Hjörleifur Guttormsson 20. nóvember 2010

Bjarghringur sem menn ættu að sameinast um
Ræða á flokksstjórnarfundi VG í Hagaskóla

Fundarstjóri. Góðir félagar.
Fyrir þessum fundi liggja mörg mál sem ástæða væri til að ræða, en ræðutími minn er ekki til skiptanna. Ég kýs því að tala um einu tillöguna sem ég á hlut að á þessum fundi með um 70 flokksmönnum, þ.e. um ESB-aðild, en fyrsti flutningsmaður hennar er Atli Gíslason.

Hver hefði trúað því fyrir síðustu alþingiskosningar að við ættum á flokksvettvangi eftir að standa frammi fyrir aðildarumsókn að Evrópusambandinu með þátttöku flokks okkar?

Flokksforystan talar um málamiðlun sem gerð hafi verið, en þegar litið er yfir aðdragann sést að sú málamiðlun er einhliða og öll á kostnað stefnu VG sem er andvígt aðild að Evrópusambandinu.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um slíkt risaskref í stjórnskipan lands okkar er ekki málamiðlun. Enginn pólitískur ágreiningur er um það hérlendis að slík þjóðaratkvæðagreiðsla hlyti að fara fram ef íslensk stjórnvöld, hvaða ríkisstjórn sem ætti í hlut,  gerði aðildarsamning við ESB.

Það sýnir hins vegar þokuna sem reynt er að sveipa framvindu þessa máls, að látið er líta svo út sem aðildarsamningur svífi inn í kjörklefa til kjósenda án þess að nokkurt stjórnvald, nema kannski utanríkisráðherra einn, beri á honum pólitíska ábyrgð.  VG, sem samkvæmt stefnu sinni er andvígt aðild, þurfi þar hvergi nærri að koma. Staðreyndin er hinsvegar að VG sem aðili að ríkisstjórn yrði að bera á slíkum samningi fulla pólitíska ábyrgð og þar með auðvitað aðrar stofnanir flokks okkar.

Þetta er hnútur sem menn verða að horfast í augu við áður en lengra er haldið. Ég minni í þessu sambandi á það sem fram kemur í greinargerð með tillögu Atla, orðrétt:

„Utanríkisráðherra hefur boðað að þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild fari ekki fram fyrr en eftir að leiðtogaráð ESB hefur samþykkt fyrirhugaðan aðildarsamning, Evrópuþingið hefur veitt samþykki sitt og aðildarsamningurinn hefur verið undirritaður af öllum aðildarríkjum ESB svo og af hálfu ríkisstjórnarinnar.“

Góðir félagar.
Mér finnst ekki seinna vænna en því sé svarað hér á þessum fundi, eða í síðasta lagi á landsfundi flokks okkar á næsta ári, hvort eitthvert vit sé í að halda þessum skollaleik áfram, m.a. nú eftir að opinbert er orðið að Evrópusambandið er staðráðið í og þegar byrjað að „bera fé í dóminn”, eins og formaður VG orðaði það í ræðu sinni áðan, og ætlar að halda hér uppi linnulausri kosningabaráttu af sinni hálfu svo lengi sem því hentar að flækja Ísland í samningaviðræður og aðlögunarferli samkvæmt eigin forskrift.

Framkvæmdastjórn ESB hefur reynslu í þessum efnum þá sjaldan hefur komið til þjóðaratkvæðagreiðslu í ríkjum innan þess, síðast á Írlandi sem nú engist í greipum býrókratanna í Brussel og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

ESB-skrifstofan sem hér hefur komið sér fyrir, nú í fyrstu með 5 manna sérhæfðu áróðursliði til að sannfæra Íslendinga um hvað þeim sé fyrir bestu, vinnur ekki í tómarúmi. Íslenska utanríkisráðuneytið hefur nú það meginhlutverk undir forystu Össurar Skarphéðinssonar að plægja akurinn fyrir aðild og ekkert minna en tvær blaðagreinar á viku frá ráðherranum eiga að undirbúa jarðveginn. Afar einhliða fréttaskýringar Ríkisútvarpsins sem við heyrum nánast daglega, þjóna sama tilgangi. – Við þetta er þjóðinni að óbreyttu ætlað að búa næstu árin, og við spyrjum, hvar er mótvægið?

Var flokkur okkar stofnaður til að búa í haginn fyrir Evrópusambands aðild? Þurfa menn að undrast að kurr sé í liðinu og að menn leiti útgöngu úr þeirri sjálfheldu sem flokkurinn er kominn í. Fyrirliggjandi tillaga Atla Gíslasonar og margra annarra er bjarghringur sem menn eiga að sameinast um að nýta og krefjast svara nú þegar frá Evrópusambandinu um nokkur meginatriði og greina þannig hismið frá kjarnanum.

Forysta flokks okkar og félagar í þessu flokksráði hljóta að gera sér grein fyrir afleiðingum þess fyrir Vinstrihreyfinguna grænt framboð að draga þessa vegferð á langinn. Ríkisstjórnin hefur ærið verk að vinna þótt þessi kaleikur sé frá. Því fyrr sem þetta tundur í farangrinum er aftengt þeim mun líklegra er að árangur náist á þeim sviðum sem máli skipta og samstaða er um í núverandi stjórnarsamstarfi.
Hjörleifur Guttormsson

Athugið: Á bloggsíðu minni er birt tillagan sem meirihluti flokksráðsins felldi.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim