Hjörleifur Guttormsson 31. maí 2010

Að loknum sveitarstjórnarkosningum

Úrslit sveitarstjórnarkosninganna voru misjöfn eftir því hvar borið er niður, en ef reynt er að finna samnefnara fyrir heildina má segja að allir hafi tapað nema helst Listi fólksins á Akureyri. „Sigurvegarinn“ í Reykjavík, Besti flokkurinn, safnaði að vísu atkvæðum í ríkum mæli, augsýnilega langtum fleiri en forsprakkar hans kærðu sig um, því að leikurinn var ekki gerður til að ná pólitískri fótfestu í Reykjavík heldur til þess eins að lífga upp á gráma hversdagsins. Fyrsta verk Jóns Gnarrs var að vísa á embættismannakerfið í höfuðstaðnum sér til bjargar jafnframt því sem hann að eigin sögn reynir að eyða „paranoiu“ (ótta og ranghugmyndum) í eigin garð af hálfu samverkamanna. Það segir sitt um hugarástand þriðjungs Reykvíkinga að kasta atkvæði sínu á slíkt framboð þegar velja á stjórn fyrir borgina til næstu fjögurra ára. Eru menn hér að kalla á Sterka manninn til að taka af okkur ómakið?

Stjórnmálaflokkar í sárum

Litið til stjórnmálaflokkanna blasir við að þeir eru meira og minna í sárum. Varlegt er þó að draga of miklar ályktanir af úrslitunum á gengi einstakra flokka, því að fólk ver atkvæði sínu oft með öðrum hætti í kosningum til sveitarstjórna en í alþingiskosningum. Þar skiptir viðhorf til einstaklinga í framboði oft meira máli en flokksskírteinin og allskonar tengsl og sögulegar ástæður ráða vali. Fljótt á litið virðist Sjálfstæðisflokkurinn sleppa skást flokka frá þessum kosningum, og má það teljast til tíðinda um höfuðpaurinn í hruninu og ber ekki vott um að  kjósendur hans séu langræknir eða horfi mikið undir yfirborðið. Flokkarnir sem nú standa að ríkisstjórn, Samfylking og Vinstri grænir, ríða ekki feitum hesti frá kosningunum og niðurstaða þeirra verður ekki túlkuð öðruvísi en sem sterk aðvörun. Samfylkingin beið afhroð á mörgum stöðum, einna sárast í Reykjavík og Hafnarfirði. Getur niðurstaðan haft veruleg áhrif á málefnastöðu flokksins, m.a. fótfestu þeirra innan hans sem fastast róa fyrir stóriðju og álvæðingu. Framsóknarflokkurinn má heita horfinn á höfuðborgarsvæðinu og lá við að formaður hans fagnaði því að húsið væri brunarústir einar svo hægt væri að byggja á nýjum grunni. Þau ummæli gáfu Guðmundi Steingrímssyni, væntanlegum keppinaut um forsætið, tilefni til að setja rækilega ofan í við Sigmund Davíð.

Vinstri græn sjálfum sér verst

Vinstri grænir hefðu við núverandi aðstæður átt að hafa ytri forsendur  til að ná góðum árangri í þessum kosningum. Flokkurinn hafði hreinan skjöld gagnvart hruninu og formaður hans nýtur almennrar viðurkenningar fyrir dugnað við stjórnvölinn í ríkisstjórninni. Stefna flokksins ætti að gefa góðan byr til sóknar, ekki síður í nærumhverfi en á landsvísu. En þetta dugði ekki til, þó með undantekningum eins og í Hafnarfirði, Skagafirði, Norðurþingi og víðar. Útkoman í Reykjavík veldur eðlilega mestum vonbrigðum, en þar hefur staða flokksins frá upphafi verið einna best. VG-fólk spyr sig eðlilega hvað valdi þessari niðurstöðu. Ég nefni hér fáeinar nærtækar ástæður, þótt fleira komi til. VG hefur um skeið vanrækt innra starf flokksins, einkum að útfæra stefnumið sín til að koma þeim á framfæri sem víðast og sniðin að tilefni hverju sinni. Enginn stjórnmálaflokkur hérlendis er nestaður til framtíðar litið viðlíka vel og VG með alla þætti sjálfbærrar þróunar í farangrinum. Það dugar hins vegar ekki til sé boðskapnum ekki rækilega og samþætt til skila haldið og staðið í ístaðinu þegar um meginmál er að ræða eins og andstöðu við aðild að Evrópusambandinu. Störf tengd þátttöku í ríkisstjórn leggjast eðlilega þungt á forystusveit flokksins, en þeim mun brýnna er að breikka grunninn og virkja sem flesta til þátttöku. Á því hefur verið mikill misbrestur síðustu misseri, þannig að forystan virkar sem einangruð, að ekki sé talað um áberandi deilur um smátt og stórt í  þingflokki VG og það rétt ofan í kjördag! Verði ekki breyting á þarf ekki að spyrja að leikslokum.

Forheimskandi umræða

Umræðan um „fjórflokkinn“, líf hans eða dauða, hefur verið áberandi í kringum nýafstaðnar kosningar. Þar ganga lengst sér til hægari verka ýmsir þáttastjórendur og tilkvaddir stjórnmálafræðingar, þó með undantekningum. Öll er sú umræða innantóm froða nema ef menn ímynda sér að samfélaginu væri betur komið án stjórnmálaflokka með mismunandi áherslur og leiðir. Miklu fremur hefur á það skort að almenningur sé hvattur til stjórnmálaþátttöku, eftir aðstæðum og áhuga hvers og eins, innan hefðbundinna eða nýrra flokka og í frjálsum félagasamtökum. Það kom á  óvart að Jóhanna forsætisráðherra slóst á kosninganótt í hóp þeirra sem sjá fyrir sér endalok „fjórflokksins“. Í stað þess að reyna að setja eitt brennimark á stjórnmálaflokka er brýnna nú en áður að greina og ydda þann málstað sem flokkarnir, hver og einn, standa fyrir jafnhliða því sem leikreglur eru skýrðar og lýðræði eflt með nýrri stjórnarskrá.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim