Hjörleifur Guttormsson 11. janúar 2010

Stjórnarandstaðan leggi spil sín á borðið

Icesafe-málið er í uppnámi einn ganginn enn og sér hvergi til lands. Þetta mál á upptök sín í frjálshyggjuskeiðinu sem leiddi hrunið yfir íslenskt bankakerfi. Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, oddvitar í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á árinu 2007-2008, innsigluðu hrunið og mótuðu þá stefnu um samninga við Breta og Hollendinga sem síðan hefur verið fylgt í meginatriðum. Þingflokkar þeirra lögðu blessun sína yfir þá stefnu á Alþingi 5. desember 2008. Framsóknarmenn sátu þá hjá en Vinstri grænir stóðu einir gegn því að fallast á tillöguna. Ástæða er til að rifja upp þessa ályktun Alþingis sem var svohljóðandi:

"Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um."

Í þeim sameiginlegum viðmiðum sem þarna er vísað til og birt voru með tillögunni stendur þetta: "Aðilar [íslensk, bresk og hollensk stjórnvöld] komu sér saman um að tilskipunin um innstæðutryggingar hafi verið felld inn í löggjöfina um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðildarríkjum Evrópusambandsins."
Um pólitíska niðurstöðu sagði m.a. í greinargerð ríkisstjórnar Geirs H. Haarde með tillögunni: "Gert er ráð fyrir því að þau ríki sem hlut eiga að máli muni aðstoða sjóðinn við að standa undir þessu verkefni og það verði í formi lánveitinga viðkomandi ríkja til sjóðsins með ábyrgð íslenska ríkisins."

Mistök ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms

Eftir fall ríkisstjórnar Geirs og Ingibjargar fyrir ári og myndun minnihlutastjórnar, var samninganefnd við Breta og Hollendinga endurnýjuð með breytingum. Það voru augljós mistök af hálfu þeirra sem þá tóku við stjórnartaumum að bjóða ekki Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki formlega aðild að þeirri samninganefnd. Hefðu þeir hafnað því boði  var staða þeirra til andófs að gerðum samningum önnur og lakari. Önnur augljós mistök sem gerð voru í júníbyrjun 2009 fólust í því að skrifa undir Icesafe-samning án þess að tryggur þingmeirihluti væri fyrir honum. Þessir fingurbrjótar hafa síðan fylgt málinu og gefið óprúttinni stjórnarandstöðu færi á að glamra og teygja málið og toga til þessa dags. Eftir að forseti Íslands hafnaði því að staðfesta áramótalöggjöfina hlýtur ríkistjórnin að átta sig á að hún hefur ekki vald á framvindu málsins, hvorki nú eða fari svo að lögunum verði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þáttur forsetans er mál út af fyrir sig en ekki til umræðu í þessum pistli.

Stjórnarandstaðan verði krafin svara

Við þessar aðstæður er rétt að beina þeim spurningum til stjórnarandstöðunnar hvaða málsmeðferð og efnislegar kröfur hún leggi til hér og nú í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu og eftir atvikum að felldum lögunum sem vísað hefur verið í þjóðaratkvæði. Krefja verður Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk sagna um það hvað þessir flokkar geti hugsað sér sem samkomulagsgrundvöll. Liggi svör um þetta ekki fyrir frá stjórnarandstöðunni er verið að leiða þjóðina blindandi til kosninga og draga þetta afdrifaríka mál á langinn og út í fullkomna óvissu. Það er innihaldslaust með öllu að klifa á því nú, eins og stjórnarandstaðan gerir, að hún vilji nýja samninganefnd. Fá þarf fram hið fyrsta hvað það er efnislega sem stjórnarandstaðan gerir kröfu um að látið verði reyna á gagnvart erlendum viðsemjendum og ríkisstjórnin þarf jafnframt að gera upp við sig, hvað hún vilji fallast á um breyttan málatilbúnað. – Ég hef litla trú á að Bretar og Hollendingar séu nú reiðubúnir til tilslakana, en það sakar ekki að láta á það reyna. Að öðrum kosti er dómstólaleiðin handan við hornið, en um niðurstöðu úr málaferlum, hvort sem um er að ræða jafnræðisreglu eða gildi ESB-tilskipana, getur enginn fullyrt fyrirfram.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim