Hjörleifur Guttormsson 12. desember 2010

Ekkert bindandi samkomulag í Cancún
Loftslagsráðstefnan vekur þó vonir um að betur takist til að ári

Árlegum fundi aðildarríkja að loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna, COP-16, lauk í Cancún í Mexíkó um óttu á laugardagsmorgni 11. desember. Litlar horfu voru fyrirfram taldar á að þessi ráðstefna myndi skila einhverju marktæku. Því er niðurstöðunni almennt fagnað sem áfanga þótt hún sé langt frá því að skila bindandi samkomulagi um niðurskurð í losun gróðurhúsalofttegunda sem hægt væri að byggja á eftir að Kyótó-bókunin rennur sitt skeið 2012.
Helsti árangur í niðurstöðu Cancún-fundarins felst í eftirfarandi:

  • Að hafa endurvakið von um að alþjóðasamfélagið geti náð saman um lausnir í glímunni við loftslagsvandann. Ráðleysi hafði grafið um sig eftir C0P-15 fyrir ári.
  • Að öll aðildarríkin fallast nú á að taka þátt í samdrætti í losun, ekki bara iðnríkin.
  • Að örva ríki til skógverndar með fjárstuðningi til þeirra sem sannanlega ná árangri.
  • Að leggja 30 milljarða Bandaríkjadala í sjóð vegna þróunarríkja til að verjast afleiðingum loftslagsbreytinga fram til 2012 og allt að 100 milljarða árlega 2020.
  • Að nýr loftslagssjóður verði stofnaður í yfirumsjón þróunarríkja.
  • Að auðvelda miðlun á losunarhamlandi tækni og þekkingu til fátækra ríkja.
  • Að mestu kolefnislosunarríki eins og Bandaríkin og Kína fallast á eitthvert eftirlit.
  • Að fyrir liggi eftir fimm ár vísindalegt endurmat á árangri þessara aðgerða.

Það sem ekki náðist

Á Kaupmannahafnarráðstefnunni (COP-15) fyrir ári var stefnt að því að ná saman um bindandi losun ríkja eftir að tímabili Kyótó-bókuninnar lýkur í árslok 2012. Ekkert slíkt samkomulag náðist og  fáir gerðu sér fyrirfram vonir um að slíkt gerðist í Cancún. Sú varð heldur ekki raunin og nú er ljóst að frá og með árinu 2013 verður rof í bindandi niðurskurði ríkja, jafnvel þótt að ári kunni að takast samkomulag um nýtt kerfi. Því veldur m.a. að öll aðildarrríkin þurfa að staðfesta slíka niðurstöðu, sem vart gengur í gildi fyrr en amk. meirihluti þeirra hefur lokið slíku ferli. Margir óttast jafnframt að með slíkum drætti á samkomulagi séu ríki heims að falla frá sameiginlegu markmiði að stöðva hlýnun lofthjúpsins við +2°C (meðalhita) umfram það sem ríkti fyrir iðnvæðingu. Giskað hefur verið á af fræðimönnum hjá Climate Action Tracker að niðurstaðan í Cancún færi heimsbyggðina að +3°C-markinu sem hefði skelfilegar afleiðingar í för með sér fyrir verst stöddu löndin, m.a. vegna hækkaðs sjávarborðs.

Bólivía streittist á móti

Fram á síðustu stundu ráðstefnunnar leitaðist talsmaður Bólivíu við að koma í veg fyrir ofangreinda niðurstöðu fundarins með þeim rökum að hún fæli í sér að menn væru að kveðja markmiðið um 2°C og tillagan að samkomulagi fæli í sér +4°C hækkun meðalhita eða meira. Fram að þessu hefur það verið óskráð vinnuregla á COP-fundunum að öll ríki þyrftu að una niðurstöðum til að þær teldust samþykktar. Að þessu sinni úrskurðaði forseti ráðstefnunnar, Patricia Espinosa, utanríkisráðherra Mexíkó, að “sammæli þýði ekki að allir greiði atkvæði með” og að sendinefnd eins ríkis geti ekki tekið sér neitunarvald gegn öllum hinum. Það á svo eftir að koma í ljós í framhaldinu hvort forspá Bólívíu rætist um að allt eigi eftir að fara úr böndunum.

Áhugasamtök gagnrýnin

Bólivía stendur ekki ein í gagnrýni á niðurstöðuna, því að undir hana taka flest ef ekki öll umhverfisverndarsamtök sem fylgdust með ráðstefnunni í Cancún. Samtökin Vinir jarðar (Friends of the Earth International) kallaði niðurstöðuna hnefahögg sem leitt geti til +5°C hækkunar meðalhita. Öll heimsbyggðin muni gjalda þessa metnaðarleysis og óábyrgrar afstöðu fáeinna ríkja. “Bandaríkin, ásamt Rússlandi og Japan, eru þau lönd sem bera ábyrgð á að ekki náðu fram metaðarfullar ákvarðanir sem knýjandi nauðsyn er á”, sagði Nnimmo Bassey framkvæmdastjóri samtakanna. Annað hljóð var í mörgum stjórnmálamönnum, þeirra á meðal Todd Stern formanni bandarísku sendinefndarinnar. Bandaríkin eru enn í dag eina ríkið sem ekki hefur staðfest Kyótóbókunina, fyrst og fremst vegna viðvarandi andstöðu þingsins á Kapítólhæð. Bandaríkin og Kína eru talin bera mesta ábyrgð á því hvernig fór í Kaupmannahöfn fyrir ári og á meðan ekki er komið bindandi samkomulag um niðurskurð leika þessir mestu mengunarvaldar lofthjúps jarðar lausum hala.  



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim