Hjörleifur Guttormsson | 21. desember 2010 |
Jólahreingerning í þingflokki VG Blessað þingið okkar tók sér jólafrí á laugardaginn var og er auðvitað vel að því komið eftir þrotlausar annir og pústra í viðlögum. Helst bar það til tíðinda á síðustu vökunóttum samkomunnar að í odda skarst stjórnarmegin þar sem þrír þingmenn VG neituðu að ganga í takt við félaga sína við afgreiðslu fjárlaga með þeim skelfilegu afleiðingum að frumvarpið var afgreitt með aðeins 32 atkvæðum gegn engu. Skilst manni að baggamuninn hafi riðið nýr liðsmaður, Þráinn að nafni, sem ekki aðeins hafi bjargað fjárlögum ríkisins með snarræði heldur hafi sá hinn sami héðan í frá fjöregg ríkisstjórnar landsins í hendi sér og megi tæpast bregða sér afsíðis svo að ekki fari um hrygg. Nú hélt maður að eftir þrautir og vökunætur myndi þingflokkur VG fara til síns heima og láta kyrrt um sinn og sjá til hvort ekki rjátlaðist af mönnum ólundin uns aftur verði hringt bjöllum við Austurvöll. En þar misreiknuðu menn sig, því að fjórða valdið, fjölmiðlarnir okkar, gáfu sem oftar engin grið. Á fjórða sunnudegi í aðventu var varalið VG kallað fram á völlinn: Varaformaðurinn Katrín, varaformaður fjárlaganefndar Björn Valur og varaformaður þingflokks Árni Þór, öll á einni og sömu kvöldvaktinni hjá RÚV. Og þá fyrst varð landslýð ljóst í hversu bráðri hættu landsstjórnin er stödd vegna vélabragða þremenningaklíkunnar. Öll áttu þau í varaliðinu það sammerkt að fordæma með sterkum orðum afstöðu þremenninganna og voru sammælt um að þeirra síðarnefndu biði það verkefni „að vinna sig út úr þeim vanda sem þau eru komin í og öðlast á ný traust og trúnað yfirgnæfandi meirihluta þingflokksins“ (Björn Valur). Varaformaður flokksins sagði: „Að sjálfsögðu er þetta alvarlegur núningur, þetta er hreinn ágreiningur“ og upp úr áramótum komi í ljós hvort þingflokkurinn klofnar eða hvort takist að bera klæði á vopnin. Árni Þór sagði málflutning þremenninganna ósanngjarnan, rangan og ódrengilegan. „Þessir þingmenn verða sjálfir að svara því hvort þeir treysti sér til að vinna með okkur hinum ... þau verða að leggja sig fram um að endurheimta það traust.“ Eins og sjá má er hér réttur settur yfir hinum bersyndugu sem nú geta notað jóladagana til að búa sig undir að feta svipugöngin inn í hin helgu vé þingflokksins, þar sem postulatalan 12 stendur vörð. Vonandi er enginn Júdas í þeim hópi. Eftir á að koma í ljós hvort nokkrum detti í hug yfir hátíðarnar gömul sögn um flísina og bjálkann. Á meðan bíðum við hin í söfnuðinum eftir að þremenningaklíkan sýni umbeðin iðrunarmerki og allt falli í ljúfa löð. Hjörleifur Guttormsson |