Hjörleifur Guttormsson 12. mars 2010

Raforka til áliðnaðar á spottprís

Nú hrannast upp vísbendingar um að raforkusamningar til áliðnaðar hérlendis séu á slíku gjafverði að tæpast hrökkvi fyrir vöxtum af fjárfestingum í nýjum virkjunum, hvað þá að eitthvað sé upp úr þeim að hafa fyrir auðlindina, þótt náttúruspjöllin séu ekki metin til verðs.
Það var ekki að ástæðulausu að Landsvirkjun ákvað 1995 í tíð Finns Ingólfssonar sem iðnaðarráðherra að lýsa raforkusamninga til stóriðju viðskiptaleyndarmál. Þá var verið að ganga frá viðbótarsamningi vegna stækkunar í Straumsvík og í kjölfarið fylgdi svo Kárahnjúkavirkjun, einn stærsti þátturinn í bankahruninu haustið 2008. Kostnaðurinn við að keyra fram gömlu stóriðjustefnuna þoldi ekki dagsins ljós og það er fyrst í tíð núverandi ríkisstjórnar samkvæmt stjórnarsáttmála að „stuðlað verði að gagnsæi í orkusölusamningum og leitað leiða til að aflétta leynd af orkuverði til erlendra stóriðjufyrirtækja.” Landsvirkjun boðar nú að fyrirtækið ætli loks að verða við þessu í næsta mánuði og með því afhjúpast tilbúningurinn um raforkusamningana sem viðskiptaleyndarmál.

Fréttastofa Sjónvarpsins reið á vaðið

Það var fróðlegt fyrir landsmenn að heyra frásögn fréttastofu Sjónvarpsins um þau kjör sem Norðurál hefur samið um við orkufyrirtækin vegna álverksmiðju sinnar á Grundartanga. Samkvæmt upplýsingum sem þar komu fram og staðfestar voru af Sigurði Jóhannssyni eru það íslensku orkufyrirtækin og þar með almenningur sem ber megnið af áhættunni í samningunum við álhringana sem greiða langt undir því sem almennt gerist. Miðað við 1500 dollara álverð á tonn fái orkusalinn aðeins um 15 mills (1,5 cent) eða um 2 krónur fyrir kílóvattstund á sama tíma og heimili í landinu greiði fimmfalda þá upphæð! Það er von að því sé haldið að hluthöfum í Norðuráli að þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af fjárfestingum vegna raforkukaupa hérlendis þar sem raunarðsemi af álframleiðslu sé þrefalt meiri en það sem Landsvirkjun fái í sinn hlut.
Frétt Sjónvarpsins byggði m.a. á samanburði við reiknað meðalverð í álsamningum á heimsvísu. Slíkt segir auðvitað ekki hálfa sögu, því að inni í slíkum útreikningum eru afarkjör sem ýmis þróunarlönd búa við líkt og Íslendingar í árdaga álversins í Straumsvík.

Mat Gísla Hjálmtýssonar

Þann 14. febrúar ræddi Egill Helgason við Gísla Hjálmtýsson hjá Thule Investment sem vinnur að fjárfestingum í nýsköpun. Hann var ómyrkur í máli um álfjárfestingar hérlendis sem hann sagði að standi varla undir vaxtagreiðslum. Í Bandaríkjunum sé meðalverð á orku 8–12 cent og í Evrópu 9–12 eurocent sem er ennþá hærri tala. Á sama tíma séu menn að bjóða hér orku á 2 cent. Þetta þýði að afraksturinn af virkjunum okkar fari út úr landinu í fomi vaxta. Gísli gaf lítið fyrir hugmyndina um að stækka álverið í Straumsvík og sagði að þess í stað væri skynsamlegast að loka því og nota orkuna til að hafa eitthvað upp úr sölunni. Einhverjir muna kannski eftir því að undirritaður stóð fyrir því sem ráðherra um 1980 að brjóta upp þá afarkosti sem fólust í raforkusölusamningnum við ÍSAL og leiddi sú deila altént til meira en tvöföldunar á raforkuverðinu. Enn í dag sitjum við uppi með samninga um raforkusölu sem talsmenn álfyrirtækjanna hreykja sér af  þegar þeir ræða við sína banka og hluthafa en sem harðlæstir hafa verið gagnvart almenningi hérlendis að frumkvæði íslenskra stjórnvalda.

Dýrustu störf í heimi

Það er sérkennilegur kór sem sem enn og aftur hefur upp raust sína þessa dagana og krefst þess að stjórnvöld greiði götu nýrra álverksmiðja hérlendis. Þar fara fyrir oddvitar Samtaka iðnaðarins við undirleik kontórista Alþýðusambands Íslands. Meginrökin í áróðri þeirra er staðan á vinnumarkaði og hér verði að fá hjólin til að snúast, umfram allt með fjárfestingum í virkjunum til að fóðra Norðurál og Alcoa. Ég leyfi mér að leiða fram Finnboga Jónsson nú framkvæmdastjóra Framtakssjóðs Íslands og áður Nýsköpunarsjóðs sem sagði í viðtali við Fréttablaðið 3. október 2009 að alltof mikið væri einblínt á stóriðju sem lausn við atvinnuleysi í kreppunni. „Stóriðjan, eða ný álver, er ekki kostur í stöðunni“, sagði Finnbogi. Hann benti á að 40 þúsund tonna stækkun í Straumsvík myndi aðeins skapa þar tólf ný framtíðarstörf. „Grundvallaratriðið er“ sagði Finnbogi í viðtalinu „að peningar eru dýrir núna og í litlum skammti. Þess vegna verðum við að horfa á hvað gefur mesta arðsemi af hverri krónu og flest störf um leið. Það er ekki stóriðjan, þar eru dýrustu störf í heimi.“

Átakanleg síbylja

Það er átakanlegt að hlýða þessa dagana á síbylju þeirra sem fastir eru í álfarinu og heimta að allar gáttir verði opnaðar til að greiða götu þeirra erlendu fjárfesta sem maka krókinn á gjafasamningum um raforkuverð. Þar ber hæst sem stendur álverksmiðju Norðuráls í Helguvík þar sem teknar hafa verið skóflustungur og  lagður grunnur að verksmiðju. Enginn fæst hins vegar til að upplýsa hvaðan í ósköpunum raforkan eigi að koma í fyrirtækið, svo ekki sé nú verið að flíka stóra leyndarmálinu um raforkuverðið.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim