Hjörleifur Guttormsson | Sumardaginn fyrsta 22. apríl 2010 |
„Dettifossvandinn“, Jakob og Rammaáætlun Þessar vikurnar falla mörg goð af stalli og sum þeirra birtast okkur á síðum dagblaðanna og biðja forláts á gerðum sínum. Önnur bíta í skjaldarrendur og láta sem unnt sé að halda sér á stalli ásamt þeim gildum sem þau stóðu fyrir á öldinni sem leið. Í þeim hópi er Jakob Björnsson fyrrum orkumálastjóri sem flytur landmönnum þá hvatningu í Morgunblaðsgrein á sumardaginn fyrsta að „Við skulum virkja Jökulsá á Fjöllum“. Væri Jakob hér einn á ferð í hugarórum sínum gæfi það tæpast tilefni til andsvars, en þar eð hann telur sig sækja stuðning í stjórnskipaðan vinnuhóp um Rammaáætlun er rétt að staldra við. Samstöðutillaga þingmanna 2006 Haustið 2006 fluttu eftirtaldir sex alþingismenn úr öllum þingflokkum á Alþingi tillögu um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum: Steingrímur J. Sigfússon, Halldór Blöndal, Dagný Jónsdóttir, Össur Skarphéðinsson, Guðjón A. Kristjánsson og Kolbrún Halldórsdóttir. Tillaga þeirra var svohljóðandi:
Tillaga sama efnis hafði áður verið flutt fjórum sinnum á þinginu og hlotið einróma stuðning í umræðum og umsagnir um hana nær undantekningalaust verið jákvæðar. Svo var einnig að þessu sinni. Á sama þingi lá fyrir stjórnarfrumvarp til laga um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og voru lög um þjóðgarðinn nr. 60/2007 samþykkt samhljóða fyrir þinglok í aðdraganda alþingiskosninga. Í nefndaráliti umhverfisnefndar Alþingis 16. mars 2007 um þjóðgarðsfrumvarpið segir m.a.:
Rammaáætlun á röngu spori Í grein sinni heldur Jakob Björnsson því fram að lög um Vatnajökulsþjóðgarð útiloki á engan hátt virkjun Jökulsár á Fjöllum. Honum hefur sést yfir samhengi málsins sem hér hefur verið rakið. Alþingi hefur með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og samhljóma afgreiðslu umhverfisnefndar á þingsályktunartillögu um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum ásamt öllu vatnasviði hennar að meðtalinni Kreppu og öðrum þverám kveðið upp úr um afstöðu sína til hvers kyns virkjunarhugmynda sem tengjast þessu vatnasviði. Greinarhöfundi má hins vegar virða það til vorkunnar að verkefnisstjórn Rammaáætlunar sem starfar í umboði iðnaðarráðherra hefur hagað vinnu sinni þannig að horfa til jarðar eins og hún sé stödd á tunglinu. Á hennar vegum er látið eins og ekkert hafi gerst í almennri umræðu og ákvörðunum stjórnvalda í fortíðinni og friðlýst landsvæði og „virkjunarkostir“ lögð að jöfnu við annað óútrætt. Segir þó um vinnulag verkefnisstjórnar á heimasíðu Rammaáætlunar: „Verkefni rammaáætlunar er mikilvægur hluti af því markmiði fyrrverandi ríkisstjórnar að skapa sátt um vernd og nýtingu náttúrusvæða, sem fjallað var um í stefnuyfirlýsingu hennar.“ Dettifossvandinn Með grein sinni birtir Jakob Björnsson í töfluformi hugmyndir um tvær virkjanir í Jökulsá á Fjöllum, samanlagt upp á röskar 6 terawattstundir á ári. Þetta er drjúgum meiri orka en framleidd er í Kárahnjúkavirkjun. Hann sér fyrir sér draumalausn og segir:
Þessar hugrenningar hafa lengi blundað með fyrrum orkumálastjóra sem barðist fyrir því í alvöru nálægt 1970 að Gullfoss yrði virkjaður við Haukholt. Einnig verkefnisstjórn Rammaáætlunar lítur á það sem hlutverk sitt í umboði iðnaðarráðherra og ríkisstjórnar að leggja mat á virkjun Hvítár ásamt Gullfossi, og menn hljóta að spyrja líkt og í Íslandsklukkunni: Er þá enginn endir á vanitati? Mörg goðin sjálfskipuð og kjörin riða nú til falls. Hluti af því safni er mammon stóriðjustefnunnar sem átti drjúgan þátt í efnahagshruninu. Segja má um Jakob Björnsson svipað og virtur sagnfræðingur hafði við orð í vikunni sem leið um forseta lýðveldisins, að hann væri ekki alómögulegur. Með grein sinni hefur Jakob vakið athygli á að stóriðjuliðið er enn á kreiki og heldur fast við sitt, jafnvel í skjóli stjórnskipaðra nefnda. Hjörleifur Guttormsson |