Hjörleifur Guttormsson 15. júní 2010

Olíumengunin á Mexíkóflóa og Ísland

Senn eru liðnir tveir mánuðir frá olíuslysinu mikla á Mexíkóflóa þar sem gassprenging varð í BP-olíuborpallinum Deepwater Horizon með þeim afleiðingum að 11 menn fórust og pallurinn sökk í hafið tæpum tveimur dögum síðar. Búnaður til að loka borholunni brást, leiðslur frá henni rofnuðu og með framhaldinu hefur heimsbyggðin fylgst í fréttum daglega. Hér er á ferðinni eitt af stærstu mengunarslysum sögunnar og kallar olíuiðnaðurinn þó ekki allt ömmu sína. Talið er að allt að 6 milljónir lítra af hráolíu hafi streymt upp úr borholunni dag hvern. Bannsvæði gegn fiskveiðum vegna mengunarinnar á Mexíkóflóa er nú um 230 þúsund ferkílómetrar eða meira en tvöfalt flatarmál Íslands.Viðbrögð Obama forseta hafa m.a. verið þau að stöðva tímabundið frekari vinnslu á nýjum hafsvæðum og það sama hafa Norðmenn ákveðið í ljósi þessa atburðar. Hafdýpið á Mexíkóflóa er um 1500 metrar en borholan nær síðan marga kílómetra niður í botninn. Athygli vekur að þetta er nánast sama hafdýpi og talað hefur verið um vegna olíuleitar á Drekasvæðinu.

Tvískinningur stjórnmálamanna

Atburðurinn á Mexíkóflóa hefur vakið meiri athygli en ella hefði orðið vegna þess að slysið varð svo skammt undan strönd Bandaríkjanna og vegna deilna um langt skeið þarlendis um hvort veita eigi heimildir til olíuvinnslu á bandaríska landgrunninu. Staðhæft er að meiri mengun en þegar er orðin á Mexíkóflóa verði árlega við olíuvinnslu Shell og Exxon á óshólmasvæðum Niger-árinnar en þaðan fá Bandaríkin um 40% af olíuinnflutningi sínum. Þótt olíufélögin liggi undir gagnrýni vegna þess að þau sinni ekki öryggisþáttum sem skyldi eiga stjórnmálamenn sinn þátt í þróun þessara mála. Ráðamenn í Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar hafa talað fyrir því að auka hlut olíuvinnslu heima fyrir og borið við þjóðaröryggi. Þannig hafa þeir ýtt á eftir um vinnslu á stöðugt meira dýpi og um leið tekið ábyrgð á aukinni umhverfisáhættu. Athygli vekur að hægristjórnin sem nýsest er að völdum í Bretlandi hefur ekki frestað leyfisveitingum á djúpsævi nærri Shetlandseyjum, andstætt því sem norska stjórnin þó gerði sín megin í Norðursjó.

Þverandi olíulindir – meiri áhætta

Sá tími nálgast óðfluga að ekki reynist unnt að anna sívaxandi eftirspurn eftir olíu þar eð framleiðslugetan hafi ekki undan. Þetta er kallað á enskunni „peak-oil“, þ.e. að náð verði hámarki  vinnslugetu, og telja sérfróðir að sá tími sé skammt undan með tilheyrandi afleiðingum, m.a. fyrir olíuverð. Í stað þess að gera ráðstafanir til að draga úr olíunotkun svo um muni, sem einnig er nauðsynlegt vegna loftslagsbreytinga, er reynt að kreista æ meira út úr þverrandi olíulindum. Atburðurinn á Mexíkóflóa er afleiðing þessarar stefnu og þurfti því ekki að koma mjög á óvart. Við allt aðrar aðstæður er að fást á djúpsævi en nær landi og þannig er sífellt verið að taka meiri áhættu. Baráttan við að stöðva olíulekann þar vestra segir meira en mörg orð og reikningurinn sem fallið gæti á BP er nú talinn geta numið  33 milljörðum bandaríkjadala.

Drekasvæðið og andvaraleysið

Menn rekur eflaust minni til umræðu sem hér varð í aðdraganda alþingiskosninga fyrir ári. Af ummælum ýmissa fjölmiðla með Stöð 2 í fararbroddi og orðræðu sumra frambjóðenda mátti halda að skammt væri í að hæfist „olíuævintýri“ á Norðausturlandi. Það átti að byggjast á þjónustu við umfangsmikla olíuleit á Drekasvæðinu innan íslenskrar lögsögu og síðar væntanlegri vinnslu. Þeir sem minntu á umhverfisþátt málsins voru umyrðalaust stimplaðir úrtölumenn. Kolbrún Halldórsdóttir þá umhverfisráðherra fékk ofanígjöf frá eigin flokksforystu fyrir það eitt að minna á áhættuna sem við blasti og lesa má um í stefnuplöggum VG og opinberum skýrslum (Olíuleit á Drekasvæði við Jan Mayen-hrygg. Iðnaðarráðuneytið. Mars 2007). Þótt hér hafi aðeins verið til umræðu rannsóknir í aðdraganda hugsanlegrar vinnslu ættu Íslendingar sem fiskveiðiþjóð að hugsa sig um tvisvar áður lagt er út á slíka braut. Vitað er að dýrasvif er mjög viðkvæmt fyrir olíumengun og PAH-efni frá henni safnast fyrir í sjávardýrum. Uppsjávarfiskar eins og loðna og síld hafa á síðustu áratugum öðru hvoru haldið sig á Drekasvæðinu eða í grennd þess og verið þar á fæðuslóð.
Eftir þá vá sem við blasir á Mexíkóflóa erum við reynslunni ríkari. Eigum við ekki að láta þann ófarnað okkur til varnaðar verða og leggjast á sveif með þeim sem vilja halda olívinnslu frá norðlægum hafsvæðum?Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim