi fyrir stórkostlegum vanda vegna umhverfisbreytinga af mannavöldum. Óhófleg notkun jarðefnaeldsneytis sem meginorkugjafa veldur mestu um þá stöðu sem við blasir ásamt ósjálfbæru hagkerfi sem háð er stöðugri útþenslu og aukinni efnislegri neyslu. Gífurleg fjölgun mannkyns sem hvergi sér fyrir endann á bætir gráu ofan á svart. Náttúruhamfarir af völdum hlýnunar jarðar og röskun lífkerfa eiga að óbreyttu eftir að stigmagnast samhliða skorti og þurrð undirstöðuauðlinda eins og ferskvatns. Mannkynið má í raun engan tíma missa áður snúið verði róttækt við blaðinu. Núverandi orkubúskapur með kol og olíu að undirstöðu leiðir fyrr en varir til ofhitunar og eyðingar á stórum svæðum þurrlendis og undirstöður sjávarlífs eru þegar teknar að láta á sjá. Brýnast af öllu er að þróa efnahagskerfi sem staðið geti undir sjálfbærri framleiðslu og jöfnuði án eyðandi hagvaxtar sem nú er driffjöðurin. Takist þetta ekki innan skamms bíða menn þess eins að náttúran taki í taumana óháð óskum og vilja Homo sapiens.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim