Hjörleifur Guttormsson | 21. mars 2010 |
Evran er myllusteinn en ekki bjarghringur Fyrstu mánuðina eftir hrunið var því haldið stíft að Íslendingum af áróðursmönnum fyrir aðild Íslands að ESB að Evran væri framtíðarlandið og sá bjarghringur sem komið gæti í veg fyrir kreppur og óstöðugleika hérlendis. Um þetta sagði undirritaður í Morgunblaðsgrein haustið 2008: Það „má ekki“ hjálpa Grikkjum Margir horfa í forundran á vandræðaganginn í kringum efnahagsþrengingar Grikkja, ekki síst þeir sem trúað höfðu áróðrinum um Evrópusambandið sem hjálp í neyð. Viðkomandi hafa ekki áttað sig á þeim bitra sannleika að Myntsambandi ESB er samkvæmt eigin grundvallarreglum bannað að láta eitthvað af hendi rakna til ríkis sem gengið hefur gegn þessum sömu reglum, þ.e. Maastricht-skilyrðunum frá árinu 1993. Á grundvelli þeirra var Evru-svæðinu hrint úr vör fyrir áratug og þótt almenningi í Mið-Evrópu þætti sú blessun dýru verði keypt, m.a. í hækkuðu vöruverði í kjölfar myntbreytingar og vaxandi atvinnuleysis, voru flestir farnir að líta á Evruna sem sjálft bindiefnið í Brussel-kerfinu. Það hafði hins vegar gleymst að skrifa inn bindandi refsiákvæði í Maastricht og smám saman hættu jafnvel bókstafstrúaðir eins og Þjóðverjar og Frakkar að taka mark á boðorðunum og syndguðu leynt og ljóst upp á náðina. Það hjálpaði ekki til að gleymst hafði að skipa vaktmeistara yfir hagstofur Evru-landa, þótt léttúð fremur en alvara væri þar ráðandi og það víðar en hjá Grikkjum. Eftir að valdaskipti urðu í Aþenu í kjölfar kosninga sl. haust kom í ljós að fjárlagahallinn sem hægristjórnin þar hafði stofnað til nam ekki 6–7% af vergri þjóðarframleiðslu heldur tvöfaldri þeirri tölu eða sem svaraði 12,7%. Vita ekki sitt rjúkandi ráð Fyrst í stað reyndi sósíaldemókratinn Papandreou að bera sig borginmannlega, Grikkir myndu taka til í sínu húsi án aðstoðar utan frá. Hann hafði unnið kosningasigur á andstæðingi sínum Karamanlis með því að segjast ætla að láta hina ríku greiða fyrir óreiðuna. En þegar veruleikinn blasti við og krafa ESB-ríkja um að Grikkir yrðu að færa hallann á ríkissjóði niður að 3% Maastricht-markinu ekki síðar en árið 2013 fóru samtök launafólks að efna til andófs. Krafan um einhverskonar aðstoð Grikkjum til handa gerðist hávær, þó ekki væri nema að þeim yrði tryggður aðgangur að lánsfé á hliðstæðum kjörum og annars staðar á Evru-svæðinu. Á síðustu vikum hefur umheimurinn orðið vitni að Evrópusambandi í uppnámi, þar sem forystumenn stunda orðaleiki eftir hentugleikum til heimabrúks en engin lausn er í sjónmáli. Sambandið reynist vera rammflækt í eigin regluverki og ófært um að bregðast við Grísku veikinni. Er þó ljóst að smithættan er langt frá því að vera bundin við grísku landamærin. Ný skammstöfun hefur bæst í stórt safn sem fyrir var, þ.e. PIIGS og stendur fyrir Portúgal, Ítalía, Írland og Spánn. Í öllum þessum Evru-löndum er skuldsetning langt yfir Maastricht-kvarðanum og tæpast heldur bætandi á atvinnuleysi á bilinu 10–20% til að ná henni niður. Er Evru-bandalaginu við bjargandi? Þeim röddum fjölgar sem spyrja hvor Myntbandalagið um Evruna muni standast þá spennu sem upp er komin. Hugmynd um sérstakan gjaldeyrissjóð á vegum ESB eftir fyrirmynd Alþjóða gjaldeyrissjóðsins skaut upp kollinum nú í marsmánuði en var jafnóðum kveðin niður þegar tillögusmiðum varð ljóst að breyta þyrfti stofnsáttmála ESB til að slíkt teldist löglegt. Fáir eru bjartsýnir á að slík orrusta myndi vinnast, og örugglega ekki í tæka tíð til að sigrast á Grísku veikinni. Sumir forystumenn eru farnir að opna fyrir að Grikkir kalli á Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, en þar með væru Bandaríkin komin með sterk áhrif inn á Evrusvæðið. Þriðja hugmyndin er um al-evrópskan gjaldeyrissjóð til að nota við slökkvistarf, að formi til óháðan ESB, m.a. með þáttöku Íslands og Noregs sem EES-ríkja. Þá væru menn komnir í dálaglegan hring en eftir sæti Evran króuð af í Maastricht-netinu. Vonandi gera sem flestir Íslendingar sér nú ljóst að bjargræðið eftir hrunið hérlendis kemur ekki að utan. Væri ekki rétt að íslensk stjórnvöld sendi hraðboða til Brussel og kalli umsókn sína um ESB-aðild hið skjótasta til baka? Hjörleifur Guttormsson |