Hjörleifur Guttormsson 28. febrúar 2010

Loftslagsmálin, bakslag og óvissa

Með aðgerðaleysi sínu í loftslagsmálum síðasta áratuginn bera Bandaríkin höfuðábyrgð á að ekkert bindandi samkomulag náðist um niðurskurð í losun gróðurhúsalofts í Kaupmannahöfn í desember 2009. Jafnframt á Kína sína sök þar eð leiðtogar þess nýttu sér veika stöðu Obama heima fyrir til að koma í veg fyrir samkomulag sem hefði knúið Kína og fleiri stærstu þróunarríkin til að axla ábyrgð og taka þátt í að draga úr losun næsta áratuginn. Þessi tvö iðnveldi, Kína og Bandaríkin, losa til samans um 40% af því gróðurhúsalofti sem árlega mengar lofthjúpinn.  Markmiðið um að unnt verði að stöðva hækkun meðalhita á jörðinni við 2°C á þessari öld stóð tæpt fyrir og er nú í fulkominni óvissu. Hækkun meðalhita frá því fyrir iðnbyltingu er talin nema um 0,75°C og að sú losun sem þegar er komin fram muni skila hækkun sem nemur 0,6°C í viðbót. Þannig er svigrúmið til að stöðva sig af og ná umræddu markmiði aðeins rösklega hálf gráða til hækkunar. Því lengur sem dregst að stöðva aukningu gróðurhúslofts þeim mun erfiðari glíma bíður manna síðar. Vonbrigðin með loftslagsfundinn í Kaupmannahöfn hafa m.a. leitt til þess að forstjóri loftslagsskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, Hollendingurinn Yvo de Boer, hefur nú sagt af sér og Ban Ki Moon leitar nú eftirmanns hans.

Gagnsókn afneitara

Þótt niðurstöður mælinga um hækkun meðalhita séu almennt viðurkenndar er enn hópur manna sem leitar annarra skýringa en að þessi þróun sé af mannavöldum. Hér er um að ræða blandaðan hóp með mismunandi baksvið. Drjúgur hluti hans er hins vegar hagsmunatengdur olíuiðnaðinum sem lagt hefur fram stórar upphæðir í styrki til þeirra sem tala gegn niðurstöðum IPCC-nefndarinnar. Þessir aðilar hófu markvissa gagnsókn í aðdraganda ráðstefnunnar í Kaupmannahöfn og tók iðja þeirra að bera nokkurn árangur eftir að brotist var inn á  tölvukerfi vísindamanna við háskólann í East Anglia og þjófstolin gögn notuð til að sá efasemdum um heiðarleika viðkomandi. David King fyrrum ráðgjafi bresku ríkisstjórnarinnar telur líklegt að ótilgreind leyniþjónusta hafi átt hlut að innbrotinu án þess þó að sannanir liggi fyrir um slíkt. Við þetta bættist síðan röng staðhæfing í einni af mörgum skýrslum IPCC-nefndarinnar frá árinu 2007 um hversu hratt jöklar Himalayja-fjalla bráðni og muni hverfa að mestu. Í kjölfarið komu fram kröfur um að formaður IPCC-nefndarinnar Indverjinn Rajendra Pachauri segði af sér, en hann hafði þær að engu. Umrædd einstök dæmi og falsaðar staðhæfingar hafa verið blásin út í fjölmiðlum og notuð af afneiturum loftslagsbreytinga af mannavöldum til að sá tortryggni og varpa skugga á starf og niðurstöður þúsund vísindamanna.

Endurskoðun gagna um hitastig

Þótt þeim sem hlutlægt líta á loftslagsmálin sé ljóst að þau dæmi sem afneitarar hafa blásið út breyti engu um fyrirliggjandi meginniðurstöður varðandi hlýnun jarðar hafa andstæðingar í krafti fjölmiðlunar haft nokkurn árangur í bili sem brýnt er að bregðast við. Það kallar á vönduð vinnubrögð og reglubundna endurskoðun framlagðra gagna. Tillaga í þessa átt frá bresku Veðurstofunni Met Office var samþykkt af 150 fulltrúum á fundi Alþjóða veðurfræðistofnunarinnar (WMO) í Tyrklandi fyrir fáeinum dögum en útfærsla bíður fundar síðar á árinu. Tillagan gerir m.a. ráð fyrir að öll fyrirliggjandi hitastigsgögn frá um 5 þúsund landstöðvum allt frá upphafi mælinga á 19. öld verði gerð aðgengileg almenningi og yfirfarin á ný af hópum sérfræðinga. Talsmenn bresku veðurstofunnar taka fram að þeir eigi ekki von á að endurskoðunin leiði til meiriháttar breytinga á fyrirliggjandi ályktunum um þróun hitastigs heldur sé tillaga þeirra fyrst og fremst sett fram til að tryggja gagnsæi og öruggar niðurstöður. Þær birtast væntanlega í næstu skýrslu IPCC-nefndarinnar sem kemur út á  árinu 2013 eða 2014.

Tíminn að renna út

Mikið er undir því komið að skriður komist á ný á undirbúning að nýrri bókun á grundvelli loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og að endurnýjað verði traust almennings á niðurstöðum loftslagsvísindanna. Á þetta var lögð rík áhersla á árlegri umhverfisráðstefnu á Bali nú í febrúarlok þar sem fjallað var um undirbúning fyrir COP-16 ársfund aðila loftslagssamingsins í Cancún í Mexíkó í nóvember næstkomandi. Síðustu forvöð til að ganga frá nýju alþjóðlegu samkomulagi áður en Kyótó-bókunin rennur út eru á COP-17 fundi í Suður-Afríku síðla árs 2011.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim