Hjörleifur Guttormsson 12. apríl 2010

Endurborið formannsefni fyrir Samfylkinguna

Birtist sem grein í Morgunblaðinu 12. apríl 2010

Þýski blaðamaðurinn Clemens Bomsdorf kvartar undan því í Financial Times að enginn háttsettur stjórnmálamaður úr ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 2007–2009 hafi verið fáanlegur í viðtal þar til Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hleypti honum að 5. apríl, viku fyrir birtingu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Blaðamaðurinn gefur til kynna að honum líki vel sjónarmið þessa fyrrum utanríkisráðherra og flokksformanns Samfylkingarinnar varðandi ágæti Evrópusambandsins. Brýning hennar ætti að geta opnað augu Jóhönnu Sigurðardóttur sem eftirmanns hennar á formannsstóli sem og alls almennings. Hann nefnir reyndar að vitsmunum Ingibjargar mætti fylgja meiri sjálfsgagnrýni af hennar hálfu, þar eð hér sé um að ræða annan valdamesta stjórnmálamann landsins í aðdraganda hrunsins. 

Bendir á Björgvin G sem sökudólg

Bomsdorf segist hafa á tilfinningunni að Gísladóttir reyni að gera sem minnst úr sínum hlut í hruninu haustið 2008 og vitnar orðrétt til ummæla hennar þar að lútandi. Hún segist lítið hafa sýslað með fjármál í ríkisstjórninni, og fátt hafi borist inn á hennar borð sem utanríkisráðherra þar að lútandi. Þeim mun ákveðnar skellir hún skuldinni á Geir H. Haarde sem forsætisráðherra og Björgvin G. Sigurðsson ráðherra viðskipta og bankamála. „Sennilega vissu þeir hinir meira en ég.“ – Um leið og blaðamaðurinn ber lof á Ingibjörgu fyrir að leysa nú frá skjóðunni undrast hann að hún sem annar aðaltalsmaður ríkisstjórnarinnar skyldi ekki betur upplýst um gang mála. Í því sambandi minnir hann á ferð hennar til útlanda stuttu fyrir hrun, þeirra sérstöku erinda að verja umsvif íslenska fjármálakerfisins. Orðrétt hefur hann eftir henni: „Ég get ekki séð, hvað ég hefði getað gert öðruvísi á grundvelli þeirra upplýsinga sem ég hafði.“ – Áður hefur komið fram að Ingibjörg hafði ekki fyrir því að upplýsa bankamálaráðherra sinn um aðvaranir Seðlabankans síðsumars 2008. Framganga hennar nú er gamalkunnug fyrir þá sem fylgst hafa með ferli hennar allt frá dögum Kvennalistans. Hún hefur verið iðin við að fága eigin glansmynd á kostnað samstarfsmanna og talað tungum tveim þegar það hefur hentað. 

Hælkrókur á forsætisráðherrann

Sá þáttur viðtalsins sem meiri athygli hefur vakið en hvítþvotturinn hér að ofan er ódulbúin árás Ingibjargar á Jóhönnu forsætisráðherra sem látið hafi undir höfuð leggjast að mæla fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hér hafi vantað öfluga talsmenn fyrir þessu máli mála. Því sé svo komið að ríkisstjórnin gerði réttast í því að draga umsókn sína um ESB-aðild til baka fyrst um sinn, þar eð ekki sé hættandi á að leita til þjóðarinnar með aðildarsamning og láta fella hann, sem henni sýnist blasa við að yrði niðurstaðan. „Það gæti breyst, en þá þurfum við einhvern sem  leiðir baráttuna og berst fyrir aðild, sem enginn gerir nú.“ Síðan málar hún skrattann á vegginn þar sem sé útlendingafælni Íslendinga, sem leiði til þess að Ísland muni missa „besta fólk sitt” sem ekki vilji búa við einangrun. Síðan fylgir söguskýring: „Þeir sem virða fyrir sér sögu Íslands komast að því að okkur hefur gegnum aldirnar ætíð vegnað best efnahagslega, menningarlega og pólitískt  þegar við höfum átt samvinnu við aðrar þjóðir.“ Hvort dönsk yfirráð og verslunareinokun falli hér undir, verður lesandinn að ráða í.   

Tími Jóhönnu liðinn, Ingibjörg endurborin

Ekki þarf lærða stjórnmálafræðinga til að lesa í þau skilaboð sem Ingibjörg Sólrún er hér að flytja flokki sínum. Sjálf virðist hún góðu heilli hafa náð sér eftir alvarleg veikindi líkt og fyrrum samstarfsmaður hennar Geir H. Haarde. Þetta mátti m.a. marka af því að síðastliðið haust sótti hún um starf mansalsfulltrúa Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE). Nú stígur hún fram full af sjálfstrausti sem fyrr og kemur þeim skilaboðum á framfæri við flokk sinn í forystuvanda að hún sé á ný til þjónustu reiðubúin. Jóhanna Sigurðardóttir hafi sýnt að hún dugi ekki sem talsmaður í því eina máli sem Ingibjörg telur að leyst geti vanda Íslands og komið í veg fyrir landflótta og einangrun, sem sé aðild að Evrópusambandinu. Mörgum í Samfylkingunni mun óa við þeim stympingum sem þetta óvænta framboð kann að leiða af sér. Hvort úr því verði brotlending eins og fór um óskadraum fyrrum utanríkisráðherra varðandi aðild Íslands að Öryggisráðinu skal ósagt látið. Til að láta á þetta reyna fyrir alvöru býður Ingibjörg fram tímabundið vopnahlé um Evrópusambandsaðild á meðan hún sé að stíga á bak fáki sínum og losa þjóðina úr viðjum útlendingahaturs og ESB-fælni.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim