Hjörleifur Guttormsson 2. janúar 2011

Rýnt í landslag stjórnmálanna í ársbyrjun

Óvissa er það sem upptekur hugi margra nú í byrjun árs og ekki að undra miðað við það sem undanfarið hefur á gengið hérlendis. Árin tvö sem liðin eru frá hruni fjármálakerfisins hafa verið mörgum erfið persónulega, skekið undirstöður samfélagsins og veikt trú manna á  grónar stofnanir og stjórnmálakerfið í landinu. Úttektin sem gerð var á hruninu af Rannsóknarnefnd Alþingis og skilað var vorið 2010 er góðra gjalda verð, en hefur ekki gagnast sem skyldi í þjóðfélagsumræðunni. Þar er um að kenna úthaldsleysi fjölmiðla og máttleysi stjórnmálaflokka að takast á við og leita svara við þeim spurningum sem skýrsla nefndarinnar vekur. Ákallið eftir að sækja helstu gerendur hrunsins til saka gat ekki borið skjótan ávöxt vegna seinvirkni dómskerfisins. Geir H. Haarde dinglar heldur einmana í snörunni sem Alþingi bjó honum á meðan aðrir sluppu og hafa sumpart hlotið vegtyllur síðan svona eins og til að sanna samtryggingu stjórnmálamanna. Samhengi hrunsins hérlendis við fjármálakreppuna á Vesturlöndum og aðild Íslands að EES-samningnum hefur ekki heldur fengið þá athygli sem skyldi og því vantar mikið á að heildstæð mynd liggi fyrir til að ráða ráðum um framtíð lands okkar og þjóðar.

Of mikið færst í fang samtímis

Bráðaviðbrögð við hruninu hafa eðlilega kallað á krafta stjórnmálamanna, opinberrra stofnana og fjármálakerfis. Margt hefur þar bærilega til tekist miðað við örðugar aðstæður á sama tíma og annað hefur mislukkast. Hæst ber þar Icesafe-glímuna þar sem stjórnvöld vanmátu stöðu Íslands og ætluðu sér að hespa málið af án viðunandi greiningar og umræðu. Annar afdrifaríkur þáttur var óhæfilegur dráttur á stefnumótun um viðbrögð við „vanda heimilanna“, sem auðvitað er jafn misjafn og heimilin eru mörg. Áróður stjórnarandstöðu og fleiri um patentlausnir átti þar hlut að máli ásamt lagalegri óvissu um ýmsa þætti. – Allt hefði þetta nægt landslýð og stjórnkerfi að fást við þótt ekki væri ráðist í viðameiri mál horft til framtíðar, svo sem endurskoðun stjórnarskrár lýðveldis okkar, að ekki sé talað um að sækja fyrir Íslands hönd um aðild að Evrópusambandinu. Hvoru tveggja var þó knúið fram fyrir forgöngu ríkisstjórnar og með þátttöku stjórnarandstöðu á Alþingi, umsókn um ESB-aðild með naumum meirihluta en aðeins einn greiddi atkvæði gegn lögum um stjórnlagaþing. Svikist var aftan að kjósendum með fyrri ákvörðunina og sú síðari um endurskoðun stjórnarskrárinnar hefði þurft mun lengri aðdraganda og betri undirbúning, meðal annars til að ræða ítarlega spurninguna um samskipti Íslands við önnur ríki.

Halda stjórnmálaflokkarnir velli?

Sú spurning er áleitin hvernig núverandi stjórnmálaflokkum reiðir af í eftirleik hrunsins. Flokkarnir þrír sem um stjórnvölinn héldu, lengst af Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur og Samfylkingin á lokaspretti, eru eðlilega laskaðir og í sárum eftir það sem gerðist og hafa engan veginn náð að rétta við og verða trúverðugir í augum margra fyrrum stuðningsmanna. Engin viðhlítandi endurskoðun hefur farið fram á stefnu þeirra og starfsháttum og látið hefur verið við það sitja að skipta út nokkrum andlitum og biðja alþjóð óskilgreindrar afsökunar á þætti þeirra í ófarnaði liðinna ára. Afkvæmi þessarar framgöngu flokkanna hafa birst m.a. í nýjum framboðum eins og Borgarahreyfingunni sem gufaði upp og Besta flokknum sem situr uppi með skrekkinn eftir að hafa óvænt fengið fjöldafylgi í höfuðstaðnum. Vinstri grænir sem komu óspjallaðir frá hruninu og gerðust  burðarás í ríkisstjórn fyrir tveimur árum, hafa ekki megnað að veita samtímis forystu í vandasömum ráðuneytum og halda lifandi glóðinni í lýðræðislegu og stefnumarkandi flokksstarfi, sem margir höfðu átt hlut að, m.a. í aðdraganda alþingiskosninganna 2007. Það ásamt því að bregðast yfirlýstri stefnu um andstöðu við aðild að Evrópusambandinu er meginástæðan fyrir því ósætti innan VG sem blasað hefur við alþjóð nú í meira en ár. Á hvoru tveggja þarf að verða gagngerð breyting eigi flokkurinn að halda styrk til frambúðar samtímis því að umhverfismálin þurfa að fá meira vægi í stefnumörkun hans en hingað til.

Evrópusamband í tilvistarkreppu

Á liðnu ári birtust með skýrum hætti veikleikar og brotalamir innan Evrópusambandsins sem fyrr en varir geta gjörbreytt stöðu þess og einstakra aðildarríkja. Þetta viðurkenndu nú um áramótin ýmsir talsmenn ESB með „forsetann“ Rompuy fremstan í fylkingu. Vandinn tengist fyrst og fremst Evru-samstarfinu og gífurlegum mótsögnum sem af því stafa. Þýskur útflutningsiðnaður hefur beitt evrunni sér til hagsbóta á sama tíma og framleiðni og samkeppnisaðstaða annarra ríkja líður fyrir spennitreyju evrunnar. Við þetta bætist mikil skuldsetning og hækkandi fjármagnskostnaður margra ESB-ríkja. Það er óheyrilegt að íslensk stjórnvöld séu nú að hefja aðlögun að þessari fallvöltu samsteypu með aðild að markmiði í trássi við stóran hluta þjóðarinnar. Binda verður endi á þann leiðangur sem fyrst og leitast við að sameina þjóðina um gild og brýn viðfangsefni. Af nógu er þar að taka.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim