Hjörleifur Guttormsson 21. maí 2010

Innantökur Evrópusambandsins og aðildarumsókn Íslands

Ár er liðið frá því meirihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna settist á stóla að loknum kosningum. Aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu sem ákveðin var við stjórnarmyndunina hefur hvílt eins og mara yfir samstarfi flokkanna. Vinstrihreyfingin grænt framboð braut með þessu gegn eigin stefnu og trúnaðarbrestur varð milli forystu flokksins og stórs hluta af félögum hans. Sundurþykkju sem verið hefur áberandi innan þingflokks VG allt frá því stjórnin var mynduð má að miklu leyti rekja til þessa óheillaskrefs. Skiptir þá engu þótt menn geti um sinn lifað í voninni um að aðildarsamningur verði felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Slíkt örlagamál á ekki að útkljá við þær aðstæður sem hér sköpuðust eftir hrunið og ár munu líða áður en þjóðin hefur unnið sig út úr erfiðleikunum. Með aðildarumsókn að ESB voru gefin alröng skilaboð og ýtt undir falsvonir um að bjargræðis væri að vænta að utan í yfirstandandi þrengingum.

Sundurvirknin magnast í ESB

Margar aðvaranir andstæðinga aðildar hafa á síðustu mánuðum birst í skýrara ljósi en flesta óraði fyrir. ESB sem lýst var af talsmönnum aðildar Íslands sem tryggingu fyrir stöðugleika stendur nú á slíkum brauðfótum að fremstu talsmenn þess eins og Merkel Þýskalandskanslari setja spurningarmerki við framtíð þess. Evrusamstarfið sem haldið var fram að væri trygging fyrir efnahagslegri velmegun og samkeppnishæfni hefur reynst hengingaról fyrir mörg af aðildarríkjunum. Það á ekki aðeins við um Grikkland, sem ýmsir forystumenn ESB segja nú að aldrei hefði átt að hleypa inn í myntsamstarfið, heldur engist nú hálf tylft aðildarrríkja í spennitreyjunni frá Maastricht. Daglega berast nýjar fréttir af neyðarráðstöfunum sem einstök ESB-ríki eru knúin til að fallast á af ótta við Grísku veikina. Fyrrum flaggskip eins og Spánn, sem talinn var lýsandi dæmi um árangur sem ná mætti með ESB-aðild, innleiðir nú hverja neyðarráðstöfunina eftir aðra með skerðingu eftirlauna og félagslegra réttinda. Atvinnuleysið mælist þar nú 20% yfir heildina og tvöfalt meira meðal fólks undir 25 ára aldri.

Evrópustórríkið færist nær

Bjargráðið gegn upplausninni innan ESB sem heyrist nú æ oftar frá framkvæmdastjórninni í Brussel og talsmönnum voldugra landa innan sambandsins er að breyta verði leikreglum á fjármála- og efnahagssviði þannig að tryggt sé að aðildarríkin haldi sig innan settra marka. Með því yrði þrengt stórlega að svigrúmi aðildarríkja á evru-svæðinu og stigið risaskref í áttina að ríkisheild. Mikið mun ganga á áður en slík breyting á sáttmálum ESB næði fram að ganga, ekki aðeins í smærri aðildarríkjum sem hafa veika stöðu fyrir heldur í sjálfum kjarnanum með Þýskaland í fararbroddi. Þar myndi fyrst af öllu reyna á stjórnarskrárákvæði, sem þýski stjórnlagadómstóllinn sker úr um. Óvissan um framtíð og innihald Evrópusamstarfsins ætti að sýna Íslendingum fram á hversu fráleitt það er að eyða nú tíma og fjármunum í að koma á aðildarsamningi við ESB sem enginn veit hvernig líta muni út að fáum árum liðnum.

Lýðræði í mikilli hættu

Sú braut sem ríkisstjórn og meirihluti Alþingis markaði í fyrrasumar með aðildarumsókn að ESB gengur gegn hugmyndum um lýðræði og áhrif almennings á eigin hag. Krafan um nýja stjórnarskrá hefur réttilega verið hávær í framhaldi af hruninu og stjórnvöld láta sem þau vilji marka henni farveg á næstunni. Það rímar hins vegar ekki að ætla á sama tíma að ganga frá aðildarsamningi sem þrengja mun að fullveldi og sjálfræði þjóðarinnar í áður óþekktum mæli. Því er krafan um að umsóknin um aðild Íslands að ESB verði þegar í stað dregin til baka bæði rökrétt og eðlileg þannig að þjóðin nái að ganga frá þeim grunni sem nýrri stjórnarskrá er ætlað að leggja.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim